Krafa um skyldu til greiðslumats

mánudagur, 26. október 2009

Eftirfarandi bréf hefur verið sent til Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra.  Í bréfinu kemur fram krafa Neytendasamtakanna um að ráðherra beiti sér fyrir lagabreytingum og reglugerð til að tryggja ábyrgar lánveitingar í framtíðinni. Meðal annars að gera llánveitendum skylt að framkvæma raunhæft greiðslumat fyrir allar lánveitingar.

 

Sjá bréf hér að neðan:

Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra
Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu
Sölvhólsgötu 7
150 Reykjavík

Reykjavík, 23. október 2009.

Efni: Greiðslumat við  lántöku

Undanfarin misseri hefur berlega komið í ljós að sumir lántakendur hafa tekið að láni meira fé en þeir ráða í raun við að greiða til baka. Greiðsluörðugleikar heimilanna skrifast ekki eingöngu á gengisfall íslensku krónunnar eða vaxandi verðbólgu og atvinnuleysi, heldur einnig það að framboð af lánsfé var of mikið. Lánsfjárhæðir voru því oft í engu samræmi við greiðslugetu og framfærslukostnað lántaka. Sama er uppi á teningnum víða um heim og gerir breska fjármálaeftirlitið t.a.m. ráð fyrir því að herða mjög reglur um ábyrga lánveitingu og framkvæmd greiðslumats. Gera má ráð fyrir því að hefði íslensku bönkunum verið skylt að framkvæma raunhæft greiðslumat fyrir allar lánveitingar væru færri heimili í greiðsluvandræðum.

Eina ákvæði íslenskra laga sem segja má að fjalli um skyldu til greiðslumats þegar ekki er um persónulega ábyrgð annars einstaklings að ræða er að finna í 18. gr. laga um húsnæðismál nr. 44/1998. Þar er kveðið á um að Íbúðalánasjóði sé heimilt að synja umsækjanda um lánveitingu uppfylli hann ekki skilyrði viðmiðunarreglna sjóðsins um greiðslugetu. Hvergi er því tekið á því í íslenskum lögum hvernig greiðslumat skuli fara fram og eini neyslustaðallinn sem til er er neysluviðmið Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Þær upphæðir sem þar er stuðst við verða að teljast heldur rýrar og varla í samræmi við raunverulegan framfærslukostnað lántakenda, enda fremur sniðnar að fólki í verulegum fjárhagsörðugleikum. Skortir því sárlega reglur um greiðslumat, bæði hvað varðar skyldu lánveitenda til að framkvæma greiðslumat, og eins um það hvernig greiðslumat skuli framkvæmt, en t.a.m. er í sænskum lögum að finna nokkuð nákvæmar reglur um greiðslumat (sjá konsumentkreditlagen 1992:830 og  lag om bank- och finansieringsrörelse 2004:297).

Í 4. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 er hins vegar í 1. mgr.  lögð sú skylda á lánveitendur að greiðslumeta lántaka þegar annar einstaklingur gengst í ábyrgð til tryggingar efndum. Í sömu grein er að finna heimild til handa efnahags- og viðskiptaráðherra til að setja reglugerð um framkvæmd greiðslumats, en ekki verður séð að sú heimild hafi verið nýtt. Að mati samtakanna er þó full þörf á því að sett verði reglugerð um þessi atriði, enda vandséð hvernig lánveitendur geta ella uppfyllt skyldur sínar skv. 5. gr., sér í lagi b-lið 1. mgr. 5. gr.

Í þessu samhengi vilja Neytendasamtökin einnig minna á að íbúðalán, sem vega þyngst af skuldum heimilanna, eru veitt með veði í viðkomandi eign og sjaldnast ganga aðrir einstaklingar í ábyrgð vegna slíkra lána. Það er því  nauðsynlegt að sett verði lög sem tryggi að þegar lán til einstaklinga eru veitt án þess að krafist sé ábyrgðarmanna liggi ávallt til grundvallar vandað greiðslumat er byggi á raunhæfum neyslustaðli.

Þá vilja samtökin minna á ályktun stjórnar Neytendasamtakanna frá því í maí sl.:

„Neytendasamtökin hafa lengi barist fyrir því að komið verði upp neyslustaðli sem byggist á raunhæfri viðmiðunarneyslu. Slíkur staðall er nauðsynlegur til að meta greiðslugetu heimila. Neytendasamtökin vilja að þegar verði komið upp slíkum staðli hér á landi eins og annars staðar á Norðurlöndum og raunar víðar. Raunhæft greiðslumat þarf að byggjast á slíkum staðli og miðast við verðbólguspá viðkomandi fjármálafyrirtækis en ekki við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Án þess verður ekki hægt að koma á ábyrgum lánveitingum, sem hlýtur að vera eitt helsta markmiðið á fjármálasviði eftir reynslu síðustu mánaða og missira.“

Eins og fram kemur í  samþykktinni leggja samtökin mikla áherslu á ábyrgar lánveitingar, enda er neytendum lítill greiði gerður með lánveitingum umfram greiðslugetu. Það er því einlæg von okkar að þú grípir til nauðsynlegra lagabreytinga og útgáfu reglugerðar til að tryggja ábyrgar lánveitingar í framtíðinni.

Neytendasamtökin lýsa sig reiðubúin til samstarfs við ráðuneyti þitt til að tryggja að þeim markmiðum sem lýst hefur verið í  þessu bréfi verði náð.

Virðingarfyllst
f.h. Neytendasamtakanna
 
___________________________
Jóhannes Gunnarsson formaður