Mál nr. 1/2016

Þriðjudagur, 13. febrúar 2018

 

Hinn 8. september 2016 er haldinn fundur í Úrskurðarnefnd Samtaka ferðaþjónustunnar og Neytendasamtakanna.

Fyrir er tekið mál nr. 1/2016. 

X

 

gegn
 

V

og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

I.
Málsmeðferð

Málsaðilar eru X en Y fer samkvæmt umboði með fyrirsvar hans fyrir nefndinni, hér eftir nefndur sóknaraðili, og ferðaskrifstofan V, hér eftir nefnd varnaraðili.

Mál þetta barst úrskurðarnefndinni með kvörtun sóknaraðila, dags. 5. febrúar 2016. Með bréfi nefndarinnar, dags. 19. febrúar, var varnaraðila gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri sem hann gerði með tölvupósti, dags. 7. mars. Með bréfi nefndarinnar, dags. 8. mars, var leitað eftir afstöðu sóknaraðila til framkominna athugasemda varnaraðila og var hún kunngerð með tölvupósti, dags. 22. mars. Þann 22. mars 2016 var varnaraðila gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum sem hann og gerði með tölvupósti, dags. 11. apríl 2016. Þá var sóknaraðila gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum og bárust þær nefndinni með tölvupósti, dags. 25. apríl. Þann 26. apríl var afstaða varnaraðila til framkominna gagna og athugsemda sóknaraðila könnuð frekar, afstaða varnaraðila barst nefndinni með tölvupósti, dags. 3. maí 2016. Sóknaraðila var þann 4. maí gefið færi á að koma að frekari athugasemdum. Þær athugasemdir bárust nefndinni, dags. 12. maí. Mál þetta var tekið til meðferðar og úrskurðar á fundi nefndarinnar hinn 8. september 2016.

 

II.
Málavextir

Sóknaraðili gerði samning við varnaraðila um kaup á alferð til Belfry á Englandi. Um var að ræða ferð með yfirskriftinni „Golf í Belfry 2015...“ sem fólst m.a. í flugi til Birmingham þann 30. apríl, flugi til Keflavíkur hinn 4. maí, gistingu í fjórar nætur, þremur morgunverðum ásamt sjö golfhringjum. Sóknaraðili greiddi fyrir sinn hlut í ferðinni 164.900 kr. Varnaraðili tilkynnti sóknaraðila með tölvupósti, dags. 28 apríl 2016, um rúmlega átta klukkutíma seinkun á brottfarartíma á fluginu til Birmingham. Sóknaraðili ákvað þá að fara ekki í umrædda ferð og taldi að um verulega breytingu á ferðinni hafi verið að ræða sem réttlætti endurgreiðslu á ferðinni eða skapaði rétt til að fá aðra sambærilega ferð og upphaflegur samningur hafi kveðið á um.

Aðila greinir á um hvort um verulega breytingu á alferð hafi verið að ræða sem réttlætti riftun sóknaraðila á ferðinni og hvort varnaraðila beri að greiða skaðabætur í samræmi við Evrópureglugerð nr. 261/2004 um réttindi flugfarþega.

 

III.
Málsástæður sóknaraðila og kröfugerð

Samkvæmt sóknaraðila gerði hann samkomulag við varnaraðila um kaup á alferð til Belfry á Englandi í janúar 2015. Sóknaraðili vísar máli sínu til stuðnings til staðfestingarskjals ferðarinnar, sem hann fékk frá varnaraðila,  þar sem fram kemur að í alferðinni fólst flug frá Keflavík til Birmingham þann 30. apríl 2015 og flugi til baka þann 4. maí 2015. Í staðfestingarskjalinu kemur einnig fram að gist yrði í fjórar nætur á The Belfy Hotel & Resort, miðað við tveggja manna herbergi, ásamt morgunverði og þremur kvöldverðum. Þá tók alferðin einnig til gjalds á golfvelli í Belfry að andvirði sjö golfhringja. Verð ferðarinnar fyrir tvo farþega var 329.800 kr., en sóknaraðili greiddi fyrir sinn hluta 164.900 kr. Í tölvupósti frá varnaraðila, dags. 1. apríl 2015, kom fram staðfesting á tilhögun á flugi í alferðinni, en þar kom fram að brottfarartími frá Keflavík þann 30. apríl 2015 yrði klukkan 07:50 og komutími í Birmingham yrði klukkan 11:25. Í tölvupósti frá varnaraðila, dags. 27. apríl, kom fram nánari staðfesting á tilhögun ferðarinnar, en þar kom meðal annars fram að sóknaraðili ætti bókaðan rástíma á golfvelli þann 30. apríl klukkan 14:00-14:20. Með tölvupósti varnaraðila, dags. 28 apríl 2015, var sóknaraðila tilkynnt um seinkun á fluginu til Birmingham þann 30. apríl, frá klukkan 07:50 til klukkan 16:00 þann sama dag (rúmlega átta klukkutíma seinkun). Varnaraðili tilkynnti sóknaraðila jafnframt að fyrrgreindur rástími þann 30. apríl yrði færður til morguns brottfarardags, þann 4. maí 2015. Sóknaraðili mótmælti með tölvupósti til varnaraðila, dags. 29. apríl 2015, og lagði fram þá kröfu að honum yrði boðin ný ferð í samræmi við upphaflegan samning eða endurgreiðslu ferðarinnar. Þeim kröfum hafnaði varnaraðili.

Sóknaraðili byggir málatilbúnað sinn á því að samningur hans um framangreinda ferð til Belfry, dagana 30. apríl 2015 til 4. maí 2015, hafi verið samningur við varnaraðila um kaup á alferð í skilningi laga nr. 80/1994. Sóknaraðili segir það ágreiningslaust á milli aðila að varnaraðili gerði einhliða breytingar á alferðinni með tilkynningu til sóknaraðila í tölvupósti, dags. 28. apríl 2015, þar sem boðað var að brottför frá Keflavíkurflugvelli, sem átti að vera klukkan 07:50 þann 30. apríl 2015 myndi tefjast um átta klukkustundir og tíu mínútur.

Sóknaraðili byggir málatilbúnað sinn á að áðurnefndar breytingar af hálfu varnaraðila teljist verulegar í skilningi 8. gr. laga um alferðir nr. 80/1994. Sóknaraðili hafi keypt alferð af varnaraðila sem hefjast átti með brottför frá Keflavíkurflugvelli klukkan 07:50 þann 30. apríl 2015 og ljúka klukkan 15:10, þann 4. maí, með heimkomu á Keflavíkurflugvelli. Sóknaraðili hafi greitt fyrir aðstöðu til golfiðkunar samkvæmt fyrirframákveðnu tímaplani. Sóknaraðili er tannlæknir og hafði ekki skráð sjúklinga á stofu sína á því tímabili sem ferðin átti að standa. Þá hafði sóknaraðili gert ráðstafanir til þess að gera fleira í hinni stuttu alferð en spila golf, svo sem líta á fótboltaleik og versla. Við þær breytingar sem varnaraðili gerði á alferðinni þá hafi forsendur hennar brostið. Sóknaraðili telur að seinkun um rúmar átta klukkustundir á fjögurra nátta fyrirhugaðri alferð hljóti að teljast veruleg breyting. Við seinkunina varð ekkert af golfiðkun fyrsta daginn, en hún færð til snemma morguns á brottfarardegi, en þann morgun hafi sóknaraðili ráðgert að nýta með allt öðrum hætti.

Sóknaraðili telur að sé um verulega breytingu á alferð að ræða beri farkaupa að tilkynna ferðaheildsala eða smásala eins fljótt og unnt er hvort hann óski eftir að rifta samningnum eða gera viðbótasamning er tilgreini þær breytingar sem gerðar eru á upphaflega samningnum og áhrif þeirra á verð og önnur kjör. Sóknaraðili telur varnaraðila ekki hafa sinnt þeirri skyldu. Sóknaraðili telur sig hafa rift umræddum alferðarsamningi við varnaraðila með lögmætum hætti og að varnaraðila beri því að endurgreiða sóknaraðila þá fjármuni sem hann innti af hendi vegna alferðarinnar, sbr. 10. gr. laga um alferðir nr. 80/1994. Sóknaraðili fer fram á að varnaraðili greiði sér 164.900 kr., ásamt dráttarvöxtum frá 30. maí 2015. Sóknaraðili fer jafnframt fram á skaðabætur samkvæmt 10. gr. laga um alferðir vegna hinna verulegu breytinga á ferðatilhögun í hinni keyptu ferð, en sóknaraðili varð fyrir tekjumissi, sem hann hefði getað forðast ef hann hefði vitað um seinkun og breytingu á alferð, í tíma. Sóknaraðili metur heildartekjutap sitt allt að 200.000 kr. Vegna brota varnaraðila á tilkynningarskyldu skv. lögum um alferðir og reglugerðar nr. 1048/2012, samanber Evrópureglugerð nr. 261/2004, hefur sóknaraðili þurft að leita réttar síns og orðið fyrir kostnaði vegna lögfræðilegrar ráðgjafar sem nemur nú 100.000 kr. Sóknaraðili fer fram á skaðabætur úr hendi varnaraðila vegna þessa að fjárhæð 300.000 kr., eða lægri að álitum nefndar, ásamt dráttarvöxtum frá 7. desember 2015 til greiðsludags.

Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðili hafi stöðu flugrekanda gagnvart honum, enda var beint samningssamband milli aðila og það er og var á ábyrgð varnaraðila að uppfylla samningsskyldur sínar gagnvart sóknaraðila. Sóknaraðili vísar máli sínu til stuðnings í fyrri úrskurði úrskurðarnefndar þar sem litið var svo á að ferðaskrifstofur sem flug var keypt af hefðu stöðu flugrekanda í skilningi laga og reglugerða, enda flug keypt beint af ferðaskrifstofunni en ekki af þriðja aðila. Sóknaraðili vísar einnig til 12. gr. laga um alferðir sem kveður á um að ferðaheildsali og ferðasmásali beri sameiginlega og hvor í sínu lagi ábyrgð gagnvart farkaupa á því að staðið sé við framkvæmd alferðarsamnings, hvort sem framkvæmdin sé í höndum þeirra sjálfra eða annarra þjónustuaðila.

Til vara gerir sóknaraðili þá kröfu að ef niðurstaða nefndarinnar er að breyting varnaraðila á alferðinni teljist ekki veruleg í skilningi 8. gr. laga um alferðir, þá beri varnaraðili að greiða sóknaraðila bætur. Varnaraðili hefur að sögn sóknaraðila viðurkennt með tölvupósti, dags. 13. maí 2015, að sóknaraðila beri bætur samkvæmt c- lið 1. mgr. 5. gr, sbr. b- lið 1. mgr. 7. gr. Evrópureglugerðar nr. 261/2004. Varnaraðili hefur þannig viðurkennt að honum beri að greiða sóknaraðila 400 evrur í bætur.

Jafnframt telur sóknaraðili sig eiga rétt á frekari bótum, en ekki verður litið framhjá þeirri meginreglu sem á við um hvers kyns viðskiptasambönd, að samninga ber að halda. Þegar ekki er unnt að standa við gerða samninga skapast jafnan réttur gagnaðila til beitingar vanefndaúrræða. Það er því meginregla við hvers kyns vöru- og þjónustukaup að sé umsömdu andlagi viðskipta á einhvern hátt ábótavant, og ekki unnt að bæta úr, skapast meðal annars réttur til afsláttar. Með vísan til 30. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, 31. gr. laga nr. 4/2003 um neytendakaup og 13. gr laga nr. 42/2000 um þjónustukaup gerir sóknaraðili þá varakröfu á hendur varnaraðila að úrskurðað verði að varnaraðila beri að veita honum 150.000 kr. afslátt af kaupverði alferðar, eða lægri afslátt að mati úrskurðarnefndarinnar. Höfuðstóll varakröfu sóknaraðila er 206.648 kr. auk dráttarvaxta frá 9. desember 2015.

 

IV.
Málsástæður varnaraðila og kröfugerð

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði vísað frá nefndinni. Til vara er þess krafist að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Til þrautavara er þess krafist að kröfur sóknaraðila verði lækkaðar verulega.

Varnaraðili tekur fram að hann reki ferðaskrifstofu sem hefur með höndum sölu pakkaferða frá Íslandi til erlendra áfangastaða. Varnaraðili eigi engar flugvélar og gerir því samning við flugrekendur um kaup á flugsætum fyrir þær skipulögðu pakkaferðir sem félagið hefur í sölu. Tímasetningar í pakkaferðum á vegum varnaraðila velta því alfarið á endanlegum brottfarar- og lendingartímum þeirra flugfélaga sem sjá um flughluta ferðarinnar. Fram kemur í ferðaskilmálum varnaraðila að brottfarar- og flugtímar séu áætlaðir og háðir breytingum vegna veðurs og tæknilegra orsaka. Sóknaraðili hafi keypt alferð til Belfry á Englandi dagana 30. apríl til 4. maí 2015. Samkvæmt ferðatilhögun skyldi flogið til Birmingham og áætlaðir voru sjö golfhringir á þeim fjórum dögum sem ferðin stæði yfir. Ferðinni var lýst á eftirfarandi hátt í bókunarstaðfestingu sem send var til sóknaraðila. „Golf í Belfry 2015 – 4 nætur m/morgunv., 3 kvöldv. og 7 golfhringir“. Þar hafi komið skýrt fram hverjar væru helstu skyldur varnaraðila gagnvart sóknaraðila vegna alferðarinnar, þ.e. að tryggja að sóknaraðili fengi þrjá kvöldverði, fjóra morgunverði og gæti spilað sjö golfhringi í ferðinni. Jafnframt komi fram að sóknaraðili myndi gista á tilteknu hóteli. Þegar varnaraðili fékk tilkynningu um seinkun frá flugfélaginu hafi hann látið sóknaraðila strax vita og framkvæmdi ráðstafanir til að tryggja að seinkunin hefði sem minnst áhrif á þá þjónustu sem innifalin var í pakkaferðinni. Tryggt var að sóknaraðili gæti þrátt fyrir seinkunina spilað sjö golfhringi og borðað þrjá kvöldverði í ferðinni líkt og áætlað hafði verið og tilkynnt var með tölvupósti hinn 29. apríl 2015. Varnaraðili telur að því fari fjarri að um verulegar breytingu á ferðinni hafi verið að ræða. Það hafi komið skýrt fram í tölvupósti frá varnaraðila til sóknaraðila að ekki væri um verulega breytingu að ræða og þar með stóð ekki til boða að rifta ferðasamningi eða breyta ferðinni. Sóknaraðili hafi þrátt fyrir þetta ekki mætt í ferðina, en varnaraðili hafi þá setið uppi með óafturkræfan kostnað gagnvart birgjum sínum. Varnaraðili hafnar því að endurgreiða sóknaraðila þá fjárhæð sem hann greiddi fyrir ferðina, enda hefði það leitt til töluverðs tjóns fyrir varnaraðila. Þá hafi varnaraðili strax gert tilraunir til þess að koma til móts við kvartanda og honum boðnar 400 evrur í afslátt þrátt fyrir að hann hafi ekki átt rétt til skaðabóta á grundvelli Evrópureglugerðar nr. 261/2004. Sóknaraðili hafi hafnað boði varnaraðila.

Varnaraðili gerir ýmsar athugasemdir við málatilbúnað sóknaraðila og telur hann svo óljósan og óskýrann að erfitt sé fyrir varnaraðila að haga vörnum sínum í máli þessu með fullnægjandi hætti. Þá telur varnaraðili að vísa beri frá öllum vaxtakröfum sóknaraðila enda hafi úrskurðarnefndin ekki heimild til að gera aðilum að greiða dráttarvexti, ásamt því að það sé hvergi rökstutt hvers vegna varnaraðili skuli greiða dráttarvexti og hvers vegna kröfurnar séu miðaðar við þær dagsetningar sem fram koma í kröfugerð sóknaraðila. Varnaraðili telur að úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að mæla fyrir um bætur vegna afleidds tjóns á borð við tekjumissi sóknaraðila. Þá sé hvergi rökstutt með gögnum að sóknaraðili hafi orðið fyrir raunverulegum tekjumissi né umfjöllun um bótagrundvöll fyrir þessari skaðabótakröfu. Einnig er varakrafa sóknaraðila um afslátt hærri en sú fjárhæð sem hann greiddi fyrir alferðina og með öllu órökstudd. Ekki sé rökstutt hvers vegna skaðabætur samkvæmt Evrópureglugerð 261/2004 skuli koma til viðbótar afsláttarkröfu sóknaraðila. Skaðabætur samkvæmt téðri reglugerð séu ætlaðar flugfarþegum sem verða fyrri töfum, en sóknaraðili hafi ekki mætt í það flug sem hann hafði bókað og getur þá þegar ekki átt rétt á bótum samkvæmt reglugerðinni.

Jafnframt telur varnaraðili kröfu sóknaraðila til úrskurðarnefndarinnar allt of seint fram komna og sóknaraðili hafi á þeim grundvelli glatað rétti sínum til skaðabóta vegna tómlætis.

Varnaraðili mótmælir öllum aðalkröfum og málsástæðum sóknaraðila og telur að hafna beri öllum kröfum sóknaraðila á þeim grundvelli að ekki hafi verið um verulega breytingu á alferð sóknaraðila að ræða í skilningi 1. mgr. 8. gr. laga um alferðir. Varnaraðili hafi látið vita af breytingu á flugi eins fljótt og auðið var og hafi því uppfyllt skyldur sínar um að tilkynna farkaupa sem fljótt sem unnt var um breytingarnar. Þrátt fyrir átta klukkutíma seinkun hugðist varnaraðili standa við allar sínar skuldbindingar er vörðuðu ferðina, þ.á.m. hvað varðar fjölda golfhringja og kvöldverða. Til stuðnings því að ekki var um verulega breytingu á ferðinni að ræða þá hafi aðrir farþegar, sem fóru í ferðina þrátt fyrir seinkun brottfarar, lýst yfir ánægju sinni. Alferð sóknaraðila hafi verið auglýst sem golfferð og snerist því fyrst og fremst um að spila golf á þeim stutta tíma sem ferðin var áætluð, eða um sjö golfhringi á fjórum dögum. Þrátt fyrir að farþegar séu ekki til neyddir til að taka þátt í áætlaðri golfiðkun er ferðin keypt undir því yfirskini að fátt komist að annað en golfiðkun. Þar sem varnaraðili hafði tryggt að öll áætluð golfiðkun færi fram í ferðinni þrátt fyrir seinkun verði að telja að sú alferð sem pöntuð var hafi ekki tekið meginbreytingum. Þá liggi fyrir skýr fordæmi hjá úrskurðarnefndinni að átta klukkustunda seinkun alferðar teljist ekki verulega breyting á ferð. Það liggi fyrir í gögnum máls að varnaraðili hugðist ekki að nokkru leyti skerða þá þjónustu sem fram kom í alferðarsamningi vegna seinkunarinnar. Þá þegar kemur ekki til greina að líta svo á að um verulega breytingu á alferð sóknaraðila hafi verið að ræða og þar með getur hann ekki átt rétt á endurgreiðslu. Þá er því mótmælt að sóknaraðili eigi rétt á bótum á grundvelli 10. gr. laga um alferðir, enda var ekki um verulega breytingu á alferð að ræða. Því er jafnframt mótmælt að sóknaraðili kunni að eiga rétt til bóta vegna missis hagnaðar af atvinnustarfsemi, en sóknaraðili gerir kröfuna fyrir sína hönd en ekki fyrir hönd þess fyrirtækis sem heldur utan um rekstur tannlæknastofu hans. Er þá þegar um aðildarskort að ræða, en fjárhæð kröfunnar er einnig órökstudd og styðst ekki við nein gögn. Varnaraðili mótmælir jafnframt kröfu sóknaraðila um greiðslu lögmannskostnaðar, en samkvæmt 1. mgr. 9. gr. samþykkta úrskurðarnefndarinnar skal hvor aðili fyrir sig greiða þann kostnað sem hann hlýtur af málarekstri fyrir nefndinni. Varnaraðili hafnar staðhæfingu sóknaraðila þess efnis að varnaraðili hafi stöðu flugrekanda gagnvart sóknaraðila. Varnaraðili bendir á í tölvupósti, dags. 13. maí 2015, að hann sé ekki flugrekandi og seinkunin væri því ekki hans sök. Aftur á móti kom hvergi fram að ekki hefði verið staðið við skuldbindingar gagnvart kvartanda á grundvelli Evrópureglugerðar nr. 261/2004, hefði sóknaraðili mætt í flug sitt þann 30. apríl 2015. Hefði sóknaraðili mætt í flugið þá hefði varnaraðili hjálpað til við að sækja slíkar bætur til þess flugrekanda sem sá um flughluta ferðarinnar.

Varnaraðili mótmælir varakröfu sóknaraðila þess efnis að hann eigi rétt til afsláttar vegna breytinga á alferð og vísar máli sínu til stuðnings til sambærilegra mála. Í sambærilegum málum hafi skaðabætur takmarkast við endurgreiðslu á þjónustu sem átti að vera innifalin í ferðinni en farþegar gátu ekki notið vegna seinkana en svo var ekki í tilviki sóknaraðila. Þvert á móti stóð öll áætluð þjónusta til boða, þ.e. sjö golfhringir, þrír kvöldverðir og fjórir morgunverðir ásamt gistingu á umsömdu hóteli. Jafnframt vísar varnaraðili í skilmála sína þar sem fram kom að flugtímar eru áætlaðir og háðir breytingum vegna veðurs og tæknilegra orsaka. Seinkun flugs sóknaraðila má rekja til bilunar sem kom upp í reglubundinni flugvélaskoðun og var því um seinkun af tæknilegum ástæðum að ræða. Varnaraðili mótmælir að hann hafi viðurkennt að sóknaraðili eigi rétt á bótum samkvæmt Evrópureglugerð 261/2004. Ekki hafi verið um viðurkenningu á rétti til bóta að ræða heldur hafi boð varnaraðila byggst á vilja hans til að ná sátt í málinu. Varnaraðili telur skilyrði til bóta samkvæmt ofangreindri Evrópureglugerð ekki uppfyllt þar sem sóknaraðili mætti ekki til innritunar í bókað flug sitt. Í ljósi ofangreinds telur varnaraðili að hafna beri varakröfu sóknaraðila. Verði ekki fallist á að vísa máli sóknaraðila frá eða hafna kröfum hans telur varnaraðili að lækka beri kröfur sóknaraðila verulega.

 

V.
Álit

Um viðskipti aðila gilda lög um alferðir nr. 80/1994. Um flug sem er hluti alferðar gildir jafnframt reglugerð nr. 1048/2012 (áður 574/2005) um gildistöku reglugerðar EB nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður (hér eftir nefnd reglugerðin), sbr. 5. tl. inngangsorða reglugerðar EB nr. 261/2004.

Ekki er fallist á með varnaraðila að kvörtun sóknaraðila fyrir nefndinni sé of seint fram komin. Samkvæmt 3. gr. samþykkta úrskurðarnefndarinnar er mál aðeins tekið til meðferðar af nefndinni ef kærandi hafi áður reynt að ná fram rétti sínum gagnvart viðkomandi fyrirtæki skriflega eins fljótt og unnt er. Samkvæmt gögnum máls er ljóst að sóknaraðili bar fram kvörtun sína innan eðlilegra tímamarka. Jafnframt er ekki unnt að sjá annað en að kröfur sóknaraðila í þessu máli séu ófyrndar.

Í lögum um alferðir kemur fram í 1. mgr. 8. gr. svohljóðandi ákvæði:

„Geri ferðaheildsali breytingar á alferð áður en hún hefst ber honum að tilkynna það farkaupa svo fljótt sem unnt er. Sé um verulega breytingu að ræða ber farkaupa að tilkynna ferðaheildsala eða smásala eins fljótt og unnt er hvort hann óski eftir að rifta samningnum eða gera viðbótarsamning er tilgreini þær breytingar sem gerðar eru á upphaflega samningnum og áhrif þeirra á verð og önnur kjör.“

Samkvæmt varnaraðila var sóknaraðila tilkynnt um breytingu á alferð strax og varnaraðila barst tilkynning þess efnis frá flugfélaginu. Nefndin hefur ekki forsendur til annars en að telja að varnaraðili hafi tilkynnt sóknaraðila um breytingu á alferð í samræmi við áskilnað 1. mgr. 8. gr. Verður þá að líta til 2. mgr. sömu greinar þar sem fram kemur að ef um verulega breytingu er að ræða þá beri farkaupa að tilkynna ferðaheildsala eða smásala eins fljótt og unnt er hvort hann óski eftir að rifta samningnum eða gera viðbótarsamning er tilgreini þær breytingar sem gerðar eru á upphaflega samningnum og áhrif þeirra á verð og önnur kjör. Ljóst er að sóknaraðili taldi að breyting á umræddri ferð væri veruleg og samkvæmt gögnum máls óskaði hann eftir því við varnaraðila að fá endurgreiðslu eða aðra sambærilega ferð miðað við upphaflega ferðaáætlun. Samkvæmt framkomnum gögnum var umrædd alferð auglýst sem golfferð með gistingu og fæði. Við mat á því hvort breyting á alferð teljist veruleg verður að meta hvert mál fyrir sig með heildstæðum hætti og verður í því skyni meðal annars að líta til þess hvers eðlis ferðin er, hversu lengi hún átti að vara og hvaða áhrif breyting hefur á samning aðila. Ljóst er að umrædd alferð var auglýst sem golfferð og samkvæmt varnaraðila sneri hún fyrst og fremst að því að spila golf á þeim stutta tíma sem ferðin var áætluð. Líkt og varnaraðili hefur rakið fyrir nefndinni þá hefði umrædd seinkun ekki haft þær afleiðingar að farkaupar yrðu af fyrirhuguðum golfhringjum, inniföldu fæði eða gistinóttum. Með hliðsjón af eðli ferðarinnar og úrbótum varnaraðila sem tryggðu að öll áætluð golfiðkun hefði farið fram í ferðinni þrátt fyrir seinkun verður ekki talið að breytingin á ferðinni hafi verið svo veruleg að réttlætt gæti riftun. Er það því álit nefndarinnar að sóknaraðili hafi, þrátt fyrir breytingu á brottfarartíma, verið bundinn af samningi aðila. Óhjákvæmilegt er þó að líta til þess að í 1. mgr. 8. gr. er gert ráð fyrir að breytingar á alferðarsamningi geti haft í för með sér breytingar á verði og öðrum kjörum. Að mati nefndarinnar ber að túlka lagagreinina á þann veg að ef ferðasali geri breytingar á alferð þá komi til skoðunar t.a.m. afsláttur eða verðlækkun í samræmi við almennar reglur kaupalaga ef hinn nýi samningur felur í sér minni þjónustu en upphaflegur samningur aðila.

Svo virðist sem ekki komi fram neinar reglur í lögum um alferðir varðandi það hvernig skuli með fara þegar í ljós kemur, áður en ferð hefst, að hún verði ekki í samræmi við samning aðila. Þegar lögum um alferðir sleppir er þó ekki svo að ólögákveðin tilvik sem upp kunna að koma við kaup og framkvæmd á alferðum séu í lagalegu tómarúmi, heldur gilda um slík tilvik meginreglur samninga-, kröfu- og kauparéttar. Um samninga um alferð er heimilt, innan ramma laga og af því gefnu að það teljist ekki ósanngjarnt, að setja sérstaka skilmála er gildi um viðskiptin. Í skilmálum varnaraðila kemur fram að hann beri enga ábyrgð á ófyrirsjáanlegum aðstæðum, sem ferðaskrifstofan fær engu um ráðið og hefði ekki getað komið í veg fyrir afleiðingar þeirra. Í slíkum tilvikum er ferðaskrifstofu heimilt að breyta eða aflýsa ferðinni með öllu enda verði farþegum tilkynnt þar um tafarlaust. Ljóst er af ofangreindum skilmálum að varnaraðila var heimilt samkvæmt samningi aðila að breyta tímasetningum þeim sem gefnar voru upp við kaup sóknaraðila á ferðinni. Í skilmála er þó ekki tekið á því hvort réttur til bóta eða afsláttar stofnist vegna slíkra breytinga. Því verður ekki litið framhjá þeirri meginreglu sem gildir um hvers kyns viðskiptasambönd að samninga ber að halda. Þegar ekki er unnt að standa við gerða samninga skapast réttur til handa gagnaðila til beitingar vanefndaúrræða. Það er því meginregla við hvers kyns vöru- og þjónustukaup að sé umsömdu andlagi viðskiptanna á einhvern hátt ábótavant og ekki unnt að bæta úr getur m.a. skapast réttur til afsláttar. Þessa reglu má víða finna í settum lögum, meðal annars í 30. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, í 31. gr. laga nr. 48/2003 um neytendakaup og 13. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Óháð því að réttur til afsláttar verði ekki byggður á ákvæðum laga um alferðir verður þó að telja það ótæka niðurstöðu ef farkaupar þurfa að sæta skerðingu á veittri þjónustu, þeim algjörlega að bótalausu, séu atvik með þeim hætti að ekki sé um verulega breytingu að ræða samkvæmt 8. gr. laga um alferðir.

Ef fallist væri á slíka niðurstöðu þá hefðu ferðaskrifstofur frjálst val um að breyta ferðum sínum, á borð við ferðatilhögun, hótelaðstöðu o.s.frv., að því gefnu að ekki sé um verulegar breytingar að ræða, en ljóst er að mikið þurfi að koma til svo að breyting teljist veruleg og farkaupi þyrfti þá að sæta slíkri breytingu án afsláttar. Ljóst er að í máli þessu var gerð breyting á alferð með þeim hætti að ferð sóknaraðili hefði átt að hefjast rúmlega átta klukkutímum seinna en upphaflega var áætlað. Samkvæmt svörum varnaraðila hefði sóknaraðili þó ekki orðið af neinni þjónustu þar sem tryggt var að þeir þættir ferðarinnar héldust þrátt fyrir seinkun á brottfarartíma. Að mati nefndarinnar er rétt að sóknaraðili fá nokkurn afslátt á ferðinni og ber að meta hann að álitum. Við það mat er meðal annars litið til þess að varnaraðili tryggði að meginhlutar ferðarinnar hefðu haldist, svo sem fjöldi golfhringja, máltíðir og gistinætur. Ekki er þó hægt að líta framhjá þeirri skerðingu sem leiddi af átta klukkustunda seinkun á brottfarartíma og áhrifum þeirrar seinkunar á umrædda alferð.

Samkvæmt öllu framansögðu er það álit nefndarinnar að varnaraðila beri að greiða sóknaraðila 15.000 kr. vegna viðskipta hans við varnaraðila. Við mat á afslætti er fyrst og fremst litið til áhrifa framangreindrar seinkunar á brottfarartíma frá Keflavík og áhrif hennar á fyrrgreinda alferð sóknaraðila. Að mati nefndarinnar sætir það furðu að sóknaraðili hafi ákveðið einhliða án samþykkis varnaraðila að mæta ekki í umrædda alferð þrátt fyrir breytingu á brottfarartíma, enda var breytingin ekki slík að augljóst væri að hún væri veruleg að mati nefndarinnar.

Sóknaraðili gerir einnig kröfu um greiðslu bóta að upphæð 400 evra frá varnaraðila með vísan til ákvæða Evrópureglugerðar nr. 261/2004 um réttindi flugfarþega. Í reglugerðinni er m.a. kveðið á um staðlaðar skaðabætur sem farþegar geta átt rétt á samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar. Í reglugerðinni er kveðið á um að skyldur hvíli á flugrekanda viðkomandi flugs (e. operating air carrier). Hugtakið er nánar skilgreint í b- lið 2. gr. reglugerðarinnar þar sem fram kemur að með flugrekanda viðkomandi flugs sé átt við flugrekanda sem mun eða áætlað sé að sjái um flugið. Óumdeilt er í þessu máli að flugi sóknaraðila var seinkað um rúmlega átta klukkustundir. Hins vegar er varnaraðili ferðaskrifstofa en ekki flugrekandi í skilningi reglugerðarinnar. Með hliðsjón af orðalagi reglugerðarinnar verður að telja að sóknaraðili beini kröfum sínum að röngum aðila. Samkvæmt ofangreindu ber því að vísa kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila um greiðslu bóta með tilvísan til reglugerðarinnar frá nefndinni.  

 

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist nokkuð vegna anna nefndarmanna og er beðist velvirðingar á því.

 

 

Úrskurðarorð

Varnaraðili, V, greiði sóknaraðila, X, kr. 15.000 vegna umþrættrar alferðar. Öðrum umkvörtunum sóknaraðila er vísað frá.

 

Helena Þuríður Karlsdóttir, formaður
Helga Árnadóttir
Hrannar Már Gunnarsson