Mál nr. A-152/2007

Efni dóms: 

Leigusali krafðist þess að leigjandi yrði borinn út úr leiguhúsnæði vegna vangoldinnar leigu. Þegar leigjandinn stóð ekki við greiðslu á leigu sendi leigusalinn honum greiðsluáskorun. Var hún send  bæði með  almennum pósti og í ábyrgðarbréfi þann 17. september 2007. Í greiðsluáskoruninni kom fram að leigusamningum yrði rift ef skuldin yrði ekki greidd innan sjö sólarhringa.  Í riftunarbréfinu, sem sent var í kjölfar áskorunarinnar bæði í almennum pósti og í ábyrgðarpósti á heimili leigjandans hinn 29. september var skorað á leigjanda að rýma húsnæðið þegar í stað og eigi síðar en á hádegi 3. október ella yrði krafist útburðar fyrir dómi. Leigjandinn varð ekki heldur við þeirri áskorun og höfðaði því leigusalinn útburðarmál á hendur honum. Fyrir dómi hélt leigjandinn því fram að hann hefði verið í skilum með leiguna þegar málið var tekið fyrir og lagði hann fram nokkra reikninga því til sönnunar. Þar kom hins vegar fram að leigjandinn hafði greitt eftir að sjö daga fresturinn samkvæmt greiðsluáskoruninni var liðinn og riftun hafði farið fram. Var því ekki fallist á að leigjandinn hefði staðið í skilum með greiðslu leigunnar og tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 61. gr. húsaleigulaga leiðir greiðsla á vanskilum eftir að frestur samkvæmt greiðsluáskorun er liðinn ekki til þess að riftunarréttur falli niður. Enn síður gæti greiðsla eftir að riftun hefði verið lýst yfir leitt til brottfalls riftunarréttarins. Leigusalanum var því talið heimilt að rifta samningnum með vísan til 1. tl. 61. gr. húsaleigulaga. Þá hélt leigjandinn því einnig fram að honum hefði hvorki borist umrædd greiðsluáskorun né riftunaryfirlýsing frá leigusala. Var vísað til þess að í 13. gr. húsaleigulaga er kveðið á um að ef aðili að leigusamningi þarf að koma á framfæri við gagnaðila skriflegri orðsendingu, þá skuli hún send af stað með sannanlegum og tryggilegum hætti og innan þeirra tímamarka eða fresta sem mælt er fyrir um ef því er að skipta. Sé þess gætt þá hefur orðsending þá þýðingu og réttaráhrif sem henni er ætlað að hafa. Áhættan af sendingunni eftir að hún er forsvaranlega af stað send hvíli því á móttakandanum en ekki sendandanum. Með vísan til þess að bréfin voru móttekin af Íslandspósti 17. og 29. september 2007 var talið sannað að leigusalinn hefði sent leigjanda greiðsluáskorun og yfirlýsingu um riftun innan þess tíma sem lögin kveða á um. Var útburðurinn því heimilaður.

Ú R S K U R Ð U R Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. A-152/2007

Númer dóms: 

A-152

Ártal dóms: 

2007