Mál 53/2013

Tag: : 

Ár álits: 

2013

Númer álits: 

53

 Leigjendur kröfðust þess að leigusala yrði gert að endurgreiða fyrirframgreidda leigu og tryggingarfé, en leigjendur höfðu rift leigusamningi aðila. Leigjendur gerðu margháttaðar athugasemdir við ástand eignarinnar, þ.á.m. þær að heilbrigðiseftirlitið hafi gert athugasemdir við ástand íbúðarinnar þ.e. ekki væri heimilt að leigja húsnæðið út til íbúðar og þær að ekki væri hægt að fá húsaleigubætur vegna leigunnar. Leigusali taldi hins vegar að riftunin hefði verið ólögmæt þar sem hann hefði ekki fengið tækifæri til að bæta úr ágöllum á húsnæðinu. Kærunefndin taldi ljóst að verulegir annmarkar væru á húsnæðinu en svo að sú staðreynd skapaði riftunarrétt hefði þurft að gefa leigusala tveggja mánaða frest til að bæta úr ástandi eignarinnar. Þá taldi nefndin ekki sýnt fram á að húsnæðið hefði verið heilsuspillandi jafnvel þó ekki væri heimilt að leigja það út til íbúðar, enda hefði heilbrigðiseftirlitið talið að heimilt væri að leigja húsnæðið út sem vinnustofu. Því væri ekki hægt að rifta samningnum á grundvelli þess að um heilsuspillandi húsnæði væri að ræða. Kærunefndin taldi því að riftun leigjenda á samningnum hefði verið ólögmæt og að leigusala væri heimilt að ráðstafa tryggingarfé upp í vangoldna leigu, en leigusali hafði lýst sig reiðubúinn til að semja um lok uppsagnarfrests 15. september 2013, en leigjendur riftu samningnum um tveimur vikum eftir gerð hans, eða í byrjun júlí sama árs. Var leigjendunum því gert að greiða leigu til 15. september. 

Mál 53/2013