Mál 21/2014

Tag: : 

Ár álits: 

2014

Númer álits: 

21

Leigjendur kröfðust þess fyrir nefndinni að fá endurgreidda leigu vegna þess tíma sem þeir bjuggu í leiguíbúð þar sem hún hefði verið heilsuspillandi. Atvik voru þau að aðilar gerðu tímabundinn samning til ellefu mánaða. Eftir um hálft ár, og eftir að leigjendur höfðu gert margvíslegar athugasemdir við ástand íbúðarinnar var þó samið um að samningnum skyldi ljúka. Leigjendur gerðu athugasemdir við silfurskottur í íbúðinni, raka á baðherbergi, myglusvepp og formaldehýðmengun í andrúmslofti. Leigusali rakti að eitrað hefði verið fyrir silfurskottum í kjölfar kvörtunar leigjenda. Þá féllst hann á að raki hefði verið til staðar og að þurft hefði að gera við vegna þess en raki á baðherbergjum hefði hins vegar ekki heilsuspillandi áhrif. Þá hefði engin mygla fundist í íbúðinni, og ekki heldur á baðherbergi, en viðgerðir hafi farið fram þar eftir að leigjendur fluttu út. Hvað varðaði formaldehýðmengun hefði hann brugðist við ábendingum leigjenda og látið fara fram mælingu á henni. Sú mæling hefði ekki leitt til óyggjandi niðurstöðu. Hins vegar hefði hann boðið leigjendunum að losna fyrr undan samningnum vegna alls þessa. Kærunefndin taldi ekki sannað að íbúðin hefði verið óíbúðarhæf á leigutímanum. Þá lægi ekkert fyrir um að ástand húsnæðisins mætti rekja til leigusala sjálfs eða að hann hefði vanrækt að upplýsa leigjendurna um ástand þess. Var kröfum leigjendanna því hafnað.

Mál 21/2014