Mál 10/2012

Tag: : 

Ár álits: 

2012

Númer álits: 

10

Aðilar gerðu með sér eins árs samning, frá 1. júní 2011 til 1. júní 2012, en svo fór að leigjandinn flutti úr eigninni í október 2011. Fyrirnefndinni krafðist leigjandinn þess að leigusölum yrði gert að endurgreiða honum fyrirframgreidda leigu, en leigjandinn taldi sig eiga rétt á afslætti vegna leigu í októbermánuði og hafði því ekki greitt fulla leigu fyrir þann mánuð. Lýsti leigjandinn ástandi íbúðarinnar þannig að leki og mygla hefði verið í henni, of kalt hafi verið í íbúðinni og rakastig of hátt, þá hafi klósettið byrjað að leka undir lok leigutímans. Leigjandinn hafi á endanum, eða hinn 19. október, flutt út vegna þessa, en sótt restina af búslóð sinni í íbúðina 30. október. Leigusalar sögðust strax hafa brugðist við leka á þann hátt að hluti einangrunar í lekum vegg hafi verið rifin burt og spónaplata sett í sárið í þeim tilgangi að fylgjast með þróun lekans. Meira hafi ekki verið hægt að gera á þeim tíma. Þá hafi hitastig í íbúðinni verið eðlilegt en mikinn raka mætti að einhverju leyti skýra með því að leigjandinn hefði þurrkað föt inni í íbúðinni og eins með því að gluggar hefðu ekki verið opnir. Þá sögðu leigusalar að leigjandinn hefði sagt upp leigunni munnlega hinn 6. október. Þá hefði íbúðin verið í mjög slæmu ástandi við skil leigjandans. Eins og áður sagði var um tímabundinn samning að ræða, og slíkum samningi er almennt ekki hægt að segja upp á leigutímanum. Þá var ekki sýnt að leigjandi hefði sent yfirlýsingu um riftun, né að skilyrði til riftunar hefðu verið uppfyllt, en ljóst var að leigjandi hafði hinn 9. október sent leigusölum tilkynningu (ekki yfirlýsingu um riftun)um ástand íbúðarinnar. Á grundvelli þess að aðila greindi að verulegu leyti á um staðreyndir málsins, og þess að það væri leigjanda að sanna að skilyrði til riftunar hefðu verið fyrir hendi, var það niðurstaða nefndarinnar að leigusala bæri ekki að endurgreiða leigjanda fyrirframgreiðsluna. 

Mál 10/2012