Mál 13/2015

Tag: : 

Ár álits: 

2015

Númer álits: 

13

Leigutaki krafðist þess að fá bætur vegna tjóns af völdum meints athafnaleysis leigusala vegna myglusvepps og afslátt af leiguverði af sömu ástæðu. Eftir að leigutaki hafði fundið myglulykt var farið í rannsóknir á íbúðinni og kom í ljós að leki var í lögnum húsnæðisins. Leigutaki taldi sig hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna þess að hafa þurft að finna aðra íbúð og farga hluta af húsgögnum sínum. Leigusali hafnaði því að vera bótaskyldur, enda hafi hann hjálpað leigutaka að fá aðra íbúð og aðstoðað við flutning þegar leigutaki flutti úr íbúðinni. Einnig taldi leigusali ósannað að umræddur myglusveppur væri heilsuspillandi. Kærunefndin hafnaði kröfu leigutaka um skaðabætur en tók til skoðunar kröfu hans um afslátt. Þar leit kærunefndin til húsaleigulaga og þess að gert er ráð fyrir því að leigutaki sendi leigusala kvörtun og geri honum kleift að ráða bót á annmörkum áður en afsláttur kemur til greina. Fyrir lá aðeins ein kvörtun vegna leka úr lögnum og lyktar vegna hans. Þegar sú kvörtun barst leigusala brást hann við með því að finna aðra íbúð og aðstoða við flutning og taldi nefndin því að leigusali hefði ekki vanefnt samning aðila með þeim hætti að leigutaki ætti rétt á afslætti. Báðum kröfum leigutaka var því hafnað.

Mál 13/2015