Lestu samninginn vandlega

Miðvikudagur, 1. september 2010

 

Hægt er að forðast ýmis deilumál með því að lesa samninginn áður en farið er í viðskipti.

Algeng kvörtunarefni neytenda má rekja til samninga og skilmála sem ekki hafa verið lesnir vandlega yfir áður en farið var í viðskiptin. Oftast eru þessir samningar og skilmálar löglegir þannig neytandinn neyðist til að sætta sig við þá. Ef ekki er um bindisamning að ræða ætti þó að vera hægt að segja samningnum upp.

Áður en farið er í ný viðskipti er nauðsynlegt að lesa samninginn vandlega og huga sérstaklega að klausum er snúa að gjaldskrárhækkunum, uppsagnarfresti og skilmálabreytingum. Í mörgum tilfellum fylgir eiginlegur samningur ekki með þegar farið er í viðskipti, t.d. þegar sölumenn selja neytendum þjónustu í gegnum síma. Þá er best að biðja um samninginn eða þá skilmála er snúa að viðskiptunum senda í pósti eða tölvupósti áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Þegar segja á upp samningi eða þjónustu er svo öruggast að gera það skriflega og senda alltaf afrit í tölvupósti ásamt beiðni um staðfestingu á uppsögn. Þá hefur neytandinn sönnun á uppsögninni ef hún skyldi ekki skila sér alla leið.