Mál nr. 2/2016

Þriðjudagur, 13. febrúar 2018

 

Hinn 8. september 2016 er haldinn fundur í Úrskurðarnefnd Samtaka ferðaþjónustunnar og Neytendasamtakanna.

Fyrir er tekið mál nr. 2/2016. 

X

 

gegn
 

R

og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

                                                                                                   

I.
Málsmeðferð

Málsaðilar eru X frá Svíþjóð, hér eftir nefndur sóknaraðili og R, hér eftir nefndur varnaraðili.

Mál þetta barst úrskurðarnefndinni með kvörtun sóknaraðila, dags. 14. febrúar 2016. Í kjölfarið óskaði nefndin eftir frekari gögnum og upplýsingum frá sóknaraðila sem bárust, dags. 17. maí 2016. Með bréfi nefndarinnar, dags. 9. júní, var varnaraðila gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri sem hann gerði samdægurs. Með bréfi nefndarinnar, dags. 29. júní 2016, var leitað eftir afstöðu sóknaraðila til framkominna athugasemda, og var hún kunngerð með tölvupósti, dags. 4. júlí. Með bréfi nefndarinnar, dags. 8. júlí, var varnaraðila gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum sem hann gerði samdægurs. Engin frekari gögn bárust og var málið tekið fyrir á fundi nefndarinnar fimmtudaginn 8. september 2016.

II.
Málavextir

Samkvæmt framkomnum gögnum var sóknaraðili, sem er sænskur ríkisborgari, gestur á hóteli varnaraðila frá 9. ágúst til 13. ágúst 2015. Hinn 10. ágúst fór sóknaraðili í heilsulind sem staðsett var á hótelinu, en hann var þá í inniskóm sem hann fékk frá varnaraðila, en á hótelherbergjum varnaraðila er að finna inniskó og baðslopp. Sóknaraðili rann til og féll í gólfið þegar hann kom inn í búningsklefa heilsulindarinnar. Við fallið kom m.a. þungt högg á hné sóknaraðila og kallaður var til sjúkrabíll til að flytja sóknaraðila á sjúkrahús til aðhlynningar. Vegna þeirra áverka sem sóknaraðili hlaut á hné vegna fallsins var honum ómögulegt að mæta í hestaferð sem hann hafði áður bókað og greitt fyrir, en sóknarðaðila var ómögulegt að ganga óstuddur. Þegar sóknaraðili kom aftur til síns heimalands leitaði hann sér frekari læknisaðstoðar og í ljós kom að sprunga hafði myndast í hné sóknaraðila. Að sögn sóknaraðila þurfti hann, vegna ofangreindra áverka, að taka sjúkraleyfi frá vinnu eftir að heim var komið.

Sóknaraðili krefst endurgreiðslu á þeim hluta sjúkrakostnaðar sem sjúkratryggingar hans greiddu ekki, greiðslu bóta fyrir vinnutap ásamt greiðslu miskabóta. Einnig krefst sóknaraðili endurgreiðslu á hótelgistingu og hestaferð. Heildarfjárkrafa sóknaraðila er 4.132 evrur.  

III.
Málsástæður sóknaraðila og kröfugerð

Sóknaraðili kveðst hafa gist á hóteli varnaraðila í fjórar nætur, frá 9. ágúst til 13. ágúst 2015. Hann hafi farið í heilsulind sem staðsett var í hótelbyggingunni í inniskóm sem hann fékk afhenta frá varnaraðila. Sóknaraðili rann til og datt aftur fyrir sig á gólfið í dyragætt á milli setustofu og búningsklefa heilsulindarinnar. Að sögn sóknaraðila var gólfið ekki blautt heldur hafi það einfaldlega verið mjög sleipt. Engin skilti hafi þó verið til staðar til að vara við óvenju sleipu gólfi heilsulindarinnar.

Sóknaraðili var mjög þjáður eftir fallið og var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús til aðhlynningar. Þá kom lögregla einnig á staðinn þar sem atvikið átti sér stað og í málinu liggur fyrir lögregluskýrsla. Sóknaraðili gat ekki gengið án aðstoðar og gat því ekki farið í hestaferð sem fyrirhugað var að fara í þann 12. ágúst og búið var að greiða fyrir. Sóknaraðili telur að skortur á viðunandi öryggisráðstöfum hjá varnaraðila hafi ollið sóknaraðila miklum þjáningum og tekjutapi. Meginástæða ferðar sóknaraðila til Íslands hafi verið að fara í hestaferð en vegna atviksins hafi sóknaraðila ekki verið unnt að fara í þá ferð.

Sóknaraðili leitaði sér frekari læknisaðstoðar þegar hann kom aftur til síns heimalands en þá kom í ljós sprunga í hné sem sóknaraðili hafði hlotið við fallið í heilsulindinni. Vegna þessa þurfti sóknaraðili að koma reglulega í eftirfylgni hjá lækni, ásamt því að taka sjúkraleyfi frá vinnu. Þá hefur sóknaraðili orðið fyrir miklu tekjutapi og þurft að greiða töluverðan lækniskostnaði vegna þessa.

Sóknaraðili telur hótelið bera ábyrgð á slysinu og fer fram á að hótelið endurgreiði sér það tekjutap sem sóknaraðili hefur orðið fyrir vegna þess ásamt þeim lækniskostnað sem tryggingar hans hafi ekki þegar endurgreitt. Einnig fer sóknaraðili fram á skaða- og miskabætur þar sem vanræksla hótelsins á viðunandi öryggisráðstöfunum hafi leitt til skerðingar á gæðum daglegs lífs hans. Þá krefst sóknaraðili einnig endurgreiðslu á hótelgistingu. Heildarfjárkrafa sóknaraðila á hendur varnaraðila er greiðsla á 4.132 evrum.

 

IV.
Málsástæður varnaraðila og kröfugerð

Varnaraðili tekur fram að tryggingarfélag varnaraðila hafi farið yfir kröfugerð sóknaraðila og að þeirri yfirferð lokinni komist að þeirri niðurstöðu að varnaraðili sé ekki bótaskyldur vegna atviksins. Það er mat varnaraðila að hann sé ekki bótaskyldur í máli þessu þar sem að umrædd heilsulind, þar sem atvikið átti sér stað, er sjálfstætt starfandi fyrirtæki sem tengist hótelrekstri varnaraðila ekki að öðru leyti en því að heilsulindin er staðsett í kjallara hótelsins. Heilsulindinn hefur hætt starfsemi og fór úr húsnæðinu þann 1. maí 2016.

Þá vil varnaraðili benda á að varnaraðili hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að dvöl sóknaraðila yrði með allra skást móti eftir að hann slasaðist, þrátt fyrir að bera með engu móti ábyrgð á fyrrgreindu slysi sóknaraðila. Varnaraðili útvegaði sóknaraðila m.a. hjólastól til að auðvelda honum að komast um. Einnig veitti varnaraðili sóknaraðila aukna þjónustu, þ.á.m. sérstaka herbergisþjónustu og kvöldverð á veitingastað hótelsins, sóknaraðila að kostnaðarlausu.

Þá vísar varnaraðili í tölvupóstsamskipti sín við tryggingarfélag sitt. En þar kemur fram að gólffletir þar sem umrætt atvik átti sér stað hafi ekki verið hreinsað sérstaklega, bónaðir eða önnur vinna framkvæmd á þeim áður en slysið átti sér stað. Þá vill varnaraðili benda á að inniskór sem sóknaraðili var í, þegar slysið átti sér stað, séu eingöngu ætlaðir til notkunar inni á hótelherbergjum varnaraðila en þrátt fyrir það ættu inniskórnir að henta til notkunar á öllum gólfflötum.

V.
Álit

Úrskurðarnefnd Neytendasamtakanna og Samtaka ferðaþjónustunnar starfar á grundvelli ákvæða samþykkta úrskurðarnefndarinnar dags. 23. febrúar 2010. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. samþykkta nefndar tekur úrskurðarnefndin til meðferðar og úrskurðar, eftir því sem reglur samþykktanna gera ráð fyrir, hvers konar kvartanir frá neytendum vegna kaupa á vöru og/eða þjónustu af fyrirtækjum innan Samtaka ferðaþjónustunnar. Fyrirtækin skuldbinda sig til að fylgja ákvörðun nefndarinnar og greiða hugsanlegar bætur, hafi úrskurður nefndarinnar kveðið á um bótagreiðslur innan fjögurra vikna frá úrskurðardegi.

 

Það er mat nefndarinnar að sóknaraðili hafi beint kröfum sínum að röngum aðila. Ljóst er að umrædd heilsulind, þar sem atvikið átti sér stað, var starfrækt í sama húsnæði og varnaraðili en störf hennar voru sjálfstæð og ótengd starfsemi varnaraðila.  Þá er heilsulindinn ekki aðili að Samtökum ferðaþjónustunnar. Að framansögðu meðteknu og með vísan til 1. mgr. 1. gr. samþykkta nefndarinnar ber nefndinni að frávísa máli sóknaraðila.

 

 

Úrskurðarorð

Kröfum X á hendur R er vísað frá.

 

Helena Þuríður Karlsdóttir, formaður
Helga Árnadóttir
Hrannar Már Gunnarsson