Mál 18/2007

Tag: : 

Ár álits: 

2007

Númer álits: 

18

Aðilar gerðu með sér munnlegan samning um leigu á íbúð. Í september 2007 fékk leigjandinn tilkynningu frá leigusala um að samningnum væri sagt upp og hann skyldi rýma eignina 1. janúar 2008. Leigjandinn leitaði þá til nefndarinnar með margvíslegar kröfur. M.a. að nefndin staðfesti að samningur aðila væri í gildi til 1. apríl 2008, að hann fengi endurgreitt tryggingarfé, að gagnaðila bæri að veita afslátt af leigunni vegna ýmissa annmarka sem á eigninni væru, og að leigusali skyldi greiða leigjanda bætur sem samsvöruðu húsaleigubótum en að sögn leigjanda hafði hann ítrekað óskað eftir að fá skriflegan leigusamning í hendur. Leigusali varð hins vegar ekki við því og þ.a.l. var hvorki hægt að þinglýsa samningnum né sækja um húsaleigubætur vegna hans. Þá taldi leigjandi ýmsa annmarka vera á íbúðinni, s.s. að klósett og niðurföll væru stífluð, rafmagnsinnstungur bilaðar og ofn í stofu/eldhúsi bilaður. Af gögnum málsins varð hins vegar ekki ráðið annað en að leigjandinn hefði fyrst kvartað skriflega vegna þessara atriða átta mánuðum eftir að hann flutti í íbúðina. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að samningi aðila lyki ekki fyrr en 1. apríl 2008 en þar sem vanrækt hefði verið að gera skriflegan samning skyldi litið svo á að samningur aðila væri ótímabundinn, og uppsagnarfrestur þar með sex mánuðir. Hins vegar taldi nefndin ekki sýnt að leigjandi ætti rétt á skaðabótum vegna húsaleigubóta auk þess sem ekki væru efni til að taka til skoðunar kröfu leigjanda um endurgreiðslu tryggingarfjár þar sem samningi aðila væri ekki lokið. Þá væru ekki efni til að taka til greina kröfur leigjanda um skaðabætur vegna ástands húsnæðisins enda hefði ekki verið farið með þær umkvartanir eftir reglum laganna.

Mál 18/2007