Mál nr. 3/2008

30. apríl 2008

Þriðjudaginn 30. apríl 2008 var fundur haldinn í Kvörtunarnefnd Neytendasamtakanna og Félagi efnalaugaeigenda.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2008
Sóknaraðila hér eftir nefndur A
gegn
Varnaraðila hér eftir nefndur Efnalaugin Ö

Deilt um bætur vegna tjóns á þrem flíkum við hreinsun hjá efnalauginni Ö

Kröfur kvartanda
Kvartandi gerir kröfur um að varnaraðila verði gert að bæta flíkurnar að fullu með kr. 69.190

Gögn:
Kvörtun A til Neytendasamtakanna dags. 11. janúar 2008, ásamt tveim fylgiskjölum
Bréf Neytendasamtakanna til efnalaugarinnar Ö, dags. 9. apríl 2008
Flíkur sem urðu fyrir tjóni

Málavextir:
Kvartandi kveðst hafa farið með þrjár flíkur til hreinsunar hjá efnalauginni Ö í ágúst 2007. Flíkur þær sem um ræðir voru nýr hörtoppur sem aðeins hafði verið notaður einu sinni, tveggja ára silkiflauels mussa, mikið útsaumuð og skreytt og tveggja ára ullarkápa ofin í vöfflumynstur og með perlulista að framan. Af gögnum málsins má ljóst vera að efnalaugin hefur viðurkennt að hafa valdið skemmdum á hörtoppi og silkiflauels mussu þó ekki hafi samist um greiðslu bóta. Mun því málavöxtum ekki lýst frekar hvað við kemur þeim tveim flíkum. Við hreinsunina hafi ullarkápan minnkað um a..m.k. eitt númer og sé hún þar að auki þófin og perlulisti sé skemmdur og uppraknaður.
Efnalaugin Ö hefur ekki tjáð sig um málið.

Álit:
Sem að framan greinir hefur efnalaugin Ö viðurkennt að hafa valdið skemmdum á hörtoppi og silkiflauels blússu. Kvörtunarnefnd Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda tekur því aðeins afstöðu til bótagreiðslna hvað snýr að þeim flíkum. Að mati nefndarinnar ber efnalauginni að greiða hörtopp að fullu með kr. 21.200  þar sem hann var nýr og hafði aðeins verið notaður einu sinni. Silkiflauels mussan var tveggja ára og hafði verið notuð nokkuð. Nýjar sambærilegar flíkur kosta í dag um kr. 12.000 – kr. 14.000. Að mati nefndarinnar ber efnalauginni Ö að greiða kr. 7.000 í bætur fyrir skemmdir á mussunni.

Nefndin telur ljóst að tjón það sem lýst er í málavaxtalýsingu á ullarkápu hafi orðið til við hreinsunina. Kápan hefur því ekki fengið rétta meðferð í hreinsuninni. Kápan var tveggja ára, lítið notuð og kostaði kr. 32.990. Að mati nefndarinnar greiði efnalaugin Ö kr. 18.000 í bætur fyrir skemmdir á kápunni.

Niðurstaða:
Efnalaugin Ö, greiði A, bætur sem hér segir:

Fyrir tjón á hörtoppi      21.200 kr.
Fyrir tjón á silkiflauels mussu      7.000 kr.
Fyrir tjón á ullarkápu      18.000 kr.
Samtals       46.200 kr.

Þorvarður Helgason
Dröfn Farestveit