Mál 9/2014

Tag: : 

Ár álits: 

2014

Númer álits: 

09

Um var að ræða fjögurra mánaða leigu á herbergi á gistihúsi. Leigusalar héldu því fram að þar sem um gistiheimili væri að ræða ættu húsaleigulögin ekki við en kærunefndin féllst ekki á þann skilning enda ekki um skammtímaleigu að ræða í skilningi laganna. Ágreiningur aðila sneri annars að því að leigusali hafði haldið eftir hluta tryggingarfjár þar sem leigjandinn hefði brotið húsreglur með því að leyfa vinkonu sinni að gista í herberginu í vikutíma. Var því dregið af tryggingarfénu sértakt gistigjald vegna vinkonunnar. Leigjandinn hélt því fram að hún hefði ekki vitað af umræddu banni við næturgestum í herberginu fyrr en rétt áður en von var á vinkonunni og of seint að gera aðrar ráðstafanir. Þá hefði aldrei verið minnst á sérstaka gjaldtöku vegna þess.  Jafnframt var ágreiningur um hvort leigjandinn hefð eyðilagt sængurfatnað sem fylgdi herberginu en leigjandinn hélt því fram að hún hefði keypt nýtt lak vegna þess að lakið frá leigusala hefði eyðilagst, og ekki hefðu verið gerðar athugasemdir við það við úttekt á herberginu. Kærunefndin féllst á að þar sem lokaúttekt hefði verið án athugasemda lægi ekkert fyrir um að sængurfatnað hefði vantað við skil herbergisins. Hvað varðaði gestinn í herberginu leit nefndin fyrst og fremst til þess að almennt væri ekki heimilt að skerða notkunarrétt leigjanda yfir húsnæði, auk þess sem tryggingu væri ætlað að mæta tjóni og vangoldnum leigugreiðslum. Þá væri ekki sýnt fram á að aðilar hefðu samið um bann við næturgistingu eða að leigjandi hafi verið upplýst um þá reglu eins og leigusali hélt fram. Var leigusala því gert að endurgreiða leigjandanum allt tryggingarféð.

Mál 9/2014