Mál 50/2013

Tag: : 

Ár álits: 

2013

Númer álits: 

50

Leigusali leitaði til nefndarinnar og krafðist þess að leigjanda yrði gert að greiða leigu í þriggja mánaða uppagnarfresti. Leigusali hafði sagt samningnum upp hinn 15. maí og taldi uppsagnarfresti því ljúka 1. september. Um tímabundinn samning var að ræða og átti honum að ljúka hinn 1. nóvember. Leigjandinn hafði hins vegar rift leigusamningnum og yfirgefið eignina 14. júní. Úrlausn nefndarinnar sneri í raun að tvennu, þ.e. annars vegar hvort segja hefði mátt samningi aðila upp, en almennt er óheimilt að segja upp tímabundnum leigusamningi, og hins vegar að því hvort leigjandanum hefði verið heimilt að rifta samningnum. Nefndin rakti lagaákvæði um uppsögn tímabundinna samninga, en heimilt væri að semja um að slíkum samningum mætti segja upp, með a.m.k. þriggja mánaða uppsagnarfresti á grundvelli sérstakra atvika eða aðstæðna sem skyldu þá tilgreind í leigusamningi. Leigusali hefði hins vegar sagt leigunni upp á grundvelli þess að hann hefði selt eignina, en í samningi aðila var ákvæði um að segja mætti leigunni upp „ef eignin selst, eða vegna einhverra annarra ástæðna“. Að mati nefndarinnar væri ekki hægt að líta á sölu eignar sem sérstakt atvik í skilningi laganna og því væri uppsögn leigusala á samningnum ekki í samræmi við húsaleigulög. Var því næst tekið til skoðunar hvort riftun leigjanda hefði verið heimil, fyrir lá að leigjandinn hafði kært leigusala til lögreglu þar sem hann hefði farið í íbúðina í leyfisleysi og beitt leigjanda ofbeldi. Var það mat nefndarinnar að riftun væri heimil á grundvelli þess að leigusali hefði gerst sekur um refsivert athæfi gagnavart leigjanda, jafnvel þó ekki hefði enn verið gefin út ákæra eða dómur fallið í málinu. Taldi nefndin því að leigjandanum hefði verið heimilt að rifta samningnum án fyrirvara og þyrfti hann því ekki að greiða frekari leigu. 

Mál 50/2013