Mál nr. 8/2008

10. febrúar 2009

Þriðjudaginn 10. febrúar 2009 var fundur haldinn í Kvörtunarnefnd Neytendasamtakanna og Félagi efnalaugaeigenda.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2008

U
gegn
efnalauginni K

Deilt um bætur vegna meints tjóns á karlmannajakkafötum við hreinsun þeirra hjá efnalauginni K.

Kröfur kvartanda
Kvartandi gerir kröfur um að varnaraðila verði gert að greiða bætur; 75% af verði fatanna sem var kr. 26.000.

Gögn:
1.      Kvörtun U til Neytendasamtakanna dags. 25. september 2008.
2.      Bréf Neytendasamtakanna til efnalaugarinnar K, dags. 16. október 2008.
3.      Bréf efnalaugarinnar K til Neytendasamtakanna, dags. 4. nóvember 2008.
4.      Karlmannajakkaföt sem urðu fyrir meintu tjóni.

Málavextir:
Kvartandi setti karlmannajakkaföt í hreinsun hjá efnalauginni K í september 2008. Kvartandi segir fötin vera 2 - 3 ára gömul, keypt í verslun G í Reykjavík. Þegar fötin voru sótt kom í ljós að áferð fatanna var með þeim hætti að þau virtust alsett hvítum kornum. Hafi fötin verið hreinsuð nokkrum sinnum áður hjá efnalauginni án vandkvæða. Krefst kvartandi bóta, 75% af verði nýs sambærilegs fatnaðar, þ.e. 75% af kr. 26.000. Að mati efnalaugarinnar koma „hvítu kornin“ úr fötunum sjálfum enda gerð úr stretch efni, þ.e. með innofinni teygju. Alþekkt sé að með tímanum morkni teygjan með sambærilegum afleiðingum. Fötin hafi verið hreinsuð oft og líftími fatanna liðinn. Nefndin óskaði álits Verslunar G á útliti fatanna. Álit verslunarinnar er að jakkafötin hafi verið notuð mikið og oft hreinsuð eins og sjá megi af merki fatanna sem sé mjög snjáð. Er það því mat verslunarinnar að efnalaugin K beri ekki ábyrgð á útliti fatanna.

Álit Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda:
Að mati nefndarinnar er hér um að ræða mikið notuð föt sem hafi farið oft í hreinsun. Áferð fatanna, sem líkist hvítum kornum, kemur innan úr fötunum frá innofinni teygju sem er orðin mjög slitin vegna notkunar og tíðra hreinsana. Af því leiðir að efnalaugin K er ekki ábyrg fyrir útliti fatanna

Niðurstaða:
Efnalaugin K ber ekki ábyrgð á útliti fatanna og ber þar af leiðandi ekki að greiða kvartanda bætur.

Þorvarður Helgason
Steinunn Jónsdóttir
Sigurjón Heiðarsson