Mál nr. A-2/2008

Efni dóms: 

Aðilar gerðu með sér ótímabundinn leigusamning þann 20. september 2007. Hinn 22. nóvember  sendi leigusalinn leigjandanum bréf vegna kvartana frá nágrönnum undan hávaða. Í bréfinu kom fram að ef ekki yrði bætt úr ástandinu yrði leigusamningnum sagt upp. Hinn 10. apríl 2008 barst lögreglunni svo tilkynning frá nágrönnum vegna hávaða úr leiguhúsnæðinu. Þegar lögreglan mætti á svæðið hafi leigjandinn hins vegar neitað að lækka tónlistina og einnig neitað að hleypa lögreglunni inn. Vegna ítrekaðra kvartana frá nágrönnum rifti leigusalinn leigusamningnum þann 14. apríl 2008. Í riftunarbréfinu kom fram að leigjandinn ætti að rýma íbúðina ekki síðar en 28. apríl. Í kjölfar athugasemda leigjandans við riftunarbréfið var honum hins vegar gefinn viðbótarfrestur til 1. maí. Þar sem leigjandinn fór ekki úr húsnæðinu að þeim tíma liðnum krafðist leigusali útburðar á leigjandanum. Fyrir dómi hélt leigjandinn því fram að leigusali gæti ekki rift leigusamningnum á grundvelli þess bréfs sem hann sendi leigjandanum þann 22. nóvember. Bréfið hefði verið almennt orðað og í því kæmu ekki fram neinar skýringar á því ónæði sem aðrir íbúar hússins teldu sig hafa orðið fyrir. Þá hefði ekki verið vísað til þess að til riftunar gæti komið vegna vanefnda, heldur einungis að leigusamningnum kynni að verða sagt upp. Þá vísaði leigjandinn einnig til þess að meira en tveir mánuðir voru liðnir frá því að hann fékk bréfið sent og þar til riftun fór fram. Í niðurstöðu málsins var fallist á röksemdir leigjandans enda hefði leigusali aðeins sent eina áminningu þar sem ekki hefði verið minnst á mögulega riftun samningsins. Þótti leigusalinn því ekki hafa sannað nægjanlega að hann hefði öðlast rétt til riftunar og var kröfum hans um útburð því hafnað.

ÚRSKURÐUR Héraðsdómur Vestfjarða í máli nr. A-2/2008

Númer dóms: 

A-2

Ártal dóms: 

2008