Mál nr. 9/2008

7. janúar 2009

Miðvikudaginn 7. janúar 2009 var fundur haldinn í Kvörtunarnefnd Neytendasamtakanna og Félagi efnalaugaeigenda.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2008
V
gegn
Efnalauginni R

Deilt um bætur vegna meints tjóns á koddaverum hjá Efnalauginni R.

Kröfur kvartanda
Kvartandi gerir kröfur um að varnaraðila verði gert að greiða bætur að fjárhæð kr. 9.000

Gögn:
1.      Kvörtun V til Neytendasamtakanna dags. 7. október 2008.
2.      Bréf Neytendasamtakanna til Efnalaugarinnar R, dags. 16. október 2008.
3.      Símbréf Efnalaugarinnar R til Neytendasamtakanna, dags. 5. nóvember 2008.
4.      Koddaver sem urðu fyrir meintu tjóni.

Málavextir:
Kvartandi kveðst hafa farið með sex koddaver til þvotta hjá Efnalauginni R í mars árið 2008. Þegar hann hafi sótt koddaverin hafi þau verið þakin brúnni slikju eða blettum. Krefst kvartandi endurgreiðslu kostnaðar fyrir þvottinn kr. 3.000 auk kr. 6.000 fyrir koddaverin, samtals kr. 9.000. Að mati Efnalaugarinnar R er krafa kvartanda út í hött og neitar að inna af hendi skaðabætur.

Álit Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda:
Að mati nefndarinnar er hér um að ræða koddaver sem komin eru til ára sinna og hafa ekki verið notuð lengi áður en þau voru þvegin hjá Efnalauginni R. Við langa geymslu koddaveranna og notkunarleysi og hugsanlega mikla birtu hafa verin upplitast og þá myndast á þau annar litur eða slikja. Í brotum í koddaverunum má sjá upprunalegan lit þeirra. Ef slikja hefði myndast við þvottinn hefði hún einnig átt að myndast í brotum koddaveranna sem ekki gerðist. Slikjan eða liturinn sem kvartað er yfir hefur að mati nefndarinnar verið til staðar áður en koddaverin voru þvegin. Þar af leiðandi ber Efnalaugin R ekki ábyrgð á útliti koddaveranna.

Niðurstaða:
Efnalaugin R ber ekki ábyrgð á útliti koddaveranna og ber þar af leiðandi ekki að greiða kvartanda bætur.

Þorvarður Helgason
Dröfn Farestveit
Sigurjón Heiðarsson