Mál nr. 1/2008

8. apríl 2008

Fimmtudaginn 8. apríl 2008 var fundur haldinn í Kvörtunarnefnd Neytendasamtakanna og Félagi efnalaugaeigenda.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2008
Sóknaraðila hér eftir nefndur K
gegn
varnaraðila hér eftir nefndur Efnalaugin H

Deilt um bætur vegna tjóns sem varð á hörkjól

Kröfur kvartanda
Kvartandi gerir kröfur um að varnaraðila verði gert að bæta kjólinn og andvirði jakka í sama lit að fullu með kr. 49.700.

Gögn:
1. Kvörtun K til Neytendasamtakanna dags. 11. desember 2007, ásamt þrem fylgiskjölum
2. Bréf Neytendasamtakanna til Efnalaugarinnar H, dags. 30. janúar 2008
3. Bréf Efnalaugarinnar H til Neytendasamtakanna, dags. 10. janúar 2008
4. Hörkjóll er varð fyrir tjóni

Málavextir:
Kvartandi kveðst hafa farið með hörkjól í hreinsun hjá Efnalauginni H í lok október 2007, þar sem matarblettir voru framan á kjólnum. Hafi starfsmanni hreinsunarinnar verið bent sérstaklega á blettina. Þegar kjóllinn hafi verið sóttur hafi komið í ljós stór ljós blettur framan á kjólnum og annar ekki minni aftan á. Eigandi hreinsunarinnar hafi sagt að reynt hafi verið sérstaklega að hreinsa blettina þar sem þeir hafi ekki farið úr við venjulega hreinsun. Sett hafi verið sérstakt hreinsiefni í blettina og við þá hreinsun hafi kjóllinn fengið þessa bletti. Að mati kvartanda er kjóllinn ónýtur.
Efnalaugin H segir að þegar kjóllinn hafi komið í hreinsun hafi verið matarblettir framan á kjólnum og svartur blettur neðarlega á kjólnum. Við fyrri hreinsun hafi matarblettir farið úr kjólnum en ekki svarti bletturinn. Hafi kjóllinn verið hreinsaður aftur með blettasápunni polysole. Að mati efnalaugarinnar sé kjóllinn ekki litekta og þoli ekki þau efni og sápur sem ætlaðar eru fyrir allan fatnað í hreinsun. Hvergi sé tekið fram að kjóllinn þoli ekki blettahreinsun.

Álit:
Að mati Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda hafa blettirnir myndast við síðari hreinsun kjólsins og hafi það gerst þar sem ekki var beitt réttri meðferð við þá hreinsun. Mat nefndarinnar er að efnalaugin H bæti kjólinn með kaupverði hans sem var kr. 29.900.

Niðurstaða:
Efnalaugin H greiði K, bætur með kaupverði kjólsins kr. 29.900.

Þorvarður Helgason
Dröfn Farestveit
Sigurjón Heiðarsson