Mál 12/2015

Tag: : 

Ár álits: 

2015

Númer álits: 

12

Leigutaki tók húsnæði á leigu 30. október 2014 á grundvelli tímabundins leigusamnings en tók strax eftir vatnstjóni á veggjum sem leigusali sagði að ekki væri hægt að lagfæra fyrr en um vorið. Um veturinn lak mikið vatn inn í íbúðina þegar rigndi og tók leigutaki myndbönd af því sem hann gat notað gegn staðhæfingum leigusala um að vatnslekinn væri minniháttar. Leigutaki krafðist þess fyrir nefndinni að fá afslátt frá húsaleigu og að staðfest væri að uppsögn leigusala, sem leigusali sendi án tilgreindrar ástæðu, hefði verið ólögmæt. Leigusali taldi leigutaka vera að ýkja og jafnvel ljúga til um skemmdir á hinu leigða húsnæði í þeim eina tilgangi að lækka húsaleiguna og vildi ekki veita leigutaka neinn afslátt af leiguverði. Kærunefndin taldi í fyrsta lagi að uppsögn leigusala hefði verið ólögmæt, enda sé tímabundnum leigusamningi aðeins sagt upp á grundvelli sérstakra forsendna, atvika eða aðstæðna sem þá koma fram í samningi en engar slíkar ástæður komu fram í samningi aðila. Í öðru lagi taldi nefndin að leigutaki ætti rétt á afslætti frá leiguverði þar sem húsnæðið var augljóslega haldið ágalla og leigutaki hafði margsinnis sent leigusala kvörtun af þeim sökum. Kærunefndin taldi sig hins vegar ekki geta ákveðið afslátt, heldur þyrfti að leita til byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags sem hefur það hlutverk samkvæmt húsaleigulögum.

Mál 12/2015