Mál 25/2014

Tag: : 

Ár álits: 

2014

Númer álits: 

25

Aðilar voru ósammála um hversu langur uppsagnarfrestur væri á ótímabundnum leigusamningi sem þeir höfðu gert, en leigjandi þurfti að flytja út með skömmum fyrirvara. Þannig taldi leigjandinn að uppsagnarfresturinn væri einn mánuður en leigusali að hann væri sex mánuðir og því hefði leigjandinn átt að borga leigu í uppsagnarfresti. Leigusali hélt því einnig fram að leigjandinn hefði valdið skemmdum á innréttingu og gluggakistu auk þess sem þurft hefði að þrífa íbúðina. Því neitaði leigusalinn að endurgreiða tryggingarféð, að upphæð 225.000 kr. Kærunefndin taldi að um íbúð, en ekki herbergi, væri að ræða og leit í því samhengi til þess að í rýminu væri salerni og eldhús. Því væri uppsagnarfrestur leigusamningsins sex mánuðir en ekki einn eins og verið hefði væri um herbergi að ræða. Hins vegar þyrfti að líta til þess að leigusala bæri að koma íbúðinni aftur í útleigu eins fljótt og hann gæti og takmarka þannig tjón sitt, en vitað væri að mikil eftirspurn væri eftir íbúðum af þessu tagi. Engin svör höfðu borist frá leigusala varðandi það hvort nýr leigjandi væri fluttur inn og var það túlkað honum í óhag. Taldi nefndin því að leigusala væri óheimilt að halda eftir tryggingarfé vegna þessa en lögin gera ekki ráð fyrir að leigusali geti átt rétt á tvöföldum leigugreiðslum, þ.e. bæði frá nýjum leigjanda og eldri leigjanda meðan á uppsagnarfresti stendur. Hvað varðaði hinar meintu skemmdir leit nefndin til þess að engin úttekt hefði farið fram á húsnæðinu og þar sem leigjandinn féllst ekki á að hafa valdið skemmdum væri það ósannað. Var leigusala því gert að endurgreiða allt tryggingarféð ásamt verðbótum.

Mál 25/2014