Mál nr. 6/2008

31. október 2008

Föstudaginn 31. október 2008 var fundur haldinn í Kvörtunarnefnd Neytendasamtakanna og Félagi efnalaugaeigenda.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2008
K
gegn
Efnalaug Á

Deilt um bætur vegna meints tjóns á 6 lengjum af stofugardínum við hreinsun þeirra hjá Efnalaug Á.

Kröfur kvartanda:
Kvartandi gerir kröfur um að varnaraðila verði gert að greiða bætur en nýjar sambærilegar gardínur kostuðu kr. 50.000

Gögn:
1. Kvörtun K til Neytendasamtakanna, dags. 26. ágúst 2008 ásamt tveim fylgiskjölum.
2. Bréf Neytendasamtakanna til Efnalaugar Á, dags. 29. ágúst 2008.
3. Bréf Efnalaugar Á til Neytendasamtakanna, dags. 12. september 2008.
4. Gardínulengjur, tvær af sex, sem urðu fyrir meintu tjóni.

Málavextir:
Kvartandi kveðst hafa farið með sex fimm ára gamlar gardínulengjur í hreinsun í Efnalaug Á. Kvartandi hafi tekið fram í tvígang að ekki mætti þvo gardínurnar. Þegar kvartandi hafi sótt gardínurnar hafi komið í ljós að þær höfðu verið þvegnar. Gardínurnar hefðu styst og flái var í hliðunum. Efnalaugin lét reyna að lagfæra gardínurnar en það tókst ekki. Efnalaugin fullyrðir að gardínurnar ættu að þola þvott við 27°C eins og gert hafi verið í þessu tilviki.

Álit:
Að mati nefndarinnar eru gardínurnar skemmdar eftir meðhöndlun Efnalaugar Á. Þá er til þess að taka að gardínurnar voru þvegnar í óþökk eiganda þeirra. Nýjar gardínur kostuðu kvartanda kr. 50.000. Er það mat nefndarinnar að Efnalaug Á greiði kvartanda kr. 30.000.

Niðurstaða:
Efnalaug Á, greiði K, kr. 30.000- vegna tjóns á sex lengjum af stofugardínum sem varð á þeim urðu við hreinsun þeirra hjá efnalauginni.

Þorvarður Helgason
Dröfn Farestveit
Sigurjón Heiðarsson