Mál 8/2014

Tag: : 

Ár álits: 

2014

Númer álits: 

08

Um var að ræða tímabundinn leigusamning til eins árs. Að sögn leigjanda hafði ýmislegt verið að húsnæðinu allt frá upphafi og taldi hann að ljóst væri að leigusali hefði ekki í hyggju að bæta úr ágöllum á húsnæðinu. Jafnframt hefði verið ágreiningur um skiptingu orkukostnaðar, en sonur leigusala hafi búið í annarri íbúð í húsinu. Svo fór að leigjandinn flutti út þegar um mánuður var eftir af upphaflegum leigutíma. Þegar leigusalinn féllst ekki á að leigjandinn flytti út án uppsagnar og fyrirvara sendi leigjandinn hins vegar tilkynningu um riftun. Leigusali féllst ekki á riftun og taldi sig eiga rétt á leigugreiðslum út samningstímann, auk bóta vegna skemmda sem leigjandi hefði valdið á eigninni. Kærunefndin rakti þau ákvæði húsaleigulaga sem réttlætt gætu riftun og taldi ekkert þeirra eiga við, þannig hefði leigjandi ekki kvartað með réttum hætti og krafist úrbóta, og ekkert lægi fyrir um að húsnæðið væri heilsuspillandi en leigjandi hélt því fram að í húsnæðinu væri raki og mygla. Því taldi kærunefndin að riftun leigjandans hefði verið óréttmæt og því bæri honum að greiða leigu út umsaminn leigutíma. Hvað varðaði skemmdir á húsnæðinu taldi nefndin leigjandanum ekki skylt að greiða bætur vegna þeirra, þar sem aðila greindi á um staðreyndir og ekki þótti sannað að leigjandi hefði valdið umræddum skemmdum. 

Mál 8/2014