Mál 45/2014

Tag: : 

Ár álits: 

2014

Númer álits: 

45

Leigjandi leitaði til nefndarinnar með kröfu um að leigusali endurgreiddi tryggingarfé og greiddi bætur vegna skerts afnotaréttar, þar sem hann hefði ekki getað nýtt sér allt húsnæðið á leigutímanum. Þannig hefði leigjandinn aldrei fengið afnot af geymslu sem fylgja átti eigninni auk þess sem baðherbergi hefði verið ónothæft og viðgerðir við það tafist. Þá taldi leigjandinn að húsnæðið hefði verið í betra ástandi þegar hann skilaði því heldur en þegar hann flutti inn. Leigusali taldi hins vegar að hann ætti rétt á að halda eftir tryggingarfénu þar til nánar kæmi í ljós hvað þyrfti að gera á umræddu baðherbergi, þannig gæti verið að leigjandinn hefði notað baðherbergið þrátt fyrir að það væri ónothæft og eins að hann hefði ekki tilkynnt um rakaskemmdir. Þá hefði ástand annars baðherbergis íbúðarinnar verið slæmt við skil hennar auk þess sem meindýr hefðu verið í íbúðinni. Geymsluna hefði svo ekki verið hægt að afhenda þar sem leigusali sjálfur hefði þurft að nýta hana vegna eigin húsnæðisvandræða. Þá taldi leigusali að leigjandinn ætti að borga leigu fyrir hálfan mánuð, en hann hefði flutt út og hætt að greiða leigu tveimur vikum fyrr en samningur aðila kvað á um. Kærunefndin hafnaði kröfu um leigu vegna þessa tíma enda þótti ljóst að aðilar hefðu samið um lok leigutímans. Þá hafnaði nefndin einnig kröfu leigjandans um bætur vegna rýma í íbúðinni sem hann hefði ekki getað nýtt, þar sem byggingarfulltrúi hefði ekki metið ástand hins leigða og afslátt vegna þess, eins og húsaleigulög gera ráð fyrir. Hvað varðaði meintar skemmdir á baðherbergi og meindýr var það mat nefndarinnar að leigusali mætti ekki halda eftir tryggingarfé vegna þess þar sem ekki hefði tekist að sanna tjónið og leigjandinn hafnaði því að hafa valdið skemmdum. Hvað varðarði rakaskemmdir á hinu baðherberginu leit nefndin jafnframt til þess að skýrsla tryggingarfélags lá fyrir vegna þeirra rakaskemmda og leigusali skyldi ætíð bera tjón sem væri bótaskylt samkvæmt húseigendatryggingu. Var leigusala því gert að skila tryggingarfénu.

Mál 45/2014