Kafli 8. Neytendasamtökin og stjórnmálin

 8.1 Neytendamál, til hægri eða vinstri

Neytendahagur í víðasta skilningi er í eðli sínu nátengdur hagfræðihugmyndum, hagskipan og hagstjórn. Grundvallarágreiningurinn í stjórnmálum og hugmyndafræði hefur ekki síst snúist um hagskipan og hagstjórn. Stjórnmálastefnur, stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn hafa löngum verið skilgreind á hægri – vinstri kvarða með tilliti til ágreinings um afskipti ríkisins af atvinnu- og viðskiptalífi. Hægrisinnaðir eða frjálshyggjumenn hafa talið almannahag best borgið við skilyrði séreignaréttar, einkaframtaks og frjálsrar samkeppni.

Vinstrisinnaðir menn hafa hins vegar löngum vantreyst einkaframtakinu og stundum einnig frjálsum markaði fyrir almannahag og barist fyrir opinberum afskiptum af atvinnulífinu. Þetta er þó aðeins almenn mynd, undantekningar finnast á henni víða. Þannig voru jafnt hægrimenn og vinstrimenn hliðhollir þeim hömlum sem ríktu löngum í landabúnaði.

8.2 Hugmyndafræðin og íslensk stjórnmál

Þessi almenni ágreiningur hægri og vinstri manna átti ekki síður við hér á landi en annars staðar. Allir hinir svokölluðu fjórflokkar sem hér hafa verið við lýði frá 1930 og sumir mun lengur tóku hugmyndafræðilega afstöðu til þessara ágreiningsmála, a.m.k. í orði kveðnu. Jafnaðarmenn og síðar kommúnistar börðust í upphafi fyrir víðtækri þjóðnýtingu atvinnuvega, opinberri efnahagslegri áætlanagerð, bæjarútgerðum og stofnun ríkisfyrirtækja og samvinnufyrirtækja sem sæju um verslun og þjónustu á ýmsum sviðum.

Framsóknarmenn sem tengdust löngum samvinnuhreyfingunni hafa lengst af talið það eitt af meginmarkmiðum sínum að standa vörð um hag íslensks landbúnaðar og hinna dreifðu byggða, m.a. með víðtækri og oft mjög samkeppnishamlandi skipulagningu á mjólkurvinnslu og mjólkurdreifingu, einokun Grænmetisverslunarinnar og Sölufélags garðyrkjubænda, niðurgreiðslum, opinberri verðstýringu og innflutningshöftum á landbúnaðarafurðum og hafa notið til þess stuðnings jafnt frá hægri sem vinstri.

8.3 Neytendasamtökin og stjórnmálin

Í ljósi þessara staðreynda vakna ýmsar mikilvægar spurningar um Neytendasamtökin, stjórnmálin og stjórnmálaflokkana: Eru Neytendasamtökin pólitísk samtök? Ef svo er, á hvern hátt eru þau pólitísk? Eru þau flokkspólitísk í þeim skilningi að stjórnmálaflokkarnir hafi haft umtalsverð bein eða óbein áhrif á starf þeirra?

Neytendasamtökin eru augljóslega pólitísk samtök þegar haft er í huga að með baráttu sinni fyrir bættum hag neytenda eru þau stöðugt að setja sér pólitísk markmið og berjast fyrir þeim. En þó markmiðin séu oft pólitísk þá er ekki þar með sagt að samtökin séu flokkspólitísk eða málpípa hægri eða vinstrimanna. Þegar Neytendasamtökin lögðu til að einokunarréttur Grænmetisverslunar landbúnaðarins yrði afnuminn hefði það átt að vera dæmigert pólitískt markmið hægrimanna. En Sjálfstæðisflokkurinn var lengi hikandi að beita hugmyndafræði sinni í landabúnaðarmálum af ótta við að missa við það fylgi á landsbyggðinni, einkum meðal bænda.

En Neytendasamtökin hafa einnig og ekki síður lagt áherslu á ýmiss konar opinber afskipti af viðskiptalífinu, t.d. með því að berjast fyrir lögum og reglugerðum um viðskiptahætti, auglýsingar, tryggingamál og bankamál svo eitthvað sé nefnt. Samtökin eru því þverpólitísk í þeim skilningi að þau berjast fyrir hugmyndafræðilegum markmiðum án þess að einskorða sig við stefnur til hægri eða vinstri.

8.4 Neytendasamtökin og stjórnmálaflokkarnir

Því hefur verið haldið hér fram að Neytendasamtökin séu hápólitísk þótt þau séu jafnframt þverpólitísk. En þetta pólitíska eðli þeirra vekur spurningar um afskipti stjórnmálaflokkanna af þeim. Hafa Neytendasamtökin orðið bitbein stjórnmálaflokkanna og þeirrar hugmyndafræði sem þeir segjast standa fyrir?

Ýmislegt bendir til þess að nokkur hætta hafi verið á slíku. Ekki síst þegar haft er í huga að íslenskir stjórnmálaflokkar bitust um og jafnvel sömdu um sín á milli ítök og áhrif í verkalýðshreyfingunni um áratuga skeið.

Viðfangsefni Neytendasamtakanna, hagsmunir hins almenna neytanda í víðtæku samhengi, eru þó miklu nátengdari hagfræðilegri hugmyndafræði heldur en hin einhæfari markmið einstakra verkalýðsfélaga um kaup og kjör einstakra stétta.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir hefur Neytendasamtökunum tekist mæta vel þegar á heildina er litið að viðhalda sjálfstæði sínu gagnvart stjórnmálaflokkum, berjast fyrir almennum hag neytenda án þess að falla í hægri eða vinstri hugmyndafræðigryfjur og viðhafa þverpólitísk vinnubrögð meðal oft mjög pólitískra félaga sinna án teljandi hættu á klofningi samtakanna. Í þessu samhengi er athyglisvert að sjálfstæðismenn og alþýðubandalagsmenn hafa verið áberandi meðal forystumanna samtakanna og yfirleitt átt mjög gott samstarf sín á milli þótt þessir aðilar hafi oft verið ósammála.

Dæmi um slíkt samstarf manna með ólíkar stjórnmálaskoðanir var samstarf þeirra Gísla Gunnarssonar og Bjarna Helgasonar á árunum 1969–1972 og síðan samstarf Jóns Magnússonar og Jóhannesar Gunnarssonar um langt árabil á níunda og tíunda áratug 20. aldar.

8.5 Sveinn Ásgeirsson og stjórnmálin

Ef reynt er að skýra sjálfstæði Neytendasamtakanna gagnvart stjórnmálaflokkunum og hina farsælu þverpólitísku aðferðarfræði samtakanna, liggur beinast við að benda á þá einstaklinga sem mótað hafa störf og stefnu þeirra í gegnum árin. Sveinn Ásgeirsson, formaður Neytendasamtakanna fyrstu fimmtán árin, er að vísu ekki besta dæmið um slíkan forystumann. Hann var sjálfstæðismaður og töluvert handgenginn Gunnari Thoroddsen sem var borgarstjóri Reykjavíkur 1947–1959. Sveinn þáði eins og fyrr var vikið að óbeinan launastyrk til handa Neytendasamtökunum frá Reykjavíkurborg fyrstu ár samtakanna. Sveinn hafði umtalsverð áhrif á það hverjir völdust í stjórnir samtakanna meðan hann var formaður og augljóst er að hann reyndi lengst af að forðast það að fá í stjórnina einstaklinga sem ekki treystu honum eða voru augljósir pólitískir andstæðingar hans.

En á hitt ber einnig að líta að sem sjálfstæðismaður var Sveinn ekki fulltrúi hins  svokallaða flokkseigendafélags. Hann aðhylltist frjálslyndi en ekki frjálshyggju og var alla tíð sannfærður um það að Neytendasamtökin þyrftu að beina spjótum sínum í báðar áttir, að óprúttnum skammtímasjónarmiðum gróðamanna og braskara, ekki síður en að stjórnlyndi, einokun og haftaviðhorfum ráðamanna. Að því leyti gaf hann tóninn fyrir samtökin strax í upphafi.

Við hallarbyltinguna og brotthvarf Sveins 1968 stóðu samtökin á tímamótum. Þá urðu vinstrimenn ráðandi í forystusveit þeirra og Morgunblaðið tók undir þá kenningu Sveins að kommúnistar hefðu framið valdarán í Neytendasamtökunum. Við þessar aðstæður reyndi á það hvort Neytendasamtökin yrðu skálkaskjól stjórnmálaflokka sem skiptust á að hafa þar töglin og hagldirnar eða hvort þau yrðu þverpólitísk og sjálfstæð samtök.

8.6 Meðvituð þverpólitík

Strax 1969 voru gerðar ráðstafanir til að breikka pólitískt litróf stjórnarinnar og þar með var sáttum náð við Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkinn. Neytendasamtökin hafa síðan haft á að skipa ýmsum dugmiklum forystumönnum sem margir hafa verið pólitískir og jafnvel töluvert flokkspólitískir. En þrátt fyrir flokkapólitík þeirra hafa þeir verið sannfærðir um mikilvægi þess að berjast fyrir hag neytenda á þverpólitískum grunni samtakanna. Þeir hafa gert sér grein fyrir því að hugmyndafræðilegur ágreiningur hægri og vinstri manna verður ekki leystur á einni kvöldstund, þeir hafa virt rétt manna til að hafa ólíkar skoðanir og hafa lært að komast að viðunandi samkomulagi þegar mikið hefur borið á milli. Dæmi um slíka einstaklinga eru þeir fjórir sem nefndir eru hér að framan.

Þá ber að geta Reynis Ármannssonar sem var formaður samtakanna um sex ára skeið 1976–1982. Í ýtarlegu viðtali við Reyni í afmælisblaði Neytendasamtakanna 1983 gerir hann grein fyrir pólitík samtakanna, m.a. með eftirfarandi ábendingu:

„Neytendasamtökin telja sig vera ópólitísk samtök, en kannski væri réttara að nota orðið þverpólitísk samtök. Á því er ávallt nokkur hætta að slík samtök verði bitbein stjórnmálaflokkanna. Ég tel að það megi aldrei vera þannig að þau séu bendluð við einhvern ákveðinn stjórnmálaflokk eða ákveðna pólitíska stefnu. Í stjórn samtakanna hafa ætíð verið menn með mismunandi pólitískar skoðanir og útilokað er að ætla sér að eyða öllum tímanaum í pólitískt þras.“'

Þessi ummæli Reynis gefa til kynna að forystumenn Neytendasamtakanna hafi verið sér meðvitaðir um pólitískt eðli samtakanna, þverpólitísk vinnubrögð þeirra og mikilvægi þess að forða samtökunum frá hvoru tveggja, klofningi og afskiptum stjórnmálaflokkanna.

8.7 Hugmyndafræði og flokkarnir

Áður en skilið er við Neytendasamtökin og stjórnmálin er rétt að huga að annarri skýringu á því hvers vegna Neytendasamtökin hafi aldrei orðið flokkspólitískt skálkaskjól. Það er að vísu rétt að mörg baráttumál Neytendasamtakanna hafa tengst hugmyndafræði hægri og vinstri manna. Það er einnig rétt að stjórnmálaflokkarnir hafa einkum réttlæt tilvist sína og starfsemi með tilvísun í þá hugmyndafræði sem er að finna í stefnuskrám þeirra. En enginn skyldi halda því fram að íslenskir stjórnmálaflokkar hafi alltaf verið samkvæmir sinni hugmyndafræði, né heldur að hún hafi ekki oft tekið breytingum í tímans rás.

8.8 Hugmyndafræði og störf Alþýðuflokksins

Á öðrum og þriðja áratug 20. aldar börðust jafnaðarmenn fyrir víðtækri opinberri stjórnun á atvinnulífinu. En með tímanum, einkum eftir 1950, dró mjög úr róttækni jafnaðarmanna í þessum efnum. Þó stóðu þeir ásamt framsóknarmönnum fyrir lögum um mjólkursamlög og fyrir innflutningsbanni á landbúnaðarvörum á kreppuárunum og tóku ásamt framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum þátt í haftaríkisstjórnum áranna 1939–1959. Hins vegar stóðu þeir ásamt sjálfstæðismönnum að Viðreisnarstjórninni 1959 sem dró stórlega úr haftabúskapnum. Strax á árum Viðreisnarstjórnarinnar vildu alþýðuflokksmenn draga úr opinberum afskiptum af landbúnaðinum og auka þar samkeppni og skilvirkni en þá voru það sumir landsbyggðarþingmenn Sjálfstæðisflokksins sem komu í veg fyrir það. Alþýðuflokksmenn lögðu síðan síaukna áherslu á samkeppni og frelsi í viðskiptum og á síðustu þrjátíu árum hafa þeir oft staðið öðrum flokkum framar í þeim efnum.

8.9 Hugmyndafræði og störf Sósíalista/Alþýðubandalagsins

Kommúnistaflokkur Íslands og síðar Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn, börðust mjög ákveðið gegn einkaframtaki í verslun og þjónustu. En bein pólitísk áhrif kommúnista og sósíalista á athafnalífið urðu þó sáralítil og komu helst fram í stofnun bæjarútgerða á tímum Nýsköpunarstjórnar 1944–1947. Þá má geta þess að kommúnistar börðust hatrammlega gegn mjólkursamsölulögum framsóknarmanna og jafnaðarmanna á fjórða áratugnum og á tímum Stefaníu, einhverrar mestu haftastjórnar hér á landi, ríkisstjórnar Alþýðuflokks, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1947–1949 var Sósíalistaflokkurinn einn í stjórnarandstöðu og gagnrýndi þá stjórnina helst fyrir höft og stjórnlyndi.

8.9.1 Hugmyndafræði og störf Framsóknarflokks

Framsóknarmenn hafa lengst af staðið vörð um styrkjakerfi, niðurgreiðslur, verðstýringu og innflutningshöft í landbúnaði en þó með traustum stuðningi sumra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Þess ber þó einnig að geta að ríkisstjórnir undir forystu framsóknarmanna hafa á síðustu áratugum átt stóran þátt í því að kveða niður verðbólgudrauginn og auka frjálsræði í viðskiptum og gjaldeyrismálum. Þá hafa þeir verið samstíga sjálfstæðismönnum síðustu árin í að selja ríkisfyrirtæki.

8.9.2 Hugmyndafræði og störf Sjálfstæðisflokks

Sjálfstæðisflokkurinn hefur löngum verið talinn helsti málsvari frjáls markaðar og samkeppni hér á landi. Lítið fór þó fyrir þessum stefnumiðum flokksins fyrstu þrjátíu árin frá stofnun hans. Flokkurinn var utan ríkisstjórnar frá stofnun hans 1929 og nær allan næsta áratuginn. Á árunum 1939–1959 tóku sjálfstæðismenn þátt í allmörgum ríkisstjórnum án þess að beita sér á sannfærandi hátt gegn haftastefnunni. Segja má að hugmyndafræðibarátta sjálfstæðismanna hafi að mestu leyti snúist um nýja utanríkisstefnu að frumkvæði Bjarna Benediktssonar frá 1943, fyrst með lýðveldistökunni 1944, Keflavíkursamningi 1946, aðild að NATÓ 1949 og varnarsamningnum við Bandaríkin 1951.

Jón Þorláksson, fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, var mikill áhugamaður um frjálsan markað og samkeppni. En að honum látnum, 1935, áttu sjálfstæðismenn svo til enga skelegga málsvara í þessum efnum fyrr en með Ólafi Björnssyni prófessor sem var alþingismaður 1956–1971 og síðan Jónasi Haralz bankastjóra. Það var svo ekki fyrr en upp úr miðjum áttunda áratugnum sem ungir sjálfstæðismenn undir forystu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar fóru að vekja athygli á frjálshyggjusjónarmiðum ýmissa hagfræðinga.

8.9.3 Ósamkvæmni í stefnu og störfum

Þau atriði sem hér hefur verið drepið á benda til þess að stjórnmálaflokkarnir hafi ekki verið eins samkvæmir hugmyndafræði sinni og okkur er stundum tamt að ætla. Þeir hafa þvert á móti verið börn síns tíma auk þess sem ytri aðstæður á borð við ráðandi hagfræðiviðhorf, alþjóðlega tollapólitík, fyrri heimsstyrjöldina, heimskreppu og seinni heimsstyrjöldina áttu oft mikilvægan þátt í því að stofnað var til ríkisfyrirtækja með einokunaraðstöðu og komið á gjaldeyrisskömmtunum og innflutningshöftum.

Ósamkvæmni milli hugmyndafræði stjórnmálaflokkanna og hinna raunverulegu áhrifa þeirra á gang mála er vafalaust ein helsta ástæða þess að fólk úr öllum flokkum og einstaklingar utan stjórnmálaflokka hafa séð fulla ástæðu til að taka höndum saman og vinna að hag neytenda á hinum þverpólitíska grundvelli Neytendasamtakanna.