Mál 09/2013

Tag: : 

Ár álits: 

2013

Númer álits: 

09

Hinn 3. desember 2012 tók maður á leigu herbergi og flutti inn í það samdægurs. Ekki var gerður samningur en leigjandinn skrifaði undir leiguskilmála sem kváðu á um að ef leigjandi gengi ekki þrifalega um, skemmdi hið leigða eða eigur annarra leigjenda, truflaði meðleigjendur eða borgaði ekki leigu á réttum tíma mætti rifta samningi fyrirvaralaust og vísa leigjanda úr húsnæðinu. Svo fór að nokkrum dögum eftir að leigjandinn flutti inn var gleðskapur í herbergi hans sem endaði með því að lögregla þurfti að fjarlægja hann. Í framhaldinu hafi honum ekki verið hleypt aftur inn í húsnæðið og hinn 10. desember hafi hann fjarlægt eigur sínar úr herberginu. Leigusali, sem svaraði raunar engu fyrir nefndinni, hefði í kjölfarið neitað að endurgreiða leigu og tryggingu, en við upphaf samningsins hafði leigjandinn greitt leigu vegna eins mánaðar og sömu upphæð í tryggingu. Þá hefði leigusali haldið því fram að leigjandinn hefði valdið skemmdum á húsnæðinu og skilað því óhreinu. Því neitaði leigjandinn. Leigjandinn krafðist endurgreiðslu tryggingar og ofgreiddrar leigu, en riftun hefði verið ólögmæt, þar sem leigusala hefði borið að áminna hann skriflega áður en riftun gæti farið fram. Þá krafðist leigjandinn jafnframt bóta vegna ólögmætrar riftunar. Nefndin féllst á að ákvæði í skilmálum leigusala væri ekki í samræmi við riftunarákvæði húsaleigulaga og að riftun leigusala hefði því verið ólögmæt en skilmálar leigusala gætu aðeins gilt að því leyti sem þeir brytu ekki í bága við húsaleigulög. Þá var það mat nefndarinnar að ekkert í gögnum málsins styddi það að leigjandinn hefði valdið skemmdum á húsnæðinu. Þá taldi nefndin að leigusala væri skylt að endurgreiða leigu vegna þess tíma sem leigjandinn bjó ekki í húsnæðinu og að jafnframt ætti að endurgreiða leigjandanum tryggingarféð, en ekkert lá fyrir um að leigusali hefði gert kröfu í það, en skylt er að gera slíka kröfu innan tveggja mánaða frá því leigutíma lýkur, annars þarf leigusali að skila fénu. Hins vegar taldi nefndin sig ekki geta úrskurðað um bætur vegna ólögmætrar riftunar.

Mál 9/2013