Mál 34/2015

Tag: : 

Ár álits: 

2015

Númer álits: 

31

Leigusali leitaði til nefndarinnar og krafðist viðurkenningar á því að honum hafi verið heimilt að halda eftir tryggingafé vegna vangoldinnar húsaleigu annars vegar og hins vegar að viðurkennt yrði að leigusamningur hans og leigjanda hafi verið framlengdur munnlega til 15. mars 2015. Skriflegur leigusamningur aðila hafði runnið út 31. desember 2014 en leigjandi greiddi húsaleigu fyrir janúar en flutti síðan út úr íbúðinni þann 6. febrúar sama ár. Leigjandi hafði fundið annan leigjanda í sinn stað en þegar á hólminn var komið vildi sá aðili ekki leigja íbúðina þar sem hann taldi hana skítuga og í slæmu ástandi. Leigusali taldi munnlegt samkomulag aðila vera bindandi fyrir þá og að samkvæmt því hafi leigjandi ætlað að leigja íbúðina til 15. mars 2015. Leigjandi neitaði því að slíkt samkomulag hafi verið gert. Af þeim sökum taldi nefndin leigusala ekki geta haldið tryggingafé vegna leigugreiðslna til þessa dags en taldi honum þó heimilt að halda eftir sem nam leigugreiðslum fyrir febrúar mánuð þar sem leigutaki hafði ekki yfirgefið íbúðina fyrr en 6. þess mánaðar og ekki skilað lyklum fyrr en 20. þess mánaðar.

Þannig var það niðurstaða kærunefndar húsamála að leigusala hafi ekki tekist að sýna fram á að samningur aðila hafi verið framlengdur til 15. mars 2015 og beri honum því að endurgreiða tryggingafé, fyrir utan það sem greiða hefði átt fyrir húsaleigu í febrúar, ásamt verðbótum.

Mál 34/2015.