Mál 28/2013

Tag: : 

Ár álits: 

2013

Númer álits: 

28

Leigjandi hélt því fram að leigusamningur hefði verið ólöglegur. Þannig hafi verið tekið fram í samningnum að honum mætti ekki þinglýsa, en þar með gat leigjandi ekki sótt um húsaleigubætur, og að leigan yrði ekki gefin upp til skatts. Þá taldi leigjandi sig hafa samið við leigusala um að leigutíminn yrði sex til sjö mánuðir en skriflegur leigusamningur aðila var þó tímabundinn til ellefu mánaða. Leigjandinn sagði leigunni upp símleiðis hinn 28. febrúar 2013, og skrifleg uppsögn var send í pósti í byrjun marsmánaðar. Leigjandi skilaði svo lyklum að íbúðinni í byrjun apríl. Leigusali mótmælti þessum tímasetningum og sagði að uppsögn hefði ekki farið í póst fyrr en 2. apríl. Þá hafi leigjandinn ekki skilað öllum lyklum að íbúðinni. Leigusali hafi þó boðið leigjandanum að segja upp samningnum gegn því að greiða þriggja mánaða uppsagnarfrest. Nefndin taldi að ekki hefði verið löglegt að rifta samningi aðila á grundvelli þess að um ólöglegan samning hefði verið að ræða, enda væru þær aðstæður sem leigjandi lýsti ekki taldar meðal þeirra ástæðna sem réttlætt gætu riftun samkvæmt húsaleigulögum. Þá hafi ekki verið komið á samkomulag aðila um að leigu skyldi ljúka fyrir þann tíma sem tilgreindur var í samningnum. Þar sem þó virtist sem nýr leigjandi hefði verið kominn í eignina í lok apríl taldi nefndin þó að leigusali ætti bara rétt á leigu vegna aprílmánaðar en ætti að skila leigjandanum afganginum af fyrirframgreiðslunni sem deilt var um.

Mál 28/2013