Kostnaður vegna leiguhúsnæðis - hver borgar hvað?

Í V. kafla húsaleigulaga eru ákvæði um rekstrarkostnað af leigðu húsnæði og hvernig hann skuli skiptast milli aðila. Hér er um að ræða gjöld sem koma til viðbótar hinu eiginlega endurgjaldi vegna leigu en teljast þó til húsnæðiskostnaðar.

Í stöðluðu samningseyðublaði um húsaleigu er gert ráð fyrir að auk upplýsinga um heildarleigugreiðslu komi fram hver greiðsla fyrir leiguafnotin ein og sér sé. Samkvæmt lögunum skal leigjandi greiða kostnað vegna vatns, rafmagns, húshitunar og allan sameiginlegan kostnað við umhirðu sameignar, vegna þrifa á sameign, hitunar, lýsingar og vatnsnotkunar. Leigusali skal hins vegar greiða til húsfélags kostnað sem kemur til vegna sameiginlegs viðhalds og endurbóta. Þá skal leigusali greiða fasteignagjöld og tryggingaiðgjöld vegna fasteignarinnar.

Þessi skipting kostnaðar kann í sjálfu sér að vera eðlileg með hliðsjón af notum leigjanda af fasteigninni. Hins vegar getur það valdið ákveðnum ruglingi að samkvæmt lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 getur hússjóður verið bæði rekstrar- og framkvæmdasjóður og ekki þarf að innheimta sérstaklega gjöld vegna hvers sjóðar. Í mörgum fjölbýlishúsum er því raunar þannig háttað að ekki er sérstakur mælir vegna hitanotkunar hverrar íbúðar, svo hússjóðurinn greiðir kostnað vegna allrar hitunar, og íbúar, eða eftir atvikum eigendur, greiða svo hússjóðsgjöldin. Þannig getur greiðsla í hússjóð verið bæði vegna kostnaðar sem leigjandi á að standa straum af og kostnaðar sem leigusala ber að greiða.

Sé ekki skýrlega samið um frávik frá reglum laganna um skiptingu kostnaðar, en slíkir samningar eru heimilir, er ekki heimilt að láta leigjanda greiða hússjóðsgjöld að fullu ef í slíkum gjöldum felast bæði gjöld vegna daglegs rekstrar og framkvæmda eða viðhalds á sameign. Það er í bestu samræmi við lögin að leigusali og leigutaki greiði hvor sinn hluta af hússjóðsgjaldi og er leigusala eða húsfélagi skylt að láta leigjanda í té sundurliðun á þeim kostnaðarþáttum húsgjalds sem leigjandi skal greiða óski leigjandi eftir því.

Á tímum rafrænna reikninga kann slík skipting þó að vera nokkuð flókin og í framkvæmd mun þessum málum oft hagað svo að leigusali greiði hússjóðsgjald sem þá er innifalið í heildarleigugreiðslum án sérstakrar sérgreiningar eða sundurliðunar.

Þá er einnig nokkuð um að kostnaður vegna hita og rafmagns sé innifalinn í leigugreiðslu án sérstakrar sérgreiningar, leigusali borgar þá einfaldlega reikninga vegna þess og leigjandi greiðir eingöngu umsamda leigu.

Vert er að benda leigjendum á að kanna vel hvað er innifalið í leigugreiðslu en kostnaður vegna þessara þátta, þ.e. hússjóðs, hita og rafmagns, getur numið tugum þúsunda á mánuði.