Mál 07/2007

Tag: : 

Ár álits: 

2007

Númer álits: 

07

Leigjandi leitaði til nefndarinnar með þær kröfur að leigusamningur sem aðilar hefðu gert væri ógildur og jafnframt skyldi tryggingarfé skilað. Atvik voru þau að aðilar höfðu gert tímabundinn samning frá 5. febrúar 2007 til 31. janúar 2008. Þegar leigjandi flutti í íbúðina hafi verið mjög kalt í henni auk þess sem gardínur hafi vantað. Þegar leigjandi hugðist láta þinglýsa samningnum var það svo ekki mögulegt þar eð leigusali væri ekki eigandi íbúðarinnar heldur verktakafyrirtæki. Leigjandi hafi í kjölfarið ákveðið að rýma íbúðina og var fluttur út 14. febrúar. Leigusali mótmælti frásögn leigjanda og sagðist hafa verið í fullum rétti að leigja út íbúðina enda hafi hann verið með heimild til þess  frá þinglýstum eiganda. Auðvelt hefði verið að fá samþykki eiganda á leigusamninginn sjálfan en leigjandi hefði ekki óskað eftir slíku. Hvað varðaði kvartanir um hitastig í eigninni hefði fyrst verið kvartað vegna þess hinn 12. febrúar og hefði leigusali þá strax brugðist við. Þá taldi leigusali sig eiga 35.000 kr. bótakröfu á hendur leigjanda þar sem hann hefði valdið skemmdum á vaski og auk þess hefði leigusali orðið fyrir kostnaði við að auglýsa eignina til leigu að nýju. Leigjandi mótmælti aðallega tölulegri kröfu leigusala hvað þetta varðaði og samþykkti því ekki óbreytta bótakröfu. Nefndin taldi ekki þau atvik vera fyrir hendi að réttlætt gætu riftun enda hefði leigusali þegar brugðist við kvörtunum leigjanda vegna hita í íbúðinni. Nefndin taldi því að samningur aðila skyldi vera í gildi til 1. apríl 2007, eða þar til nýr leigjandi tók við eigninni og væri leigusala heimilt að taka af tryggingarfé sem næmi leigugreiðslum til þess tíma. Jafnframt væri leigusala heimilt að halda 35.000 kr. af tryggingarfénu, vegna bótakröfu sinnar, þar til dómur gengi um frekari bótaskyldu leigjanda.

Mál 7/2007