Má verkstæði selja vöru sem ekki er sótt?

Miðvikudagur, 28. september 2016

Það er algengt að fólk fari með bilaðar eða gallaðar vörur til viðgerðar á verkstæði, til að mynda sjónvörp, síma eða önnur heimilistæki. Vörur eru þó ekki alltaf sóttar í viðgerð og þá geta viðgerðaraðilar setið uppi  með mikið af ósóttum vörum.

Viðgerðaraðilar geyma ósóttar vörur í nokkra mánuði eða ár þar til þær eru loksins sóttar, en stundum enda þeir á að selja þær til þess að mæta viðgerðarkostnaði eða einfaldlega farga þeim. Samkvæmt lögum um þjónustukaup ber seljanda þjónustu að tilkynna neytanda sérstaklega um slíkt. Samkvæmt lögunum er seljanda þjónustu aðeins heimilt að selja vöru sem ekki er sótt á kostnað neytenda ef þrír mánuðir eða meira eru liðnir frá því að vinnu við vöru var lokið. Ennfremur ber seljanda þjónustunnar að endurgreiða neytanda mismuninn ef söluverð vörunnar er hærra en kostnaður seljanda vegna viðgerðarinnar.

Ef neytandi ætlar sér að sækja hlutinn í viðgerð eftir meira en þrjá mánuði getur hann farið fram á að seljandi bæti hlutinn, hafi hann verið seldur eða honum fargað án þess að eigandanum hafi verið tilkynnt um það. Í þessu sambandi er talið nægjanlegt að upplýsingar þessar komi fram með skilmerkilegum hætti á sérstakri móttökukvittun sem æskilegt er að neytandi undirriti.