Mál 29/2014

Tag: : 

Ár álits: 

2014

Númer álits: 

29

Leigjandi hélt því fram fyrir nefndinni að hann hefði ekki þurft að borga leigu þar sem leiguhúsnæði hefði verið óíbúðarhæft. Auk þess taldi hann að leigusala hefði ekki verið heimilt að rifta samningnum, en það gerði leigusali eftir að leiga hafði ekki verið greidd í þrjá mánuði. Leigjandinn hafði búið í húsnæðinu þegar leigusali keypti það á nauðungarsölu en gert nýjan samning við hann eftir kaupin. Í kjölfarið kvartaði leigjandinn út af ýmsu, eins og músagangi í húsnæðinu, biluðu hitakerfi, ónothæfri sturtu og óvirkum bakarofni, auk þess sem hitunarkostnaður væri of hár. Fyrir lá að leigusali hafði látið gera við hitakerfi og eins lækkað leiguna úr 108.000 kr. í 100.000. Kærunefndin leit til þess að leigjandinn hefði ekki sannað að húsnæðið hafi verið óíbúðarhæft, né fengið mat byggingarfulltrúa á afslætti af leiguverði, og eins þess að hann hefði vitað af ástandi þess þegar hann gerði samning við gagnaðila. Þá væri ekki annað séð en leigusali hefði brugðist við kvörtunum leigjandans. Því var kröfu leigjandans um að hann þyrfti ekki að borga leigu hafnað. Hvað varðaði riftun á samningnum leit nefndin til þess að þar sem leiga hefði ekki verið greidd í þrjá mánuði hefði leigusala verið heimilt samkvæmt lögum að rifta samningnum. Var því kröfum leigjandans hafnað.

Mál 29/2014