Kafli 3. Hallarbylting - deilur og sættir

3.1 Sögulegur aðalfundur 1968

Þegar kom fram á árið 1968 hafði Sveinn Ásgeirsson verið formaður og framkvæmdastjóri samtakanna frá stofnun, eða í fimmtán ár. Auk þess hafði hann verið ritstjóri Neytendablaðsins og upplýsingabæklinga þess. Lögfræðingur samtakanna frá því skrifstofa þeirra opnaði var Birgir, bróðir Sveins. En nú voru breytingar í aðsigi. Sveinn hafði lengst af haft ýmsa málsmetandi menn með sér í stjórninni en bar sjálfur hita og þunga af starfinu án teljandi afskipta stjórnarinnar. Á starfsárinu 1967–1968 hafði hins vegar borið nokkuð á því að stjórnarmenn vildu hafa meiri afskipti af málum samtakanna.

Sögulegasti aðalfundur Neytendasamtakanna var haldinn í Tjarnarbúð 29. júlí 1968. Á fundinn fjölmennti fólk, einkum sósíalistar og alþýðuflokksmenn sem áður höfðu ekki sýnt samtökunum sérstakan áhuga. Ýmislegt bendir til þess að Sveinn hafi sjálfur viljað róttækar breytingar á stjórn samtakanna og að starfsmaður hans, Halldór Stefánsson, hafi smalað á fundinn með vitneskju Sveins, þó svo að hann missti síðar stjórn á atburðarásinni. Við stjórnarkjör var kosin ný stjórn að því undanskildu að Sveinn náði kjöri og stjórnin kaus hann formann.  Auk Sveins voru í stjórninni einn framsóknarmaður, einn alþýðuflokksmaður, þrír alþýðubandalagsmenn og einn utanflokka.

Valdabarátta kom nú upp milli hinnar nýju stjórnar og fráfarandi stjórnar en Sveinn og Halldór urðu ósáttir við nýju stjórnina og lentu milli steins og sleggju. Rúmum mánuði eftir aðalfundinn vék stjórnin Sveini frá sem formanni og framkvæmdastjóra og samþykkti að láta fara fram opinbera rannsókn á fjárreiðum samtakanna. Sveinn svaraði þessari aðför með bæklingnum Innrásin í Neytendasamtökin þar sem hann hélt því fram að aðalfundurinn hafi verið ólöglegur. Sveinn hafði mætt á fundarstað til að tilkynna fundarmönnum þá ákvörðun stjórnarinnar að fundinum yrði frestað og auk þess hafi um þrír fjórðu hlutar fundarmanna mætt ólöglega á fundarstað með fölsuð félagsskírteini.

Heimildarmenn kannast ekki við að Sveinn hafi lýst nokkru yfir á aðalfundinum. Nokkur átök höfðu verið í stjórninni um þá ákvörðun að víkja Sveini frá. Að sögn Gísla Gunnarssonar vildi hann láta nægja að láta Svein hætta, alla vega tímabundið en sleppa lögreglukærum um fjárreiðurnar þar sem hann óttaðist að kæra gæti riðið samtökunum að fullu. Mótrök Jóns Oddssonar, héraðsdómslögmanns, voru þau að ef þessi stjórn kærði ekki, yrði fráfarandi stjórn hugsanlega að gera það og þá sæti nýja stjórnin í súpunni með Sveini. Þessar skýringar Jóns voru meginástæða þess að út í aðgerðina var farið.

Sveinn klemmdist þannig á milli vilja tveggja stjórna samtakanna. Tillaga Jóns um lögreglurannsókn var samþykkt samhljóða en Gísli sat hjá við afgreiðsluna.

Deilan um Neytendasamtökin 1968 minnir að hluta til á róttækni og pólitíska virkni ungra vinstri manna á þessum árum. Sveinn var sjálfstæðismaður en þó hógvær í skoðunum og alls enginn málsvari heildsala. Morgunblaðið dró því taum hans í miklum blaðaskrifum um málið og leit á Neytendasamtökin sem róttæklingahreiður. Samtökin urðu fyrir umtalsverðum álitshnekki meðal almennings, einkum vegna kröfunnar um opinbera rannsókn á fjárreiðum þeirra og samtökin misstu í kjölfarið helming félaga sinna sem voru um 3500 á miðju ári 1969. Auk þess varð deilan án efa persónulegt áfall fyrir Svein. Á hinn bóginn má færa sterk rök að því, að öllum ólöstuðum, að samtökin þörfnuðust uppstokkunar, sérhæfðari stjórnunar fleiri einstaklinga og ólíkra sjónarmiða ef þau áttu að þróast yfir í öflug fjöldasamtök.

Árið 1969 náðust sættir um ávirðingar á hendur Sveini í deilunni um fjárreiður samtakanna og var málið tekið úr höndum lögreglu. Þar réðu ferðinni lögmennirnir Birgir Ásgeirsson og Jón Oddsson. Í afmælisblaði Neytendasamtakanna 1983 er viðtal við Svein um fyrstu fimmtán ár samtakanna og þremur árum síðar var hann gerður að eina heiðursfélaga Neytendasamtakanna.

3.2 Nýir stjórnarherrar

Fyrsta árið eftir hallarbyltinguna var Neytendasamtökunum á margan hátt erfitt. Margir stjórnarmenn urðu fljótt óvirkir í starfi. Við formennsku tók Hjalti Þórðarson frá Selfossi og gegndi formennsku fram að næsta aðalfundi, Hjalti var framsóknarmaður eins og áður sagði. Hrafn Bragason var ráðinn í hlutastarf sem lögfræðingur samtakanna en framkvæmdastjóri var Kristján Þorgeirsson. Hann og Karl Steinar Guðnason voru alþýðuflokksmennirnir í stjórninni. Gegndi Kristján framkvæmdastjórastöðunni skamma hríð. Fulltrúar róttækra vinstri manna í nýju stjórninni voru Gísli Gunnarsson ritari, síðar sagnfræðiprófessor, Jón Oddsson lögmaður og Hafsteinn Einarsson, síðar lögfræðingur. Ólíkt því sem áður hafði ætíð tíðkast var nú enginn sjálfstæðismaður í stjórn samtakanna.

Gísli Gunnarsson átti eftir að starfa mikið fyrir samtökin næstu fjögur árin. Auk þess að vera ritari stjórnar var hann um tíma framkvæmdastjóri þegar Kristján hætti störfum 1969. Gísli kom mikið að stjórnun samtakanna fram til 1972 og var auk þess ritstjóri Neytendablaðsins 1968–1972. Efnisval og efnistök breyttust nokkuð með hans ritstjórn og töldu ýmsir sig merkja þar róttækni ritstjórans. Hann sendi okrurum tóninn, tortryggði auglýsingar almennt og gagnrýndi margar þeirra. Hann vildi banna sjónvarpsauglýsingar. En Gísli var góður ritstjóri. Blaðið var í mjög ódýru broti, kom út þrisvar á ári, var efnismikið og yfirleitt á léttum nótum. Það tók á nýjum málum, s.s. afborgunarskilmálum, og ritstjórinn vann viðamiklar kannanir og vandaðar úttektir á ýmsum vörutegundum.

3.3 Þjóðstjórnin

Árið 1969 var stjórnin nánast orðin óstarfhæf sökum áhugaleysis og ágreinings. Alþýðuflokksmennirnir Kristján og Karl höfðu dregið úr virkri þátttöku sem og Hafsteinn og Jón Oddsson vildi hætta í stjórninni við fyrsta tækifæri.

Þeir sem eftir sátu í stjórn samtakanna mynduðu nú nýja stjórn með þátttöku sjálfstæðismanna. Síðla hausts 1969 kaus aðalfundur nýja stjórn. Eftir sátu áfram frá fyrri stjórn þeir Gísli, Hjalti og Kristján. Hjalti hætti sem formaður. Óttar Yngvason, síðar forstjóri Útflutningsmiðstöðvarinnar, varð nú formaður samtakanna og gegndi því embætti til 1973. Hann var fulltrúi Alþýðuflokksins ásamt Kristjáni en Bjarni Helgason jarðeðlisfræðingur og Höskuldur Jónsson, síðar forstjóri ÁTVR, voru fulltrúar sjálfstæðismanna. Gísli var áfram ritari og ritstjóri og hafði með sér annan alþýðubandalagsmann, Hallveigu Thorlacius. Þeir Óttar, Gísli og Bjarni mynduðu nokkurs konar framkvæmdaráð þó að þeir Gísli og Bjarni kæmu mest að starfi og stefnumótun samtakanna á þessum árum.

Var samstarf þeirra mjög gott þótt auðvitað væru þeir ekki alltaf sammála. Samtökin tóku því að rétta úr kútnum í árslok 1969, festa komst á stjórn þeirra og Morgunblaðið tók samtökin í sátt sem var mjög mikilvægt á þessum áhrifatímum dagblaðanna. Félagsmönnum samtakanna fjölgaði nú jafnt og þétt og voru komnir í 5000 manns árið 1972.

Starf Bjarna var samtökunum að mörgu leyti mjög mikils virði. Hann var ráðagóður og umburðalyndur. Hins vegar var hann ekki viðbúinn að mæta þeim erfiðleikum sem komu upp þegar átök urðu 1973 milli stjórnar og starfsmanna samtakanna.