Kafli 5. Breyttir tímar – breytt samtök

 5.1 Formannstíð Jóns Magnússonar

Á aðalfundi Neytendasamtakanna 1982 var Jón Magnússon lögmaður kosinn formaður og gegndi hann embættinu í tvö ár. Jón var þaulvanur stjórnmálum og félagsstörfum. Eins og góðum lögfræðingum er lagið var hann sleipur í lagakrókum, fljótur að átta sig á aðalatriðum hvers máls, flugmælskur og var því góður málsvari samtakanna í fjölmiðlum. Jón hafði starfað mikið í röðum ungra sjálfstæðismanna, var formaður Stúdentaráðs HÍ 1970–1971, formaður Heimdallar 1975–1977, sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og hafði verið formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna 1977–1981. Þá sat hann á Alþingi um skeið sem varaþingmaður. Jón fylgdi frjálslyndari armi ungra sjálfstæðismanna og var því aldrei bendlaður við frjálshyggjuhreyfinguna sem mikið bar á um þetta leyti.

Jón vann mikið starf fyrir Neytendasamtökin. Auk þess að vera formaður samtakanna sat hann í stjórn þeirra frá 1978–1984, sat aftur í stjórn 1988–1990 og 1996–2000 og var þá jafnframt varaformaður. Þá hefur hann verið formaður Neytendafélags höfuðborgarsvæðisins.

5.2  Finnskar kartöflur – banabiti einokunar

Á formannsárum Jóns beittu samtökin sér einkum fyrir lækkuðu verði á landbúnaðarafurðum og forystumenn samtakanna gagnrýndu mjög landbúnaðarkerfið í heild. Sú gagnrýni átti svo eftir að kristallast og ná hámarki í deilunum um finnsku kartöflurnar vorið 1984. Grænmetisverslun landbúnaðarins sem ennþá hafði einokunarrétt á því að flytja inn kartöflur hafði flutt inn og sett í dreifingu kartöflur frá Finnlandi. En þær voru þá einu fáanlegu kartöflurnar í verslunum. Þessar finnsku kartöflur voru augljóslega sýktar og að mestu leyti óætar. Mikil og almenn gremja gagnvart Grænmetisversluninni greip því enn einu sinni um sig meðal neytenda.

Neytendasamtökin sem höfðu oft áður staðið í baráttu við Grænmetisverslun landbúnaðarins gripu nú til mun harðari aðgerða en áður. Samtökin gengust fyrir undirskriftasöfnun meðal almennings þar sem farið var fram á rannsókn á innflutningi, dreifingu og sölu Grænmetisverslunarinnar á finnsku kartöflunum og jafnframt var skorað á stjórnvöld að gefa innflutning á kartöflum og öðru grænmeti frjálsan. Undirskriftalistarnir lágu frammi í verslunum frá því á hádegi á föstudegi og fram á mánudag og skrifuðu tuttugu þúsund manns á þá á þessum skamma tíma.

Jón Helgason landbúnaðarráðherra tók óánægju neytenda og undirskriftunum fálega í fyrstu. En forystumenn Neytendasamtakanna sneru sér þá til forsætisráðherra, Steingríms Hermannssonar, með þá pólitísku kröfu að einokuninni yrði aflétt. Hann lofaði viðunandi breytingum. Fljótlega var svo öðrum aðilum leyft að flytja inn kartöflur til landsins og skömmu síðar var einokunin á innflutningnum afnumin með nýjum búvörusamningi. Grænmetisverslun landbúnaðarins var lögð niður en þar með hvarf af sjónarsviðinu einhver ósvífnasti einokunaraðili í íslensku viðskiptalífi á 20. öld. Finnsku kartöflurnar höfðu orðið banabiti þess forna fjandmanns íslenskra neytenda.

Þessi málalok urðu ekki einungis sigur í áratuga löngu kartöflustríði. Málið í heild átti eftir að auka frjálsræði í heildsöluverslun með garðávexti og koma á nokkrum umbótum í hinu annars samkeppnishamlandi landbúnaðarkerfi. Auk þess fjölgaði félagsmönnum töluvert í Neytendasamtökunum í kjölfar málsins. Þá gagnrýndu Neytendasamtökin um þetta leyti meint samráð um verðlagningu á sólarlandaferðum en sú gagnrýni hafði í för með sér stóraukna samkeppni á þessu sviði og lækkandi verð.

5.3  Jóhannes Gunnarsson og neytendastarf hans

Er Jón Magnússon tók við formennsku Neytendasamtakanna 1982 varð Jóhannes Gunnarsson varaformaður. Hann hafði verið helsti drifkrafturinn í stofnun fyrsta neytendafélagsins á landsbyggðinni þegar hið öfluga félag í Borgarnesi var stofnað 1978. Auk þess vann hann ötullega að stofnun neytendafélaga víðar á landsbyggðinni. Hann fór í kynningarferðir með Reyni Ármannssyni, m.a. um Austfirði þar sem stofnuð voru neytendafélög í sex kauptúnum á jafn mörgum dögum. Þannig ruddi hann brautina þegar verið var að breyta samtökunum úr staðbundnu Reykjavíkurfélagi í eiginleg landssamtök.

Jóhannes lauk prófum sem mjólkurfræðingur frá Óðinsvéum í Danmörku 1970 og var í framhaldsnámi þar 1970–1971. Hann var mjólkurfræðingur í Mjólkurbúi Flóamanna 1972–1973, Mjólkursamlagi Neskaupstaðar 1973–1975 og Mjólkursamlagi Borgfirðinga í Borgarnesi 1975–1980. Jóhannes var upplýsinga- og útgáfustjóri hjá Verðlagsstofnun 1980–1990 og þess má geta að Jóhannes hefur síðan 1990 verið í föstu starfi hjá Neytendasamtökunum. Hann sat í framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins 1985–1987 og í miðstjórn þess að auki.

Hann var fyrsti formaður Neytendafélags Borgarfjarðar 1978–1980 og varð varaformaður Neytendasamtakanna þegar Jón Magnússon varð formaður þeirra.

Þrátt fyrir ólíkar stjórnmálaskoðanir Jóns og Jóhannesar varð samvinna þeirra afar farsæl enda tók Jóhannes við formennsku af Jóni 1984 og hefur verið formaður samtakanna síðan að undanskildum tveimur árum, eða lengur en nokkur annar. Þessi tvö ár, 1996–1998 var hann þó framkvæmdastjóri samtakanna en formaður samtakanna þá var Drífa Sigfúsdóttir, fyrst kvenna.

Jóhannes hefur líklega víðtækari þekkingu á neytendamálum og þróun þeirra en nokkur annar Íslendingur. Hann hefur verið skeleggur talsmaður neytendaverndar og neytendahagsmuna um áratuga skeið, hefur sérstakt lag á að sætta ólík sjónarmið og hefur notið mikils trausts þeirra sem ráðist hafa til forystu með honum.

Í formannstíð Jóhannesar varð formannsembættið viðameira og vandasamara eftir að samtökin urðu landssamtök. Samtökin urðu raunveruleg fjöldasamtök á fáeinum árum. Þau urðu mun fyrirferðarmeiri í allri fjölmiðlaumræðu, beittu sér sífellt meira á nýjum sviðum, t.d.. á sviði tryggingamála og fjármálaviðskipta, fræðslu- og upplýsingastarfsemi samtakanna jókst til muna og alþjóðlegt samstarf samtakanna varð miklu öflugra en nokkurn tíma áður. Eftir því sem hlutverk Neytendasamtakanna hefur orðið fjölbreyttara og starfsemi þeirra markvissari og faglegri hafa opinberir aðilar óskað eftir samvinnu og umsögnum samtakanna í æ ríkari mæli, t.d. varðandi margvíslega löggjöf.