Mál 27/2013

Tag: : 

Ár álits: 

2013

Númer álits: 

27

Samið hafði verið um að leigjandi tæki að sér ákveðnar endurbætur á leiguíbúð. Ágreiningur var milli leigjanda og leigusala um hvernig gera skyldi upp kostnað vegna framkvæmdanna. Meðal annars krafðist leigjandinn þess að leigusalar greiddu reikning vegna vinnu rafvirkja í eldhúsi í tengslum við uppsetningu nýrrar innréttingar. Aðilar voru þó ekki sammála um að svo umfangsmikilla viðgerða hefði verið þörf og nefndin taldi að ekki lægi fyrir samþykki leigusala fyrir vinnunni. Þá rakti nefndin að leigjanda gæti verið heimilt að framkvæma viðgerðir á íbúðinni á kostnað leigusala, en skilyrði væri að hann hefði áður skorað á leigusala að framkvæma viðgerðirnar. Þar sem ekki lá fyrir að slík áskorun hefði verið send var kröfu leigjandans hafnað. Þá krafðist leigjandinn greiðslu vegna aksturs og verkefna sem ekki hafði verið samið um í tengslum við leigusamninginn en leigjandi hafði engu að síður tekið að sér. Ágreiningur var um fjárhæð þessarar greiðslu og einstaka liði sem leigjandinn krafðist greiðslu fyrir. Nefndin taldi að samningur um þessi aukaverk stæði í raun utan við leigusamning aðila og þar með utan valdsviðs nefndarinnar og taldi sér því ekki fært að taka afstöðu til þessarar kröfu.  Þá krafðist leigjandinn afsláttar af leiguverði þar sem íbúðin hefði í einhvern tíma verið án nothæfs eldhúss og sturtu. Leigusalar mótmæltu þeirri kröfu, þar sem ljóst hefði verið við gerð leigusamnings að íbúðin yrði ekki fullbúin við upphaf leigutíma og eins hefði leigjandinn haft aðgang að baði og eldhúsi á efri hæð hússins. Nefndin hafnaði þessari kröfu leigjandans þar sem aðilar væru ósammála og ekki hefði verið leitað til byggingarfulltrúa til að meta afsláttinn, og því lægju ekki fyrir gögn um hversu skert afnot leigjandans af íbúðinni hefðu verið.  

Mál 27/2013