Mál 01/2012

Tag: : 

Ár álits: 

2012

Númer álits: 

01

Deilur aðila sneru að uppgjöri við lok leigutíma, en leigusali hafði gengið að tryggingu vegna þeirrar fjárhæðar sem hann taldi leigjanda skulda sér. Í fyrsta lagi taldi leigjandinn að honum bæri ekki að borga leigu vegna desembermánaðar en hann hefði viljað skila íbúðinni hinn 2. desember. Kærunefndin leit til þess að leigusamningnum hefði ekki verið réttilega sagt upp, en uppsagnarfrestur væri sex mánuðir. Hins vegar hafði leigusali fallist á að nægilegt væri að greiða leigu vegna desembermánaðar en ekki lengur. Því bæri leigjandanum að greiða þá leigu. Í öðru lagi var svo deilt um gjald vegna skilaúttektar, en kveðið var á um slíka gjaldtöku að upphæð 13.500 kr. í samningi aðila. Leigjandinn gerði athugasemdir vegna þessa gjalds þar sem hann hefði aldrei fengið í hendur neina úttektarskýrslu né hefði byggingarfulltrúi nokkru sinni verið kallaður til til að gera úttekt á eigninni. Leigusali sagðist hins vegar framkvæma þessa úttekt sjálfur í hvert sinn sem leigjandi skilaði eigninni af sér, og áskildi sér í leigusamningi gjald vegna úttektarinnar. Kærunefndin féllst á að í samningi aðila væri kveðið á um gjaldtökuna og því bæri leigjanda að borga gjaldið. Þá gerði leigjandi einnig athugasemdir varðandi það að hann hefði greitt of mikið í hússjóð og kvartaði einnig yfir því að viðhaldi eignarinnar hefði verið ábótavant á leigutímanum. Krafðist hann því þess að sér yrðu endurgreiddar hússjóðsgreiðslur samkvæmt mati kærunefndarinnar. Nefndin kvað ekki á um neina slíka lækkun en sagði þó að leigusali skyldi afhenda leigjanda sundurliðun á kostnaðarþáttum húsgjalds, en rekstrarkostnaður skiptist samkvæmt lögum milli leigjanda og leigusala eftir ákveðnum reglum. 

Mál 1/2012