Mál 02/2013

Tag: : 

Ár álits: 

2013

Númer álits: 

02

 

Leigjandi leitaði til nefndarinnar vegna ágreinings um greiðslu kostnaðar vegna hita- og rafmagnsnotkunar. Var kostnaðurinn óvenjuhár og var deilt um hver skyldi greiða bakreikninga vegna notkunarinnar. Jafnframt taldi leigjandinn ósanngjarnt að annar leigjandi í húsinu skyldi aðeins greiða 3.000 kr. á mánuði vegna hita og rafmagns. Leigjandinn taldi að hina miklu rafmagnsnotkun mætti rekja til þess að í kjallara hússins, sem hann hafði ekki afnot af, væri mikill og orkufrekur rafmagnsbúnaður, sem hann ætti ekki að þurfa að greiða kostnað vegna. Þá hefði ofn í húsnæðinu verið bilaður og hefði það leitt til mikillar notkunar á heitu vatni. Leigusali hafi svo ekki tilkynnt OR um bilunina, en slík tilkynning hefði getað leitt til lækkunar reikningsins. Leigusali hafnaði öllum kröfum leigjandans fyrir nefndinni og taldi sig þvert á móti eiga kröfu á leigjandann vegna lélegs frágangs og skemmda á íbúðinni. Nefndin tók fram að samkvæmt húsaleigulögum væri það leigjandi sem ætti að greiða kostnað vegna hita og rafmagns. Þá lægi ekki fyrir að hve miklu leyti rafmagnsreikninginn mætti rekja til nota leigusalans og eins væri óljóst hve mikil lækkun OR á hitaveitureikningnum hefði mögulega getað orðið. Þá taldi nefndin sig ekki hafa forsendur til að meta hvernig kostnaðarskiptingu milli leigjenda hússins skyldi háttað. Var kröfum leigjandans því hafnað.

Mál 2/2013