Mál 61/2013

Tag: : 

Ár álits: 

2013

Númer álits: 

61

Leigjandi leitaði til nefndarinnar með þær kröfur að viðurkennt yrði að leigusali hefði ekki mátt ganga að bankábyrgð hans, að hann ætti rétt á endurgreiðslu leigu vegna ástands húsnæðisins og að fagaðila yrði gert að taka út húsnæðið og meta hvort það væri íbúðarhæft. Aðilar höfðu gert með sér eins og hálfs árs tímabundinn leigusamning, en fljótlega eftir að leigjendurnir fluttu inn hafi þau farið að finna fyrir ýmsum óþægindum og komist að því að sveppur væri í íbúðinni. Hefðu leigjendurnir því flutt úr íbúðinni nokkrum mánuðum eftir að leigutími hófst og þau talið sig gera það í sátt við leigusala. Leigusali krafðist hins vegar leigugreiðslna eftir að leigjendur fluttu út og taldi sig eiga rétt á að fá greidda leigu þann tíma sem hefði tekið að fá nýja leigjendur enda  hefðu leigjendurnir flutt út án fyrirvara. Kærunefndin skoðaði samskipti aðila og taldi að samkomulag hefði komist á um að leigutíma aðila lyki í lok júní, en þá fluttu leigjendurnir út, og að leigusali ætti því ekki rétt á leigugreiðslum eftir þann tíma. Þá gerði leigusali margvíslegar athugasemdir við skil húsnæðisins og taldi leigjendur hafa valdið töluverðum skemmdum á því. Leigjendurnir féllust á að hafa valdið hluta skemmdanna og var þeim gert að bæta leigusala tjón vegna þess. Þar sem upphæð þess tjóns lá ekki fyrir og aðilar voru ekki sammála um hana rakti kærunefndin að leigusali yrði þá að óska eftir mati byggingarfulltrúa á tjóninu vildi hann ganga að tryggingu leigjendanna til að fá það bætt. Að öðru leyti var bótakröfu leigusala hafnað þar sem ekki hefði tekist að sýna fram á tjónið eða að það hefði verið af völdum leigjendanna. Kærunefndin hafnaði svo kröfu leigjenda um afslátt eða endurgreiðslu leigu þar sem húsnæðið hefði verið óíbúðarhæft enda væru engin gögn í málinu sem staðfestu að húsnæðið hefði verið heilsuspillandi. Þá taldi nefndin það ekki á sínu færi að gera fagmanni að taka út húsnæðið og var þeirri kröfu því hafnað.

Mál 61/2013