Mál 27/2009

Tag: : 

Ár álits: 

2009

Númer álits: 

27

Gerður var ótímabundinn leigusamningur hinn 15. ágúst 2008. Vegna myglusvepps í íbúðinni fluttu leigjendurnir þó einu ári og fjórum mánuðum síðar í aðra íbúð í eigu leigusala. Þann tíma sem leigjendur bjuggu í fyrri íbúðinni var þeim gert að greiða í hússjóð, en í samningi aðila kom fram að hússjóðurinn væri nýttur í að fjármagna viðhald á íbúðinni. Þetta gjald væri þannig ekki tilkomið vegna rekstrarkostnaðar, eins og vegna rafmagns eða hita.  Ekki væri um eiginlegan hússjóð að ræða heldur sjóð sem leigusali nýtti til viðhalds á eignum sínum. Leigjendur mótmæltu þessu gjaldi enda væri það leigusali sem ætti að kosta almennt viðhald á eigninni. Það var þó ekki fellt niður fyrr en leigjendurnir fluttu í aðra íbúð, en þá var leigan hækkuð um sömu upphæð og hafði áður verið innheimt vegna hússjóðs. Fyrir nefndinni fóru leigjendurnir því fram á endurgreiðslu þessa hússjóðsgjalds og auk þess að leigan á seinni íbúðinni yrði lækkuð sem næmi þessu gjaldi. Nefndin féllst á að með innheimtu þessa hússjóðsgjald hefði leigusali rukkað leigjendur sérstaklega vegna kostnaðar sem hann ætti sjálfur að standa straum af, án þess að kveðið væri skýrlega í samningi um frávik frá viðhaldsskyldum leigusala eða leigan lækkuð að sama skapi. Hins vegar væri ósannað að leiguupphæðin sem tilgreind var í samningi vegna seinni íbúðarinnar, en þar var þessu hússjóðsgjaldi sleppt, væri ósanngjörn eða óeðlilega há. Því ætti leigusali að endurgreiða það sem leigjendur hefðu greitt í hússjóð, hins vegar var kröfu um lækkun leigu í nýjum samningi vegna seinni íbúðarinnar hafnað. 

Mál 27/2009