Lánshlutur á meðan á viðgerð stendur

Fimmtudagur, 19. ágúst 2010

Á ég rétt á að fá lánaðan sams konar hlut og er í viðgerð hjá seljanda?

Ef neytandi kaupir vöru og hún reynist gölluð, ber seljanda að bæta úr þeim galla. Taki úrbæturnar lengri en eina viku á neytandi almennt rétt á að fá sams konar hlut lánaðan á kostnað seljanda, enda er meginreglan sú að neytandi á ekki að verða fyrir tjóni vegna gallans. Þessi regla um lánshlut á þó aðeins við ef krafan telst sanngjörn með hliðsjón af þörfum neytandans og þeim kostnaði og óhagræði sem það hefur í för með sér fyrir seljandann. Sé þannig um að ræða mikilvæga hluti fyrir neytandann, eins og t.d. tölvur, síma og bíla, þá er almennt hægt að halda því fram að hagsmunir neytandans af því að hafa slíkt tæki eigi að vega þyngra en útgjöld seljandans. Þetta verður þó að skoða í hvert sinn og meta út frá hagsmunum neytandans og seljandans.