Mál 34/2012

Tag: : 

Ár álits: 

2012

Númer álits: 

34

Aðilar gerðu ótímabundinn leigusamning frá 15. desember 2011. Fljótlega eftir að samningurinn var gerður kom upp ágreiningur vegna greiðslu hita og rafmagns. Í byrjun maí 2012 rifti leigusali samningnum á þeim forsendum að rekstrarkostnaður hefði ekki verið greiddur en áður hefði verið send áskorun á lögheimili leigjandans. Leigjandinn hélt því fram að þessi bréf hefðu ekki borist honum enda væri húsnæðið ekki skráð sem íbúðarhúsnæði og enginn póstur borinn út í það og ekki hægt að skrá lögheimili í íbúðinni. Hinn 22. maí flutti leigjandinn þó úr húsnæðinu og nýir leigjendur tóku við því 15. júní. Leigjandinn hélt því fram fyrir nefndinni að riftunin hefði verið ólögmæt og bar fram fyrir því ýmis rök, eins og að vafi hefði verið á því hvort krafan hefði verið réttmæt en hann hefði ekki getað kynnt sér reikninga vegna hita og rafmagns, auk þess sem leigusali hefði síðar tekið við fullri greiðslu vegna hita og rafmagns án þess að gera athugasemdir við það. Í öllu falli taldi leigjandinn að hann hefði ekki átt að greiða neinn kostnað vegna tímabilsins frá því hann flutti út og þar til nýir leigjendur tóku við enda hefði engin notkun átt sér stað þann tíma. Þá gerði leigjandinn ýmsar aðrar athugasemdir eins og varðandi það hvernig hækkun leigu hafi verið reiknuð o.s.frv. Leigusali hélt því hins vegar fram að hann hefði farið rétt að í öllum atriðum, en ásamt því að senda áskorun á skráð lögheimili leigjanda hafi hann skilið eftir afrit af áskoruninni fyrir utan hjá álitsbeiðanda. Í stuttu máli snerist deila aðila um það hvort leigjandanum bæri að greiða leigu og kostnað vegna hita og rafmagns frá þeim tíma sem leigjandinn flutti út og þar til nýir leigjendur tóku við eigninni. Nefndin taldi ljóst að riftun og áskorun hefði verið send leigjanda með tryggilegum hætti á lögheimili hans og skipti þá í raun ekki máli þó leigjandinn kannaðist ekki við að hafa fengið áskorunina. Þá var talið að ógreiddur rekstrarkostnaður væri gild ástæða fyrir riftun. Enn fremur taldi nefndin að leigusali ætti rétt á bótum vegna tapaðra leigugreiðslna fram til þess tíma er nýir leigjendur fluttu inn. Taldi nefndin því að leigjandanum bæri að greiða húsaleigu og rekstrarkostnað vegna tímabilsins 22. maí til 15. júní 2012. 

Mál 34/2012