Kafli 6. Helstu baráttumálin frá 1982

 6.1 Neytendasamtökin verða fjöldasamtök

Eins og oft hefur komið hér fram eru Neytendasamtökin frjáls félagasamtök sem hafa alla tíð byggt starfsemi sína á félagsgjöldum. Félagsgjöldin nema nú 72% af rekstrargjöldum samtakanna. Útgáfustarfsemi samtakanna leggur til 8% af rekstrargjöldunum, framlag ríkisins er um 15% gjaldanna, framlag Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga um 3% og framlag stéttarfélaga um 2%. Ef litið er til Norðurlandanna kemur í ljós að ríkið greiðir um 80% af rekstrargjöldum sambærilegra neytendasamtaka í Danmörku og Noregi en í Finnlandi er framlag ríkisins um 90%.

Það gefur því auga leið að tilvist, styrkur og starfsemi samtakanna er algjörlega undir félagsmönnum komin, fjölda þeirra og skilvísum greiðslum félagsgjalda.
Auk þess ber að geta að samtökin hafa löngum notið dugnaðar og ósérhlífni fjölda starfsmanna og forystumanna sinna sem oft hafa þegið mjög lág eða jafnvel engin laun fyrir vel unnin störf af ýmsu tagi. Ýmis störf Neytendasamtakanna hafa því í gegnum árin verið unnin í sjálfboðavinnu.

Lengst af fram að skipulagsbreytingum samtakanna 1982 voru félagsmenn á bilinu 2000 til 4000. Félagsmönnum fækkaði umtalsvert í kjölfar hallarbyltingarinnar 1968 en með öflugu Neytendablaði og nokkru átaki fjölgaði þeim aftur og voru komnir í rúm 5000 árið 1972.

Félagsmönnum fækkaði síðan aftur á samdráttartímum samtakanna 1973–1978 og fóru þá niður í 1500 manns þegar þeir voru fæstir. Á níunda áratugnum fjölgaði nokkuð ungu og áhugasömu fólki í samtökunum og eru fyrir því ýmsar ástæður. Má þar nefna hin nýju neytendafélög á landsbyggðinni, síaukinn áhuga fjölmiðlanna á neytendamálefnum, skeleggan málflutning forystumanna samtakanna í fjölmiðlum og sigur í kartöflu- og grænmetismálunum 1984 sem varð neytendum mjög sýnilegur. Félagsmönnum fjölgaði stöðugt á hverju ári frá 1980.

Það fór ekki á milli mála að ef Neytendasamtökin ætluðu sér að verða sterkt og áhrifaríkt afl í þjóðfélaginu þá þyrftu þau að fjölga félagsmönnum enn frekar. Þar sem skilningur stjórnvalda á mikilvægi öflugs neytendastarfs í nútímahagkerfi er takmarkaður eins og er hér eru fáar aðrar leiðir færar en að höfða til neytendanna sjálfra. Hér eru þó alltof fáir til að halda uppi öflugu neytendastarfi. En þegar miðin eru léleg verður að róa þar sem mest gefur.

Í lok níunda áratugar síðustu aldar og í byrjun þess tíunda ákvað forysta Neytendasamtakanna að fara í herferð til að fá fleiri neytendur til að ganga til liðs við samtökin með það að markmiði að skapa fjöldasamtök og um leið möguleika á að efla neytendastarf í þeim mæli sem aðstæður leyfðu. Það kom forystu Neytendasamtakanna verulega á óvart hve vel þessi herferð tókst. Á þremur árum tókst að fjölga félögum úr um 5.000 í rúmlega 21.000. Þetta gerði Neytendasamtökin að hlutfallslega langfjölmennustu neytendasamtökum í heiminum. 

Finnbjörg Guðmundsdóttir og Elva B. Benediktsdóttir voru ráðnar starfsmenn Neytendasamtakanna árið 1987. Þær unnu í upphafi að félagaöflun fyrir Neytendasamtökin og tókst mjög vel í því starfi. Finnbjörg tók síðan að sér skrifstofustjórastarf fyrir Neytendasamtökin sem hún gegndi til ársins 1994.

Síðan hefur gengið verr að halda þessari tölu en nú eru félagsmenn tæp 13.000. Það má skýra m.a. með þrennu, neytendur eru orðnir því afhuga að taka þátt í félögum og samtökum, mjög margir líta á Neytendasamtökin sem opinbera stofnun þar sem hægt sé að leita aðstoðar án þess að greiða fyrir eða að vera félagsmaður, þetta sé innifalið í sköttum eða félagslegri þjónustu. Samt sem áður reiða stjórnvöld af hendi innan við 20% af tekjum Neytendasamtakanna.

Þrátt fyrir fækkun í Neytendasamtökunum eru samtökin ennþá miðað við íbúafjölda þau fjölmennustu í heimi en nú fylgja hollensku samtökin fast á eftir enda eru þau samtök þekkt fyrir að vera sterk og hafa mikil áhrif.

6.2 Fræðslustarfsemi eykst

Strax í formannstíð Reynis Ármannssonar var farið að ræða nauðsyn þess að Neytendasamtökin legðu aukna áherslu á fræðslu- og upplýsingaþáttinn í starfi sínu.

Segja má að nokkur kaflaskil hafi orðið í þessum efnum í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Á fyrstu árum tíunda áratugarins bar mjög á fjárhagsvanda hjá heimilum. Neytendasamtökin ákváðu að láta að sér kveða til að knýja á um úrbætur. Í fyrsta lagi buðu Neytendasamtökin upp á námskeið um hagsýni í heimilishaldi auk ráðgjafar fyrir þá sem áttu við verulegan fjárhagsvanda að stríða. Í öðru lagi lögðu þau áherslu á aðkallandi aðgerðir stjórnvalda en ekki síður að Alþingi setti nauðsynleg lög og þá helst ný lög um greiðsluaðlögun, lög um ábyrgðarmenn og lög um innheimtustarfsemi. Jafnframt héldu Neytendasamtökin vel heppnaða ráðstefnu þar sem þessi mál voru kynnt. Einnig fengu Neytendasamtökin styrk hjá Norrænu ráðherranefndinni til að rannsaka hvernig auðveldast væri að koma á viðmiðunarneyslu fyrir íslensk heimili en slík viðmiðunarneysla hafði þá þegar verið unnin á öðrum Norðurlöndum. Í framhaldi af þessu var ákveðið að stofna Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og lögðu Neytendasamtökin fram þekkingu sína til að styrkja stofuna. Varðandi lög um greiðsluaðlögun tóku íslensk stjórnvöld illu heilli þá ákvörðun að fara ekki sömu leið og farin hafði verið á öðrum Norðurlöndum, þ.e. að setja sérstaka löggjöf um greiðsluaðlögun, heldur var ákveðið að breyta lögum til að auðvelda skuldsettum heimilum að leita nauðasamninga.

Þessi leið hefur hins vegar reynst gagnslaus og hafa Neytendasamtökin ítrekað farið fram á að borinn sé saman árangurinn af því að hjálpa skuldsettum heimilum hér á landi og á öðrum Norðurlöndum. Jafnframt hafa Neytendasamtökin margítrekað kröfu sína um að hér verði sett lög um greiðsluaðlögun að norrænni fyrirmynd.

Ekki hefur heldur tekist að fá sett lög um ábyrgðarmenn. Hins vegar hafa Neytendasamtökin, fjármálastofnanir og viðskiptaráðuneytið gert með sér samkomulag um ábyrgðarskuldbindingar. Í samkomulaginu er meðal annars kveðið á um að lánastofnanir skuli draga úr notkun sjálfskuldaábyrgðar og hefur verulegur árangur náðst í þeim efnum, þótt enn vanti þar mikið upp á. Gamla löggjöfin er því ennþá í gildi. Þrátt fyrir að fjórir þeirra fimm stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi hafi lýst yfir stuðningi sínum við málið hefur ekki enn tekist að fá ný lög um innheimtustarfsemi.

6.3  Neytendafræðsla

Á síðari árum hafa orðið miklar breytingar í samfélaginu á flestum sviðum. Þessar breytingar auka mjög þörf hvers og eins á vitneskju um grundvallaratriði neytendamála og mikilvægt er að þessum þætti sé sinnt í grunnskólum. Með því að leggja áherslu á neytendafræðslu hjá börnum og unglingum aukast líkur á því að þeir verði betur í stakk búnir að takast á við hlutverk sitt sem neytendur á fullorðinsárum. Einstaklingar og fjölskyldur verða að geta tamið sé neysluvenjur sem taka mið af umhverfi, fjárhagslegri afkomu og tíma hvers og eins.

Neytendasamtökin hafa í mörg ár bent á nauðsyn þess að neytendafræðslu sé sinnt í  grunn- og framhaldsskólum. Með nýrri námsgrein, lífsleikni, hefur skapast ágætur vettvangur fyrir neytendafræðslu í skólum. Markmið neytendafræðslunnar eru í fullu samræmi við markmið lífsleikninnar.  Baráttu Neytendasamtakanna fyrir neytendafræðslu er ekki þar með lokið því að ennþá þurfa þau að beita sér fyrir auknu vægi neytendafræðslunnar lífsleikni. Þá hafa Neytendasamtökin lagt áherslu á það að neytendafræðsla verði kennd í kennaranámi og endurmenntun kennara.

Neysla er snar þáttur af daglegu lífi hverrar fjölskyldu. Með hliðsjón af almennum uppvaxtarskilyrðum barna bjóða neytendamál upp á mikla möguleika á samvinnu og samábyrgð milli heimila og skóla, milli foreldra og kennara.

6.4 Leiðbeininga- og kvörtunarþjónusta Neytendasamtakanna

Þegar hugað er að starfsemi Neytendasamtakanna má ekki gleyma dýrasta þættinum í starfseminni, rekstri leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu þar sem neytendur geta fengið upplýsingar um rétt sinn í viðskiptum og aðstoð við að ná rétti sínum geti þeir það ekki sjálfir. Þessi starfsemi tekur til sín um helming allra tekna Neytendasamtakanna eða um 25 milljónir króna.

Neytendasamtökin hafa gert þjónustusamning við viðskiptaráðuneytið um rekstur þessarar þjónustu og að hún sé öllum opin. Hjá nágrannaþjóðum okkar er litið á þessa þjónustu sem samfélagslega þjónustu og hún kostuð af almannafé.

6.5 Neytendalöggjöf

Neytendasamtökin börðust lengi fyrir nýjum lögum um lausafjárkaup (kaupalög) en fyrir voru lög sem voru samþykkt 1922 að danskri fyrirmynd. Fyrir löngu höfðu verið sett ný lög á öllum Norðurlöndunum nema á Íslandi. En Neytendasamtökin linntu ekki látunum og bar starf þeirra loks ávöxt á árinu 2001 þegar ný lög um lausafjárkaup (kaupalög) gengu í gildi. Þróunin hélt áfram og árið 2003 voru samþykkt sérstök lög um neytendakaup. Lögin um lausafjárkaup gilda þó aðeins um hluti sem við kaupum, þjónustan stendur eftir, en sama ár og nýju lögin um lausafjárkaup voru samþykkt voru einnig samþykkt lög um þjónustukaup. Mikilvæg hagsmunamál neytenda voru því loks í höfn.

Með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu náðist margvíslegur ávinningur á neytendasviðinu. Með aðildinni varð Alþingi að samþykkja margs konar mikilvæg lög á sviði neytendaverndar og má þar nefna lög um fjarsölu, neytendakaup og skaðsemisábyrgð. Í öllum tilvikum er um að ræða mál sem Neytendasamtökin höfðu í langan tíma barist fyrir að fá sett í íslenska löggjöf.

Auk lagafrumvarpa sem varða fjárhagslega hagsmuni neytenda og nefnd voru hér að framan (lög um innheimtustarfsemi, ábyrgðarmenn og greiðsluaðlögun) hafa Neytendasamtökin lengi barist fyrir að fá sérstaka löggjöf um embætti umboðsmanns neytenda.

6.6 Fákeppnin

Neytendasamtökin hafa tekið mikinn þátt í umræðu um vaxandi fákeppni hér á landi og talað fyrir virkri samkeppni og gagnrýnt minnkandi virka samkeppni sem geri kjör íslenskra neytenda lakari. Í því sambandi má nefna eftirfarandi markaði:

  •     Matvörumarkaður
  •     Fjármálamarkaður (peninga- og vátryggingamarkaðir)
  •     Olíumarkaður
  •     Bóka- og ritfangamarkaður
  •     Sportvörumarkaður
  •     Byggingavörumarkaður
  •     Símamarkaður

Neytendasamtökin hafa einnig rannsakað og gert margvíslegar kannanir á þessum mörkuðum til að veita aðhald og upplýsingar.

6.7 Alþjóðlegt samstarf

Í byrjun tíunda áratugarins juku Neytendasamtökin mjög samvinnu við erlend neytendasamtök, til dæmis með virkri þátttöku í norrænu neytendasamstarfi, samstarfi innan Evrópusamtaka neytenda (BEUC) og samstarfi neytendasamtaka um gæðakannanir (ICRT). Öll þessi samvinna hefur skilað Neytendasamtökunum veigamiklum upplýsingum og margvíslegum stuðningi.

Neytendasamtökin hafa ávallt tekið virkan þátt í umræðu um aukið frelsi í alþjóðaviðskiptum og tekið einarða afstöðu með auknu frelsi, þar á meðal með landbúnaðarvörur. Þau hafa verið samstíga Alþjóðasamtökum neytenda um að það sé neytendum fyrir bestu að sem mest frelsi ríki. Fyrir allnokkrum árum þegar GATT var breytt í WTO (Aljóðaviðskiptastofnunina) leiddu Neytendasamtökin baráttuna gegn ofurtollastefnunni eins og hún var kölluð. Nokkur árangur náðist þó svo að tollar á innfluttar landbúnaðarvörur séu enn allt of háir og kvótar sem hækka verð notaðir til að veita innflutningsleyfi.

Í lok árs 1989 ákváðu Neytendasamtökin, viðskiptaráðuneytið og Samkeppnisstofnun að taka virkan þátt í norrænu neytendasamstarfi. Þetta var heilladrjúg ákvörðun enda ljóst að hin Norðurlöndin voru komin miklu lengra í neytendamálum en við. Af þeim mátti læra margt og auk þess fá hugmyndir að verkefnum. Þetta samstarf hefur gefið samtökunum ómetanlega möguleika í þágu íslenskra neytenda og um leið aflað tengsla við mikilvæga aðila. Neytendasamtökin hafa haft frumkvæði að þremur norrænum verkefnum á neytendasviðinu: „Viðmiðunarneysla fyrir íslensk heimili“, „Landbúnaðarstefnan á Norðurlöndum og neytendur“og „Bankaþjónusta á hvaða kjörum“.

6.8 Breyttar neysluvenjur

Um 1970 voru matarvenjur Íslendinga að taka umtalsverðum breytingum frá því sem áður hafði tíðkast um langt skeið. Jafnframt fóru sífellt fleiri konur út á vinnumarkaðinn en þar með fækkaði þeim heimilum sem höfðu heitan mat í hádeginu. Mötuneytum á vinnustöðum fjölgaði og fyrstu alvöru skyndibitastaðirnir á borð við Sælkerann og Ask litu dagsins ljós en þeim átti eftir að fjölga mjög.

Ferskur fiskur varð hlutfallslega dýrari en áður en kjöthakk og ýmsar unnar kjötvörur lækkuðu hlutfallslega í verði á sama tíma og svína- og alifuglarækt, einkum kjúklingarækt, jókst mjög í landinu.

Miklar breytingar urðu á afgreiðslufyrirkomulagi í matvöruverslunum með kjörbúðunum á sjöunda áratugnum en þær breytingar gerðu neytandann meðvitaðri um vöruval sitt. Með sífellt stærri stórmörkuðum jókst síðan úrval matvæla til muna.

Kröfur almennings um vöruúrval jukust að sama skapi enda hafði utanlandsferðum fjölgað mjög og almenningur kynnst framandi matargerð og neysluvenjum.

6.9 Landbúnaðarstefnan

Neytendasamtökin hafa alltaf verið mjög áberandi í umræðu um landbúnaðarmál og þeim raunar oftar en ekki lýst sem sérstökum andstæðingi íslenskra bænda vegna áherslna samtakanna. Því fer þó víðs fjarri enda lögðu samtökin ávallt áherslu á að um leið og nauðsynlegar breytingar yrðu gerðar á landbúnaðarstefnunni væri eðlilegt að veita innlendum framleiðendum sanngjarnan aðlögunartíma til að laga sig að breyttum aðstæðum á markaði. Neytendasamtökin börðust og berjast ennþá gegn framleiðslu- og kvótastýringu. Á fyrri hluta níunda áratugarins háðu Neytendasamtökin harða baráttu gegn því að komið yrði á slíkri stýringu innan eggja- og kjúklingaframleiðslu. Þetta var þó gert með skaðlegum afleiðingum fyrir neytendur en ekki síður fyrir þessar framleiðslugreinar.

Fullyrða má að ef litið hefði verið meira til sjónarmiða Neytendasamtakanna í landbúnaðarmálum væru málum háttað á annan og betri veg hér á landi og íslenskir bændur væru betur í stakk búnir til að takast á við samkeppni frá innfluttum búvörum. Það er einnig auðvelt að sýna fram á árangur á þessu sviði og er stórlækkað verð á grænmeti skýrt dæmi þar um.

6.10 Neytendasamtökin og fjölmiðlar

Í kjölfar þessarar miklu breytinga á neyslu- og innkaupavenjum þjóðarinnar tóku fjölmiðlar nú að fjalla mun meira um neytendamál en áður hafði tíðkast. Fjölmiðlum varð nú ljóst að vöruúrval, verð og gæði væru mikilvægir þættir í lífsháttum og lífskjörum þjóðarinnar. Einkum voru það prentmiðlarnir sem fjölluðu sífellt meira um neytendamál á áttunda áratugnum en þar munaði mest um Dagblaðið sem frá stofnun þess 1975 og síðan sem DV eftir sameiningu Dagblaðsins og Vísis 1981 hafði tvær fastar neytendasíður í blaðinu á viku allt til 1987, lengst af undir stjórn Önnu Bjarnason blaðamanns.

Þetta aukna vægi neytendamála í fjölmiðlum hefur haft töluverð áhrif á starf formanns Neytendasamtakanna. Formaður samtakanna er sífellt oftar spurður álits af fréttamönnum um ýmis mál er upp koma og snerta neytendur í landinu. Segja má að vægi Neytendasamtakanna í þessum efnum hafi farið sívaxandi síðastliðinn aldarfjórðung.