Mál 7/2015

Tag: : 

Ár álits: 

2015

Númer álits: 

07

Leigjandi leitaði til nefndarinnar og krafðist þess að leigusala yrði gert að skila tryggingarfé sem leigjandi hafði afhent í upphafi leigutíma. Um var að ræða tímabundinn leigusamning frá 1. júní 2014 til 31. maí 2015 en leigjandi flutti út með þriggja daga fyrirvara þann 28. ágúst 2014. Af þeim sökum vildi leigusali ekki skila tryggingarfénu en þó fluttu nýjir leigjendur inn í íbúðina 1. september 2014 og því tapaði leigusali engum leigutekjum vegna flutnings leigjanda. Í húsaleigusamningi var hins vegar ákvæði þar sem fram kom að tryggingarfé yrði ekki endurgreitt ef leigjandi myndi segja samningi upp á leigutímanum. Þar sem 1. mgr. 2. gr. húsaleigulaga segir að óheimilt sé að semja um að leigjandi íbúðarhúsnæðis taki á sig ríkari skyldur eða öðlist minni réttindi var umrætt ákvæði ekki talið gilda og var leigusala því gert að endurgreiða leigjanda tryggingarféð ásamt verðbótum. Leigusali taldi sig hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna þess að hann bjó erlendis og þurfi að fljúga til Íslands, en kærunefndin benti á að við þær aðstæður geri húsaleigulögin ráð fyrir því að leigusali hafi umboðsmanns hér á landi sem gæti tekið á svona vandamálum. Þeirri málsástæðu leigusala var því hafnað.

Mál 7/2015.