Mál nr. 1/2006

11. janúar 2007

 

Fimmtudaginn 11. janúar 2007 var fundur haldinn í Kvörtunarnefnd Neytendasamtakanna og Félagi efnalaugaeigenda.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2006
Sóknaraðili hér eftir nefndur B
gegn
Varnaraðilanum hér eftir nefnd Efnalaugin J

Deilt um bætur vegna tjóns sem varð á brúðarkjól

Kröfur kvartanda
Kvartandi gerir kröfur um að varnaraðila verði gert að bæta kjólinn að fullu með kr. 104.500.

Gögn:
1.      Bréf B til Neytendasamtakanna dags. 17. október 2006
2.      Bréf Neytendasamtakanna til Efnalaugarinnar J dags. 25. október 2006
3.      Ódagsett bréf Efnalaugarinnar J til Neytendasamtakanna
4.      Bréf Neytendasamtakanna til Efnalaugarinnar J, dags. 5. desember 2006
5.      Formleg kvörtun B til Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda dags. 11. desember 2006
6.      Bréf B til Neytendasamtakanna, dags. 11. desember 2006
7.      Bréf Neytendasamtakanna til Efnalaugarinnar J dags. 14. desember 2006
8.      Bréf Efnalaugarinnar J til Neytendasamtakanna, dags. 16. desember 2006
9.      Bréf B til Neytendasamtakanna, dags. 28. desember 2006
10. Bréf Neytendasamtakanna til Efnalaugarinnar J dags. 29. desember 2006

Málavextir:
Kvartandi segir að farið hafi verið með brúðarkjól til hreinsunar hjá Efnalauginni J í vikunni 10. – 17. september 2006. Kjóllinn sé úr silki. Neðst á kjólnum sé tjull. Á miðjum kjólnum eru perlur. Starfsfólk efnalaugarinnar hafi verið upplýst um hvaða efni væri í kjólnum. Ekki hafi verið miði á kjólnum með upplýsingum um hvernig meðhöndla ætti kjólinn við hreinsun en á kjólnum innanverðum hafi verið miði með áletruninni Eðalklæði en þar hafi kjóllinn verið saumaður. Hafi efnalauginni verið í lófa lagið að fá upplýsingar hjá fyrirtækinu um hvernig meðhöndla skyldi kjólinn við hreinsun. Starfsfólk efnalaugarinnar hafi haft áhyggjur af perlunum svo að ákveðið hafi verið að hreinsa fyrst silkiblóm úr sama efni og efni kjólsins. Var blómið sett samskonar perlum og voru á kjólnum. Sú hreinsun hafi tekist óaðfinnanlega svo kvartandi hafi ákveðið að láta hreinsa kjólinn. Ekki hafi verið getið um það að efnalaugin hygðist ekki taka ábyrgð á hreinsuninni. Að hreinsun lokinni hafi kvartandi skoðað kjólinn. Hafi þá komið í ljós að útlit og áferð kjólsins hafði breyst. Tjullið var tætt, kjóllinn hafði styst svo að fóðrið lafði niður úr honum. Efnið sem hafði haft mikinn gljáa hafi verið matt og bylgjótt. Þá höfðu saumar losnað. Kvartandi hafi sýnt starfsfólki Eðalklæða kjólinn og hafi þeir talið kjólinn ónýtan.

Efnalaugin J sagði að umræddur kjóll hafi verið meðhöndlaður af efnalauginni. Þar sem ekki hafi verið miði í kjólnum sem segði til um meðhöndlun hafi verið farið fram á efnisprufu. Hún hafi verið hreinsuð og í framhaldi af því hafi verið tekin ákvörðun um að hreinsa kjólinn. Tekið hafi verið fram að kjóllinn yrði hreinsaður án ábyrgðar og hafi það verið samþykkt að þeim sem kom með kjólinn til hreinsunar. Kjóllinn hafi verið hreinsaður í hydrocarbonvökva tvisvar. Þar sem ekki tókst að ná vínblettum úr kjólnum við hreinsunina hafi verið tekin ákvörðun um að setja kjólinn í vatnsbað. Þá hafi blettirnir horfið en útlit kjólsins hafi breyst. Efnalaugin gerir athugasemd við það að ekki hafi verið festur leiðbeiningarmiði á kjólinn um hreinsun eins og fataframleiðendur eigi að sjá til að séu á flíkum. Þá kemur fram að Efnalaugin J sérhæfi sig í hreinsun brúðarkjóla. Ath. efnisprufa var fengin hjá Eðalklæðum að beiðni Neytendasamtakanna og hún hreinsuð eftir að eigandi taldi kjólinn ónýtan. Hélt prufan sama glansi eftir hreinsun.

Álit:
Að mati Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda var kjóllinn ekki meðhöndlaður eins og kvartandi óskaði eftir. Prufuhreinsun á efni virðist hafa tekist en í þeirri hreinsun var efnið ekki sett í vatnsbað.    Ekki hefur verið sýnt fram á að kjóllinn hafi verið hreinsaður án ábyrgðar hreinsunarinnar. Að mati nefndarinnar hefur vatnsbaðið valdið skemmdunum á kjólnum

Niðurstaða:
Efnalaugin J, greiði B hluta af verði brúðarkjólsins með kr. 75.000. Tjónþoli haldi kjólnum.

Þorvarður Helgason
Dröfn Farestveit
Sigurjón Heiðarsson