Mál 40/2011

Tag: : 

Ár álits: 

2011

Númer álits: 

40

Leigjandi krafðist þess að fá endurgreidda leigu þar sem íbúðin hafi í raun verið óíbúðarhæf. Leigusamningur aðila var frá 1. júní en leigjandinn flutti ekki inn fyrr en í ágústmánuði en dvaldi þó eina og eina nótt í íbúðinni fram að því. Komust aðilar svo að samkomulagi um riftun samningsins frá og með 1. september. Áður, eða hinn 5., og aftur 9. ágúst hafði leigjandinn kvartað yfir ástandi eignarinnar. Voru kvartanirnar margvíslegar, m.a. var kvartað yfir fúkkalykt, rakaskemmdum og slæmu ástandi baðherbergis, einnig hafi skápar verið bilaðir og sumar rafmagnsinnstungur ekki virkað. Töluverður ágreiningur var milli aðila um staðreyndir í málinu. Kærunefndin leit til þess að ekkert í gögnum málsins styddi þær fullyrðingar að íbúðin hafi verið óíbúðarhæf vegna slæmrar lyktar og raka og að ósannað væri að leigusali hefði vísvitandi leigt íbúðina í því ástandi. Þá var einnig litið til þess að engar kvartanir bárust frá leigjandanum fyrr en 5. ágúst og yrði því að byggja á því að ástand eignarinnar hefði verið í lagi fram að því. Einnig var talið að leigusali hefði, eins og hægt var, brugðist við kvörtunum leigjandans. Var kröfum leigjandans því hafnað.

Mál 40/2011