Mál 32/2012

Tag: : 

Ár álits: 

2012

Númer álits: 

32

Aðilar gerðu með sér tímabundinn leigusamning, en leigjandi gerði fljótlega athugasemdir við ástand húsnæðisins, t.d. að ekki hafi verið hægt að loka svalahurð og að gardínu hafi vantað fyrir svalahurðina sem hafi valdið ónæði o.s.frv. Leigusali brást ekki við þessum kvörtunum og nokkrum mánuðum seinna rifti leigjandinn því samningnum og flutti úr íbúðinni. Ágreiningur var um það hvort riftunin hefði verið lögmæt og hvort leigusali þyrfti að skila tryggingarvíxli. Einnig var nokkur ágreiningur vegna þess hvernig aðilar höfðu sent orðsendingar sín á milli. Þá deildu aðilar einnig um hvort ónæði hefði stafað frá öðrum íbúum hússins. Leigusali krafðist bóta vegna skemmda á íbúðinni auk bóta vegna tapaðra leigugreiðslna, en hann taldi riftunina ólögmæta og krafðist því bóta vegna kostnaðar við að finna nýja leigjendur. Þá hélt leigusali því fram að umrædd svalahurð hefði einungis verið stíf en alls ekki ónothæf. Í niðurstöðu sinni rakti nefndin að það væri leigjandans að sanna að skilyrði fyrir riftun hefðu verið fyrir hendi. Þar sem aðilar voru ósammála um staðreyndir málsins taldi nefndin að slík sönnun hefði ekki tekist en ekki væri ljóst um hvort verulega annmarka eða verulega vanrækslu leigusala hefði verið að ræða. Hins vegar taldi nefndin mögulegt að vitnaleiðslur og munnlegur málflutningur, sem fram færi fyrir dómstólum en ekki hjá nefndinni, gætu leitt til annarrar niðurstöðu. Var því niðurstaðan sú að riftun leigjandans hefði verið óheimil og að leigusalanum bæri ekki að skila tryggingarvíxlinum.

Mál 32/2012