Lokaorð

Þegar íslensku Neytendasamtökin voru stofnuð 1953 voru þau þriðju neytendasamtökin sem stofnuð höfðu verið í heiminum. Ólíkt neytendasamtökum á Norðurlöndunum og í ýmsum öðrum löndum, hafa íslensku samtökin starfað nánast alfarið á eigin forsendum sem frjáls félagasamtök og fengið lítinn sem engan stuðning frá ríki og sveitarfélögum. Það er því alls ekki sjálfgefið að slík samtök nái fimmtíu ára aldri og vaxi og dafni á því tímabili. Saga Neytendasamtakanna er því saga erfiðleika og barráttu og mikils starfs fjölda fórnfúsra einstaklinga. Þrátt fyrir frumleika, dugnað og ósérplægni frumherjans hafði allsráðandi stjórn hans á samtökunum staðið framþróun þeirra fyrir dyrum um alllangt skeið þegar gerð varð hallarbylting í samtökunum 1968. En róttækar breytingar á stjórninni höfðu einnig í för með sér áhættu fyrir samtökin. Þau biðu álitshnekki, misstu fjölda félagsmanna og þó nokkrir stjórnarmenn misstu fljótlega áhuga á starfi og málefnum samtakanna. Þá voru gerðar ráðstafanir til að tryggja fjölpólitíska stjórn og fjórum árum eftir hallarbyltinguna höfðu samtökin sannað sig sem þverpólitísk samtök neytenda. Forysta samtakanna hafði lært að umbera, meta og nýta sér ólíkar stjórnmálaskoðanir þeirra sem komu að stjórnun og stefnumótun. Næsta eldraun samtakanna snérist um fjármála- og starfsmannastjórnun. Í þeim efnum seig á ógæfuhliðina á fyrri helmingi áttunda áratugarins. Með aðhaldssemi, nýtni og útsjónarsemi tókst forystumönnum samtakanna að rétta við fjárhaginn og auka smám saman við starfsemi samtakanna eftir því sem fjárhagur þeirra leyfði. Samtökin höfðu lært ábyrga starfsmanna- og fjármálastjórn sem þau búa enn að. Eftir þessa sigra hefur vegur Neytendasamtakanna aukist jafnt og þétt og starfsemi þeirra orðið æ mikilvægari í samfélagi sem leggur sífellt meiri áherslu á mikið vöruúrval, gæði, hagstætt verð og heiðarlega viðskiptahætti. Í dag eru Neytendasamtökin því hvoru tveggja í senn, raunveruleg fjöldasamtök íslenskra neytenda og veigamikil hagsmunastofnun í íslensku samfélagi.

Reykjavík,  desember 2003

Ragnhildur Guðjónsdóttir