Kafli 4. Skin og skúrir 1973–1982

 4.1 Rekstrar- og fjármálaerfiðleikar

Gísli Gunnarsson starfaði meira fyrir Neytendasamtökin og kom meira að stefnumótun þeirra en nokkur annar maður frá 1968–1972. Var hann í hlutastarfi á tímakaupi en hann var gagnfræðaskólakennari að aðalstarfi. Hrafn Bragason, síðar hæstaréttardómari, var lögfræðiráðgjafi samtakanna, einnig í hlutastarfi á tímakaupi en hann var þá dómarafulltrúi að aðalstarfi. Frá haustinu 1969 til miðs árs 1973 var Áslaug Káradóttir fastráðinn starfsmaður samtakanna og sá þar um allt skrifstofuhald. Hrafn hætti störfum fyrir samtökin 1971. Snemma árs 1971 var Björn Baldursson lögfræðingur ráðinn í hlutastarf sem yfirmaður kvörtunarþjónustu samtakanna, einnig skyldi hann létta ritstjórnarstörf Gísla. Hann hafði titil sem framkvæmdastjóri en því fylgdu engin völd og féll honum það illa. Gísli, með aðstoð Bjarna, réð áfram því sem hann vildi. Gísla og Birni samdi ekki og vildi Gísli láta víkja Birni úr starfi snemma árs 1972 en tilaga þar um felld í stjórn.

Það urðu óneitanlega nokkur kaflaskil þegar Gísli hætti öllu starfi fyrir samtökin og hvarf utan til náms 1972. Við brottför hans voru þrír ráðnir í hlutastarf við ritstjórn samtakanna og voru þá á tímabili fimm í einhvers konar starfi við skrifstofu samtakanna. Ekki náðist að skipuleggja starfið sem skyldi. Vaxandi spennu gætti milli Björns Baldurssonar og sumra ritstjórnarmanna annars vegar og stjórnarinnar hins vegar, meðal annars vegna greiðslna fyrir vinnu. Fóru leikar svo að öllu hlutastarfsfólki var sagt upp vorið 1973. Burðarási í daglegu starfi samtakanna, Áslaugu Káradóttur, fannst stjórnin ganga of langt í uppsögnum sínum og sagði sjálf upp störfum í mótmælaskyni.

Haustið 1973 voru samtökin aftur komin í umtalsverð vandræði hvað varðar stjórn, starf og fjárhag. Bjarni Helgason sem hafði verið varaformaður samtakanna frá 1971 tók við formennsku 1973 og gegndi embættinu til 1974. Þá gegndi Guðmundur Einarsson formennsku í eitt ár, 1974–1975 og Sigurður P. Kristjánsson í annað ár, 1975–1976. Á formannsárum Bjarna, Guðmundar og Sigurðar var lögð áhersla á alhliða sparnað, niðurskurð og skuldagreiðslu. Á þessum aðhaldsárum, 1973–1976, var öll starfsemi Neytendasamtakanna skorin niður. Útgáfustarfsemi var í lágmarki og í nokkur ár kom einungis út eitt tölublað Neytendablaðsins á ári og stundum ekkert og önnur starfsemi samtakanna var eftir því. Þegar samtökin náðu svo því mikilvæga markmiði að greiða skuldir sínar að mestu leyti hafði það kostað þau þúsundir félagsmanna sem hafði fækkað í fimmtán hundruð manns í lok áttunda áratugarins.

4.2 Stjórnartíð Reynis Ármannssonar

Árið 1976 varð Reynir Ármannsson formaður Neytendasamtakanna og gegndi hann formennsku til 1982. Reynir var yfirvegaður, raunsær og gætinn. Honum tókst það erfiða verkefni að losa samtökin endanlega úr skuldum, koma aftur á festu við stjórnunina og snúa samtökunum aftur til sóknar, hægt og bítandi án þess að fjármálin færu úr böndunum. Nú var ráðinn einn starfsmaður á skrifstofuna í fullt starf og 1981 fjölgaði tölublöðum Neytendablaðsins úr einu í tvö á ári. Auðvitað var fjármálastjórnin á þessum erfiðu árum ekki eingöngu í höndum eða alfarið á ábyrgð formanna samtakanna. Gjaldkerar unnu þar mikið og oft erfitt starf og má í því sambandi nefna einstaklinga á borð við Björn Matthíasson, Eiríku Friðriksdóttur og Sigríði Friðriksdóttur.

Reynir gerði sér grein fyrir því að Neytendasamtökin væru ekki og yrðu líklega aldrei ópólitísk. Þau væru hins vegar þverpólitísk og því skipti mestu að komast hjá illvígum, pólitískum deilum með því að forðast öfgar og ræða opinskátt um ágreiningsmál. Þetta tókst í öllum meginatriðum í stjórnartíð hans, enda Reynir sjálfur öfgalaus, hógvær og víðsýnn með mikla reynslu af félagsmálum. Hann starfaði sem póstmaður á árunum 1941–1982 og hafði verið formaður Póstmannafélags Íslands á árunum 1970–1976. Reynir lést 4. desember 2002.

Jónas Bjarnason var varaformaður Neytendasamtakanna lengst af í formannstíð Reynis, eða á árunum 1976–1981. Hann er efnaverkfræðingur að mennt og stundaði framhaldsnám í næringarfræði, var yfirverkfræðingur hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, var formaður BHM 1974–1978 og forseti Náttúrulækningafélags Íslands. Jónas kom mikið að stjórn samtakanna á þessum árum og skrifaði fjölda greina um neytendamál í tímarit samtakanna og í dagblöð.

Guðsteinn V. Guðmundsson var ráðinn framkvæmdastjóri samtakanna árið 1981 og gegndi því starfi til ársins 1987.

4.3 Baráttumál í tíð Reynis

Af stórum málum Neytendasamtakanna í stjórnartíð Reynis má einkum nefna þrjú mál: Í tómatamálinu börðust samtökin fyrir því að Sölufélag garðyrkjumanna hætti að fleygja á haugana svonefndri umframframleiðslu tómata yfir háuppskerutímann til þess að koma í veg fyrir verðlækkun þegar framboðið var mest. Þetta tókst með góðri aðstoð DV sem birti fréttir og myndir af þessari ógeðfelldu sóun.

Samtökin komu einnig mjög við sögu í svonefndu lagmetismáli. Neytandi hafði kvartað undan gölluðum, niðursoðnum sjólaxi. Við nánari athugun kom í ljós að mikið var um gallað, jafnvel skemmt lagmeti framleitt hér á landi og fengust umtalsverðar úrbætur á þeim málum í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld.

Loks má nefna mjólkurmálið en 1981 hafði Mjólkursamsalan notast við bilað gerilsneyðingartæki í marga mánuði með þeim afleiðingum að mjólkurgæðin minnkuðu stórlega, auk þess sem mjólkin hafði nánast ekkert geymsluþol. Vegna baráttu samtakanna skipaði þáverandi heilbrigðisráðherra nefnd sem kom með ýmsar mikilvægar úrbótatillögur. Mjólkurfræðingafélag Íslands studdi Neytendasamtökin í þessum málarekstri. Þá kom sér vel að Jóhannes Gunnarsson mjólkurfræðingur, síðar formaður samtakanna, var orðinn mjög virkur í samtökunum. Þess má geta að samtökunum var stefnt er þau leyfðu sér að vara við tiltekinni auglýsingu um litasjónvörp. Málið minnti á Hvile Vask-málið en Neytendasamtökin unnu nú málaferlin bæði í undirrétti og hæstarétti.

4.4  Úr staðbundnu félagi í landssamtök

Mikilvægustu breytingarnar á uppbyggingu og félagsstarfi Neytendasamtakanna hófust í stjórnartíð Reynis. Þá voru stofnuð neytendafélög víðs vegar um landið. Strangt til tekið voru Neytendasamtökin upphaflega stofnuð sem Neytendafélag Reykjavíkur. Málsvarar samtakanna fengu oft að heyra það frá alþingismönnum og öðrum ráðamönnum að hér væri í raun um að ræða hagsmunafélag sem væri svæðisbundið við höfuðborgarsvæðið. Það var því mjög mikilvægt fyrir ímynd samtakanna út á við, sem og alla félagslega uppbyggingu þeirra, að hefja stofnun öflugra neytendafélaga á landsbyggðinni.

Þessi þróun hófst með stofnun öflugs félags í Borgarnesi 1978. Sá sem þar kom mest við sögu var mjólkurfræðingurinn Jóhannes Gunnarsson. Í kjölfar Borgarnessfélagsins var stofnað neytendafélag á Akranesi sama ár, á Akureyri 1979 og síðan á Húsavík, Egilsstöðum, Seyðisfirði, Neskaupstað, Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Höfn í Hornafirði. Neytendafélög voru stofnuð á Blönduósi og Sauðárkróki snemma árs 1980 en 1982 var stofnað neytendafélag á Ísafirði og sérstakt neytendafélag á höfuðborgarsvæðinu.

Lögum Neytendasamtakanna var síðan breytt þannig að Neytendasamtökin urðu í raun landssamtök þessara neytendafélaga. Jafnframt var stjórnarmönnum í Neytendasamtökunum fjölgað úr sjö í tólf. Þessar breytingar tóku gildi á aðalfundi samtakanna 1982.