Mál nr. 10/2008

10. febrúar 2009

Þriðjudaginn 10. febrúar 2009 var fundur haldinn í Kvörtunarnefnd Neytendasamtakanna og Félagi efnalaugaeigenda.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2008

S
gegn
Efnalauginni J

Deilt um bætur vegna meints tjóns á stuttkápu við hreinsun hennar í Efnalauginni J.

Kröfur kvartanda
Kvartandi gerir kröfur um að varnaraðila verði gert að greiða bætur kr. 15.000 auk hreinsunarkostnað kr. 1.818.

Gögn:
1.      Kvörtun S til Neytendasamtakanna dags. 31.. október 2008 auk fylgiskjala.
2.      Bréf Neytendasamtakanna til Efnalaugarinnar J, dags. 5. nóvember 2008.
3.      Bréf Efnalaugarinnar J, til Neytendasamtakanna, dags. 24. nóvember 2008.
4.      Tölvupóstur Neytendasamtakanna til S, dags. 2. desember 2008 ásamt fylgiskjali.
5.      Tölvupóstur S til Neytendasamtakanna, dags. 11. desember 2008 ásamt fylgiskjali.
6.      Tölvubréf Neytendasamtakanna til Efnalaugarinnar J, dags. 7. janúar 2009, ásamt fylgiskjali.
7.      Stuttkápa sem varð fyrir meintu tjóni.

Málavextir:
S setti nýja stuttkápu í hreinsun hjá Efnalauginni J, í október 2008, vegna sósubletta í kápunni. Þegar hún sótti kápuna hafi hún séð að ekki hafði tekist að ná blettunum úr kápunni, en að öðru leyti var kápan í lagi. Kvartandi spurði starfsmann efnalaugarinnar hvort hægt væri að reyna betur að ná blettunum úr kápunni og var ákveðið að það yrði gert. Þegar S sækir kápuna, 10. október 2008, sýndist henni kápan vera ónýt. Fóðrið rifið og tætt, tölur máðar, beltissylgja hafði brotnað af, efni krumpað og faldur missiginn og í bylgjum. S krefst þess að fá kápuna bætta með kr. 15.000 auk þess að hreinsunarkostnað endurgreiddan með kr. 1.818.

Efnalaugin J, segir að þegar Þórunn hafi komið með kápuna í hreinsun, í október 2008, hafi hún verið mjög mikið blettótt eftir sósu. Þegar hún hafi sótt kápuna hafi hún tekið eftir að ekki höfðu allir blettirnir náðst úr kápunni en kápan hafi að öðru leyti verið í lagi. Samkomulag hafi náðst um það að efnalaugin reyndi betur til að ná blettunum úr kápunni. Hafi S verið gerð grein fyrir því að sterkari efni þyrfti til þess og að efnalaugin gerði það án ábyrgðar. Þegar S sækir kápuna hafi blettirnir verið horfnir en fóðrið gefið sig á saumum og sylgja brotnað. Efnalaugin hafi boðist til að laga fóðrið sem S hafi ekki þegið. Fullyrt er af Efnalauginni að S hafi undirritað yfirlýsingu um að seinni hreinsunin færi fram án ábyrgðar efnalaugarinnar, en sú yfirlýsing hefur ekki verið lögð fram í máli þessu.

Álit Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda:
Mat Efnalauganefndar er að kápan hafi fengið of mikla meðferð í seinni hreinsun, þ.e. verið þvegin á of miklum hita en skv. merkingu þolir kápan einungis 30°C. Fóður kápunnar er rifið, sylgja horfin, faldur missiginn o.fl. Að mati nefndarinnar er flíkin ónýt. Í ljósi þess og að ekki hefur verið lögð fram yfirlýsing S um að hún hafi samþykkt ábyrgðarleysi efnalaugarinnar er það mat nefndarinnar að efnalaugin J bæti eiganda kápunnar tjónið með kr. 13.000, en hún kostaði kr. 18.500. Auk þess greiði efnalaugin kr. 1.820 fyrir hreinsunina.

Niðurstaða:
Efnalaugin J, greiði S, kr. 13.000 í bætur fyrir tjón á kápunni auk þess að endurgreiða henni kr. 1.820 hreinsunarkostnað.

Þorvarður Helgason
Steinunn Jónsdóttir
Sigurjón Heiðarsson