Mál 20/2012

Tag: : 

Ár álits: 

2012

Númer álits: 

20

Aðilar höfðu gert ótímabundinn leigusamning. Eftir uppsögn samningsins var deilt um ýmis atriði. Leigjandinn hélt því meðal annars fram að samið hafi verið um að hann flytti úr íbúðinni þegar mánuður væri eftir af uppsagnarfresti og að honum bæri því ekki að greiða leigu fyrir þann mánuð. Leigusali hélt því hins vegar fram að enginn samningur hefði komist á um að stytta uppsagnarfrestinn og því bæri leigjandanum að greiða leigu í sex mánuði frá uppsögn óháð því hvenær hann hefði ákveðið að flytja út. Þá hafði verið samið um það í upphafi að leigan skyldi bundin vísitölu en leigjandi hefði alltaf greitt óbreytt leiguverð og því ekki tekið tillit til vísitöluhækkana. Hélt leigusali því fram að leigjandi skuldaði 347.390 kr. vegna þessa. Þessu mótmælti leigjandinn og sagði að samningur hefði komist á um að taka ekki tillit til vísitöluhækkana. Þá taldi leigjandinn að hann ætti rétt á endurgreiðslu vegna ofgreidds kostnaðar vegna hita og rafmagns. Í upphafi sömdu aðilar um að leigjandinn greiddi 33% heildarkostnaðar vegna þeirra þátta, og þá jafnframt 33% af bakreikningum sem kynnu að berast vegna álestra. Leigjandinn hélt því hins vegar fram að þetta væri ranglát skipting þar sem leigusali, sem einnig bjó í húsinu, notaði mjög mikið vatn og rafmagn og að bakreikningar væru aðeins tilkomnir vegna notkunar leigusala. Þá deildu aðilar um það hver ætti að borga málun íbúðarinnar eftir að leigjandi flutti út, svo virðist sem leigjandi hafi boðist til að greiða málun tveggja herbergja sem hann hafði fengið leyfi til að reykja í, en gerði það að skilyrði að leigusali gerði fyrst við rakaskemmdir sem virðist ekki hafa verið gert. Ágreiningur var svo um það hvort leigjandinn hefði aðeins  boðist til að mála herbergin eða hvort hann ætti einnig að útvega málningu, einnig var deilt um í hve mörgum herbergjum leigjandanum hefði verið leyft að reykja og eins taldi leigusali að vegna reykingalyktar þyrfti að mála alla eignina en ekki aðeins umrædd herbergi. Hvað varðaði uppsagnartímann taldi nefndin ósannað að samið hefði verið um styttri uppsagnarfrest en lög gerðu ráð fyrir, og því ætti leigjandinn að borga sex mánaða uppsagnarfrest. Hins vegar var talið, þar sem leigjandinn hafði greitt leigu án þess að taka tillit til hækkunar vegna vísitölu í þrjú ár án þess að leigusali gerði athugasemdir við það, að samningur hefði komist á um að tengja leiguna ekki við vísitölu. Þurfti leigjandinn því ekki að greiða vísitöluhækkanir. Hvað varðaði kostnað vegna rafmagns og hita taldi kærunefndin ósannað að leigjandi hefði greitt meira en honum hefði borið og var því kröfu um endurgreiðslu þess kostnaðar hafnað. Hvað varðaði málun á íbúðinni leit nefndin til þess að það væri leigusali sem ætti að halda íbúðinni í leiguhæfu ástandi, m.a. með því að mála hana. Þar sem ágreiningur var um staðreyndir og hvað hefði í raun verið samið um og þegar litið var til þess að leigjandinn hefði búið í íbúðinni í fjögur ár (og því komið að málun) taldi nefndin að leigjandinn ætti ekki að greiða kostnað vegna málunar.

Mál 20/2012