Mál nr. 4/2008

31. október 2008

Föstudaginn 31. október 2008 var fundur haldinn í Kvörtunarnefnd Neytendasamtakanna og Félagi efnalaugaeigenda.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2008
E
gegn
Efnalauginni K

Deilt um bætur vegna meints tjóns á kjól við hreinsun hjá efnalauginni K.

Kröfur kvartanda
Kvartandi gerir kröfur um að varnaraðila verði gert að bæta kjólinn að fullu með
andvirði þess er kostar að sauma sambærilegan kjól kr. 57.000. 
Kaupverð kjólsins var kr. 22.000.

Gögn:
1. Kvörtun E til Neytendasamtakanna dags. 26. júní  2008.
2. Ódagsett bréf Neytendasamtakanna til efnalaugarinnar K.
3. Bréf efnalaugarinnar K til Neytendasamtakanna, dags. 21. júlí 2008.
4. Kjóll sem varð fyrir meintu tjóni.

Málavextir:
Kvartandi kveðst hafa farið með kjólinn í hreinsun hjá efnalauginni K í byrjun júní 2008. Eftir meðhöndlun efnalaugarinnar á kjólnum hafi rauður litur kjólsins dofnað og jafnframt hafði hann hlaupið svo hann væri ónothæfur eiganda. Kjóllinn hafi einu sinni áður verið hreinsaður og þá hafi litur og stærð kjólsins haldið sér. Kvartandi krefst þess að fá kjólinn að fullu bættan með andvirði þess er kostar að sauma sambærilegan kjól kr. 57.000.

Að mati efnalaugarinnar K hafi kjóllinn hvorki látið lit eða minnkað við hreinsunina. Liturinn er eðlilegur. Þá hafi kjóllinn ekki hlaupið. Því til staðfestu bendir efnalaugin á að fóður kjólsins passaði við kjólinn eftir hreinsunina, en fóður hleypur ekki við hreinsun þó annað efni geti hlaupið.

Álit:
Að mati Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda hefur kjóllinn verið þveginn í hreinsunarferli hjá efnalauginni K sem ekki má gera eins og sjá má af merkingum. Við það hefur kjóllinn hlaupið sem greinilega má sjá þar sem fóður er of stórt og passar ekki lengur við kjólinn. Kjóllinn hefur því ekki fengið rétta meðferð hjá efnalauginni. Í ljósi þess að kjóllinn er nýlegur er það mat nefndarinnar að efnalaugin K greiði kr. 18.000 í bætur fyrir skemmdir á kjólnum.

Niðurstaða:
Efnalaugin K, greiði E kr. 18.000 í bætur fyrir tjón á kjól.

Þorvarður Helgason
Dröfn Farestveit
Sigurjón Heiðarsson