Mál 90/2013

Tag: : 

Ár álits: 

2013

Númer álits: 

90

Aðilar gerðu með sér tímabundinn samning, frá 1. febrúar 2013 til 1. febrúar 2014. Leigusalar sögðu svo samningnum upp með þriggja mánaða uppsagnarfresti sem rann út 1. september 2013. Uppsögnin byggði á ákvæði leigusamnings sem sagði að ef leigusalar ætluðu sér sjálfir að nýta húsnæðið mætti segja samningnum upp. Leigjandinn fann hins vegar aðra íbúð fyrr og flutti út 1. ágúst og taldi að samið hefði verið um það. Leigusalar nýttu þó hluta tryggingarfjár sem greiðslu fyrir leigu í ágústmánuði. Kærunefndin taldi, þar sem það væru ekki leigusalar sjálfir heldur dóttir þeirra, sem ætlaði að nýta eignina, að uppsögn á samningnum hefði verið ólögmæt. Leigusalar gætu svo ekki krafist greiðslu í uppsagnarfresti þegar svo væri. Þá hefðu leigusalar nýtt ágústmánuð til framkvæmda á eigninni. Því var litið svo á að ekki mætti krefja leigjandann um leigugreiðslur vegna ágústmánaðar. Leigusalar gerðu einnig kröfu í tryggingarféð þar sem ýmsu hefði verið ábótavant við skil leigjandans á húsnæðinu. Þannig töldu leigusalar sig hafa orðið fyrir kostnaði vegna þrifa, málunar, ónýtra gardína og förgunar á hlutum sem leigjandinn átti. Nefndin rakti að þar sem ágreiningur væri um þessi atriði og dómur hefði ekki gengið um bótaskyldu leigjanda gætu leigusalar ekki haldið eftir tryggingarfé vegna þessara atriða. Jafnframt töldu leigusalar sig eiga kröfu á hendur leigjandanum þar sem hann hefði ekki staðið við að mála húsnæðið, eins og samið hefði verið um í fyrri samningi aðila. Kærunefndin tók ekki tillit til þess og taldi eðlilegt, að þegar aðilar gerðu nýjan samning í febrúar 2013 hefði átt að taka uppgjör vegna eldri samninga með í reikninginn. Það var því niðurstaða kærunefndarinnar að uppsögn leigusala á samningnum hefði verið ólögmæt, því taldi nefndin að leigjandi gæti, þar sem um ólögmæta uppsögn var að ræða, átt kröfu um verðmismun húsleigu, að því gefnu að hann hefði flutt í dýrara húsnæði. Þá taldi nefndin jafnframt að leigusölum bæri að endurgreiða leigjandanum tryggingarféð ásamt verðbótum.

Mál 90/2013